Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 865  —  380. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur um lögbundnar nefndir innan sveitarfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig er háttað eftirliti með því að sveitarfélög skipi lögbundnar nefndir?
     2.      Hver er fjöldi starfandi sérstakra náttúruverndarnefnda, sem eru lögbundnar skv. 14. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, og innan hvaða sveitarfélaga eru þær starfandi?
     3.      Hverjar eru þær fastanefndir sem sinna hlutverki náttúruverndarnefnda skv. 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sundurliðað eftir nefndum og sveitarfélögum?
     4.      Hver er fjöldi lögbundinna nefnda sem sinnt er beint af sveitarstjórnum eins og heimilt er skv. 4. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, og innan hvaða sveitarfélaga starfa þær?


    Í lögum er ekki mælt fyrir um sérstakt eftirlit með því að einstök sveitarfélög skipi lögbundnar nefndir og hvílir ábyrgðin á skipan slíkra nefnda því á sveitarfélögunum sjálfum. Rétt er að nefna að innviðaráðuneytið fer með almennt eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, og öðrum löglegum fyrirmælum, að því leyti sem öðrum stjórnvöldum er ekki falið með beinum hætti að hafa eftirlit með atvikum máls, sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga. Verði ráðuneytið vart við að stjórnsýsla sveitarfélags sé ekki í samræmi við lög getur ráðuneytið ákveðið sjálft að taka stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélags til formlegrar umfjöllunar á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.
    Jafnframt má benda á að ráðuneytið staðfestir samninga um samvinnu sveitarfélaga þegar í þeim felst framsal á valdi til ákvarðanatöku um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í ljósi hlutverks náttúruverndarnefnda, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 60/2013, staðfestir ráðuneytið ekki slíka samninga og hefur þar af leiðandi ekki upplýsingar um fjölda þeirra. Þá heldur ráðuneytið ekki yfirlit yfir starfandi nefndir í sveitarfélögum og bendir á að upplýsingar um einstök sveitarfélög er hægt að nálgast hjá sveitarfélögunum sjálfum eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga eftir atvikum.
    Vegna fyrirspurnarinnar og á grundvelli 113. gr. sveitarstjórnarlaga óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá öllum sveitarfélögum um hvort á vegum þeirra störfuðu sérstakar náttúruverndarnefndir og ef ekki, hvaða fastanefnd sinnti hlutverki náttúruverndarnefnda. Jafnframt var óskað upplýsinga um fjölda lögbundinna nefnda sem sinnt er beint af sveitarstjórn. Sveitarfélögunum var veittur stuttur svarfrestur og fylgja þau svör sem bárust í töflum í viðhengi.
    Loks má nefna að samkvæmt álitum eða upplýsingum frá tíu fámennustu sveitarfélögum landsins um stöðu þeirra og getu til að sinna lögbundnum verkefnum, sem birt hafa verið á vef ráðuneytisins, eru dæmi um að lögbundnar nefndir séu ekki starfandi í viðkomandi sveitarfélögum eða verkefnum þeirra sé sinnt af öðrum sveitarfélögum.

Náttúruverndarnefndir*
Sveitarfélag Náttúruverndarnefnd Fastanefnd Sveitarstjórn Samstarf
Árborg Umhverfisnefnd
Dalabyggð Umhverfis- og skipulagsnefnd
Fjallabyggð Skipulags- og umhverfisnefnd
Fljótsdalshreppur X
Flóahreppur Umhverfis- og samgöngunefnd
Garðabær Umhverfisnefnd
Grímsnes- og Grafningshreppur Loftslags- og umhverfisnefnd
Grýtubakkahreppur X
Húnaþing vestra Skipulags- og umhverfisráð
Hvalfjarðarsveit Umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd
Hörgársveit Skipulags- og umhverfisnefnd
Kaldrananeshreppur Byggingar-, skipulags- og umhverfisnefnd
Langanesbyggð Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
Mosfellsbær Umhverfisnefnd
Múlaþing Heimastjórnir Borgarfjarðar, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar
Norðurþing Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
Reykhólahreppur Umhverfis- og náttúruverndarnefnd
Reykjanesbær Umhverfis- og skipulagsráð
Seltjarnarnesbær Umhverfisnefnd
Skaftárhreppur Umhverfis- og náttúruverndarnefnd
Snæfellsbær Umhverfis- og skipulagsnefnd
Suðurnesjabær Framkvæmda- og skipulagsráð
Sveitarfélagið Hornafjörður Umhverfis- og skipulagsnefnd
Tjörneshreppur Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
Vestmannaeyjabær Umhverfis- og skipulagsráð
Þingeyjarsveit Náttúruverndarnefnd Þingeyinga
*Alls bárust svör frá 23 sveitarfélögum. Fjöldi sveitarfélaga í töflunum tveimur er mismunandi þar sem nokkur sveitarfélög hafa sameinast um náttúruverndarnefnd.

Fjöldi lögbundinna nefnda sem sveitarstjórn sinnir beint.

Sveitarfélag Fjöldi nefnda
Árborg 0
Dalabyggð 0
Fjallabyggð 0
Fljótsdalshreppur 1
Flóahreppur 2
Garðabær 0
Grímsnes- og Grafningshreppur 1
Grýtubakkahreppur 2
Húnaþing vestra 0
Hvalfjarðarsveit 0
Hörgársveit 0
Kaldrananeshreppur 2
Mosfellsbær 0
Múlaþing 0
Norðurþing 0
Reykhólahreppur 0
Reykjanesbær 0
Seltjarnarnesbær 0
Skaftárhreppur 0
Snæfellsbær 0
Suðurnesjabær 0
Sveitarfélagið Hornafjörður 0
Tjörneshreppur 2