Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 805  —  496. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Halldóri Auðar Svanssyni um myndefni gervigreindar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja réttindi einstaklinga í ljósi hættunnar sem fylgir því þegar einstaklingar verða fyrir því að gervigreind útbýr myndefni sem sýnir persónu þeirra í aðstæðum eða aðgerðum sem ekki eiga sér stoð í veruleikanum?
     2.      Hyggst ráðherra leggja fram tillögur að lagabreytingum til að gæta að þessu?


    Fyrir liggur tillaga að reglugerð um samræmdar reglur um gervigreind innan ESB. Meginmarkmið tillögunnar er að styðja við þróun og nýtingu gervigreindarlausna með því að setja regluramma um gervigreind, sérstaklega með tilliti til áhættuþátta varðandi nýtingu gervigreindar. Tillagan er merkt EES-tæk og við samþykkt hennar hjá ESB hefst innleiðingarferlið í EES-samninginn. Í kjölfarið leggur ráðherra fram á Alþingi frumvarp um gervigreind sem tekur m.a. á myndefni sem ekki á sér stoð í veruleikanum.
    Í IV. kafla tillögu ESB er fjallað um gagnsæiskröfur fyrir tilteknar tegundir gervigreindar. Þar kemur fram að notendur gervigreindar, sem býr til eða meðhöndlar mynd-, hljóð- eða hreyfimyndefni sem líkist manneskjum sem eru til, hlutum, stöðum, atburðum eða öðru sem ranglega virðist ósvikið eða satt (djúpfölsun), hafa skyldu til að greina frá því að efnið hafi verið framleitt af eða meðhöndlað af gervigreind. Tillagan er ekki komin í endanlega mynd og ákvæðin geta því tekið breytingum.
    Í febrúar 2021 samþykkti Alþingis breytingalög nr. 8/2021 við almenn hegningarlög þar sem bætt var við nýrri lagagrein, 199. gr. a, þar sem í 1. mgr. er tekið upp bann við fölsun kynferðislegs myndefnis og sú breyting gerð á 1. mgr. 228. gr. laganna um bann við framleiðslu á myndefni og öðru efni á stafrænu og hliðrænu formi sem felur í sér brot gegn friðhelgi einkalífs. Núna er því refsivert að búa til, dreifa eða birta kynferðislegt myndefni af öðrum í heimildarleysi, sem og að búa til myndefni sem brýtur gegn friðhelgi einkalífs.