Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 863  —  550. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um handtöku og afhendingu íslenskra ríkisborgara.


     1.      Hversu oft hafa íslenskir ríkisborgarar verið handteknir frá byrjun árs 2016 og afhentir öðru ríki á grundvelli handtökuskipunar vegna fyrirhugaðra réttarhalda? Í hversu mörgum þessara tilfella lá dagsetning réttarhalda ekki fyrir? Svar óskast sundurliðað eftir ríkjum, þeim afbrotum sem viðkomandi aðilar voru grunaðir um og eftir því hvort dagsetning réttarhalda lá fyrir eða ekki.
    Dómsmálaráðuneytið leitaði til embættis ríkissaksóknara við vinnslu þingfyrirspurnarinnar.     Um afhendingu á manni milli Íslands og aðildarríkja Evrópusambandsins og milli Íslands og annarra norrænna ríkja gilda lög nr. 51/2016, um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Að því er varðar norræna handtökuskipun byggja lögin á samningi Norðurlandanna sem undirritaður var þann 15. desember 2005. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 51/2016 gilda ákvæði þeirra einnig um afhendingu íslenskra ríkisborgara, þ.e. íslenskir ríkisborgarar eru afhentir til aðildarríkja Evrópusambandsins og Norðurlandanna.
    Meginreglan er sú að á íslenska ríkinu hvílir skylda til að handtaka og afhenda menn, ef lagaskilyrði eru uppfyllt, nema fyrir hendi séu synjunarástæður þær sem tilgreindar eru í lögunum og gildir það sama um íslenska og erlenda ríkisborgara að þessu leyti, sbr. þó sérskilyrði í 27. gr. laganna.
    Grundvöllur evrópskrar eða norrænnar handtökuskipunar getur verið tvenns konar; annars vegar vegna meðferðar á sakamáli eða til fullnustu á fangelsisrefsingu. Það er ekki eitt af skilyrðum fyrir afhendingu vegna meðferðar máls að dagsetning réttarhalda liggi fyrir og því mætti samkvæmt lögunum ekki hafna eða fresta afhendingu á þessum grundvelli, hvort sem um væri að ræða íslenska ríkisborgara eða erlenda. Við afhendingu vegna meðferðar máls geta mál verið á ýmsum stigum, allt frá upphafi rannsóknar og þar til dómur fellur. Ekki er því skoðað sérstaklega hvort dagsetning réttarhalda liggi fyrir þegar menn eru afhentir, hvorki vegna evrópskrar handtökuskipunar né norrænnar.
    Þegar íslensk stjórnvöld hafa fengið afhenta sakborninga til Íslands vegna meðferðar máls hér á landi er almennt ekki komin dagsetning á meðferð máls fyrir dómi enda meðferðin háð því að viðkomandi sé viðstaddur.
    Frá árinu 2013 hafa sjö íslenskir ríkisborgarar verið afhentir öðru ríki á grundvelli handtökuskipunar og allir til meðferðar sakamáls í ríkinu sem óskaði eftir afhendingu hins eftirlýsta. Málsmeðferðarreglur ríkisins sem hefur fengið viðkomandi afhentan eiga þá við um framhaldið. Með öðrum orðum eiga þær reglur sem gilda um meðferð sakamála við um málið í móttökuríkinu og er aðkomu íslenskra stjórnvalda lokið nema sett hafi verið ákveðin skilyrði fyrir afhendingunni. Íslensk stjórnvöld gætu t.d. þurft að bregðast við ef skilyrði var sett fyrir því að viðkomandi yrði sendur aftur til Íslands til afplánunar en þá þyrfti að bíða eftir niðurstöðu dóms og íslensk stjórnvöld að taka við málinu þegar sú niðurstaða lægi fyrir.
Tegund Brots Lyktir Skilyrði
Fíkniefnalagabrot Afhentur dönskum yfirvöldum í október 2013 Bann við framsali annað
Fíkniefnalagabrot Afhentur dönskum yfirvöldum í október 2013 Bann við framsali annað
Fíkniefnalagabrot Afhentur dönskum yfirvöldum í október 2013 Bann við framsali annað
Sifjaskaparbrot Afhentur dönskum yfirvöldum í febrúar 2014 Bann við framsali annað
Rán/líkamsárás Afhentur finnskum yfirvöldum í maí 2016 Bann við framsali annað
Líkamsárás Afhentur norskum yfirvöldum í nóvember 2017 Bann við framsali annað
Sifjaskaparbrot Afhentur norskum yfirvöldum í desember 2023 Bann við framsali annað
Send aftur til Íslands til að afplána.

     2.      Hefur ríkissaksóknari frestað afhendingu íslenskra ríkisborgara? Svar óskast sundurliðað eftir ástæðum og eftir ríkjum og afbrotum sem lágu til grundvallar.
    Nei, en afhendingu hefur verið hafnað í einu tilviki.

     3.      Hefur afhending íslenskra ríkisborgara verið tímabundin samkvæmt umsömdum skilyrðum? Svar óskast sundurliðað eftir skilyrðum og eftir ríkjum og afbrotum sem lágu til grundvallar.
    Sjá töflu undir svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.