Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 830  —  481. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2023.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra, fulltrúa frá innviðaráðuneyti, Leigufélaginu Bríeti, HMS, Lagastoð og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Breytingartillögur meiri hlutans ná til gjaldahliðar frumvarpsins og heimilda til handa ráðherra skv. 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2023.
    
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Gerð er tillaga um að auka fjárheimild málaflokksins um 58 m.kr. til að mæta kostnaði við arfgerðargreiningu til hraðrar innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninum, en áætlað er að innleiðingin standi yfir í nokkur ár. Vonir standa til að með innleiðingunni takist að draga úr líkum á að fara þurfi í stórfelldan niðurskurð á sauðfé vegna riðu með tilheyrandi kostnaði.
    
15.10 Stjórnun og þróun orkumála.
    Gerð er tillaga um 110 m.kr. hækkun framlags þar sem uppbyggingu þrífösunar og jarðstrengjavæðingar var hraðað á yfirstandandi ári. Í kjölfar óveðurs í desember 2019 var ákveðið að hraða uppbyggingunni til að auka raforkuöryggi á landsbyggðinni. Verkefnið er að stærstum hluta fjármagnað af RARIK. Halli hefur myndast á verkefninu sem nemur um 374 m.kr. vegna áranna 2021–2022 auk 110 m.kr. halla sem nú verður gerður upp. Ekki hefur fyrr en nú verið gert ráð fyrir tilgreindum heimildum vegna verkefnisins á árinu 2023. Verið er að leita lausna vegna uppsafnaðs halla fyrri ára.
    
17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Lögð er til leiðrétting vegna bókhaldslegrar meðferðar loftslagsheimilda. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 1,4 ma.kr. aukningu gjaldaheimilda ásamt samsvarandi aukningu á tekjuhlið. Þar sem um bókhaldslega meðferð er ræða þar sem ónýttar heimildir eru jafnaðar á móti skuldbindingum á gjaldahlið er ekki þörf á greiðsluheimild og því er lagt til að greiðsluheimild falli niður.
    
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Lagt er til að auka fjárheimild málaflokks um 700 m.kr. vegna framleiðslutengdrar fjármögnunar á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Samkvæmt samningum um fjármögnun samkvæmt DRG-kerfinu við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri er greitt aukalega fyrir framleiðslu umfram framleiðsluáætlun að fullu upp að 4% en 30% fyrir framleiðslu eftir það. Liður framleiðslutengdrar fjármögnunar, eða svokallaður DRG-pottur, er til staðar fyrir þessi tilfelli en sökum mikillar framleiðslu á yfirstandandi ári dugar hann ekki til að uppfylla samninginn miðað við framleiðslu ársins. Ekki er langt síðan að farið var að starfa eftir samningnum og því hefur stýring framleiðslunnar ekki gengið eftir sem skyldi en vonast er til að með aukinni reynslu af þessu fjármögnunarfyrirkomulagi verði hægt að stýra framleiðslu spítalanna í samræmi við fjárheimildir fjárlaga hvers árs.

33.30 Lífeyrisskuldbindingar.
    Gerð er tillaga um að auka fjárheimild málaflokksins um 360 m.kr. vegna aukinnar skuldbindingar gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) vegna breytinga sem gerðar voru á áföllnum réttindum sjóðfélaga í A-deild og tóku gildi 1. júlí sl. Með þeim breytingum voru réttindi sjóðfélaga í A-deild LSR skert um 4,1% en við það virkjaðist greiðsluskylda ríkissjóðs gagnvart skerðingu á réttindum þeirra sjóðfélaga sem voru 60 ára við gildistöku samþykkta sjóðsins þegar lagabreytingar voru gerðar í árslok 2016, eða höfðu þá þegar hafið töku lífeyris. Í gildandi lögum er kveðið á um að ekki skuli nýta höfuðstól varúðarsjóðs í þessu skyni heldur skuli árlega gera upp fjárhagsleg áhrif með samningi A-deildar við ríkissjóð. Í samræmi við þetta ákvæði er lögð til 360 m.kr. hækkun vegna fjárhagslegra áhrifa frá 1. júlí sl. Ætla má að gera þurfi ráð fyrir árlegum greiðslum vegna þessa.
    
6. gr. fjárlaga.
    Gerð er tillaga um breytingu á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2023 þar sem bætt er við nýrri heimild, 5.18, til að auka við hlutafé í Leigufélaginu Bríeti ehf. til að styðja við tímabundin kaup félagsins á allt að 80 íbúðum sem leigja skal til Grindvíkinga með skilyrði um endurgreiðslu hlutafjárins með lækkun hlutafjár innan þriggja ára frá því að greiðslan var innt af hendi. Úrræðið er sett fram í samhengi við lög um sértækan húsnæðisstuðning til Grindvíkinga sem samþykkt voru á Alþingi 5. desember sl. Samkvæmt þeim lögum munu þeir sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringa á Reykjanesi fá tiltekinn húsnæðisstuðning til að lækka húsnæðiskostnað þeirra sem þurfa að leigja íbúðarhúsnæði utan Grindavíkurbæjar. Til að tryggja að til staðar séu nægar fasteignir til leigu fyrir íbúa Grindavíkur verður geta Leigufélagsins Bríetar ehf. aukin tímabundið til að standa undir slíkum kaupum. Ríkissjóður á nú þegar um 88% hlut í leigufélaginu en aðrir hlutir þess eru í eigu þriggja sveitarfélaga. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sérstaklega verði gætt að því að sölukostnaður íbúðanna haldist í lágmarki þegar að sölu þeirra kemur. Fjárlaganefnd mun fylgjast með framgangi úrræðisins með því að óska reglulega eftir skýrslum og greinargerðum frá innviðaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti og leggja mat á árangur þess. Meiri hlutinn mun óska eftir því að innviðaráðherra skili Alþingi skýrslu um framkvæmdina fyrir 1. apríl 2024.
    Til viðbótar við heimildir um eiginfjárframlag er gert ráð fyrir að í fjárlögum fyrir árið 2024 verði sérstök fjárheimild til að mæta niðurgreiðslu vaxta við lánsfjármögnun hjá Bríeti, allt að 50 m.kr. miðað við núverandi vaxtastig, sem verði endurskoðuð árlega ef vextir á markaði breytast. Þetta er talið nauðsynlegt til að gera Bríeti kleift að bjóða Grindvíkingum leigu á viðunandi kjörum. Miðað er við að uppgjör vegna vaxtaniðurgreiðslu verði liður í heildaruppgjöri vegna úrræðisins.
    Loks eru gerðar tillögur sem ekki hafa áhrif á heildarútgjöld og afkomu ríkissjóðs en um er að ræða millifærslur og breytta hagræna skiptingu fjárheimilda.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 15. desember 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form., frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson. Jódís Skúladóttir.
Jóhann Friðrik Friðriksson. Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Árnason.