Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 936  —  569. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um rafræna auðkenningu og jafnrétti.


     1.      Hefur ráðherra á einhvern hátt brugðist við nýlegum úrskurði kærunefndar jafnréttismála, nr. 14/2022, þar sem fram kom að brotið hefði verið gegn lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, nr. 85/2018, með því að neita útgáfu rafrænna skilríkja til kæranda vegna fötlunar hans?
    Markmið laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð m.a. fötlun á öllum sviðum samfélagsins. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sem telja að brotið hafi verið á sér á grundvelli laganna geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála.
    Kærunefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og sæta úrskurðir hennar ekki kæru til æðra stjórnvalds. Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála í einstökum málum sæta því ekki endurskoðun af hálfu forsætisráðuneytisins.
    Niðurstaða kærunefnda í stjórnsýslunni geta gefið tilefni til þess að taka hlutaðeigandi löggjöf til endurskoðunar. Forsætisráðuneytið metur það sem svo að ekki sé þörf á endurskoðun laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, í kjölfar umrædds úrskurðar kærunefndar jafnréttismála.
    Hvað varðar efni þess úrskurðar sem vísað er til og snýr að aðgengi fatlaðs fólks að rafrænum skilríkjum er unnið að ýmsum verkefnum á vegum stjórnarráðsins með það að markmiði að tryggja stafrænt og rafrænt aðgengi fyrir fatlað fólk.
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur unnið framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027, sem einnig er landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Framkvæmdaáætlunin er unnin í samstarfi við forsætisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, innviðaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landssamtökin Þroskahjálp, Geðhjálp og ÖBÍ réttindasamtök. Áætlunin er nú til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis.
    Einn af sex flokkum áætlunarinnar varðar aðgengi og snúa tvær aðgerðir að rafrænu og stafrænu aðgengi að þjónustu og upplýsingum. Aðgerðirnar miða báðar að því að uppfylla ákvæði 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem fjallað er um aðgengi. Kemur þar fram að til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skuli aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja því aðgengi, til jafns við aðra, að upplýsingum og samskiptum, þar á meðal að rafrænni þjónustu. Þau skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til að bæta aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu. Einnig skal við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfa þar að lútandi frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.
    Aðgerð B.1 felst í því að tryggja stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi á heimasíðum opinberra aðila. Stafrænt Ísland hefur mótað efnisstefnu og aðgengisstefnu sem nýta má sem leiðarvísi um hvernig þróa megi vefsíður og stafrænar lausnir með ólíka notendahópa í huga. Vefsvæði Ísland.is, þ.m.t. þeirra stofnana sem nýta sér þann möguleika að hafa sína vefi á miðlægri gátt Ísland.is er í samræmi við stefnurnar. Til þess að auka stafrænt aðgengi að upplýsingum um þjónustu og réttindi er lagt til að þær stefnur verði formlega kynntar ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum. Aðgerð B.2 felst í þróun lausna til að greiða aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni þjónustu, með áherslu á aðgengi að heilbrigðisgáttum og fjármálaþjónustu bankastofnana. Horft verði til stöðu þeirra einstaklinga sem hafa persónulega talsmenn samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, en jafnframt verði lausnir þróaðar sem nýst geti fleiri markhópum sem ekki hafa bein umráð yfir rafrænu auðkenni. Kortlagðar verði nauðsynlegar laga- og reglugerðarbreytingar og tæknilegar útfærslur ásamt tíma- og kostnaðaráætlun fyrir þróun lausna.
    Í lok árs 2022 var persónulegum talsmönnum fatlaðs fólks, með svokölluðum talsmannagrunni, gert kleift að fá aðgang að stafrænu pósthólfi umbjóðenda sinna, en þangað berast m.a. erindi frá opinberum aðilum. Í mars 2023 skrifuðu félags- og vinnumarkaðsráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra undir viljayfirlýsingu um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Í kjölfar undirritunar fór af stað spretthópur sem falið var að vinna í samræmi við viljayfirlýsingu ráðherranna. Til að vinna áfram að útfærslu tillagna og tryggja aukið samstarf á milli aðila innan og utan stjórnkerfisins var í framhaldinu skipaður stærri hópur sem falið var að leggja mat á þær tillögur sem fram komu í spretthópnum ásamt því að þróa hugmyndir og útfærslu lausna á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Áætlað er að tillögur að lausnum ásamt tíma- og kostnaðaráætlun liggi fyrir á árinu 2024.
    Dómsmálaráðuneytið vinnur nú að því ásamt Þjóðskrá að koma lögræðisskrá á það form að lögráðamenn geti fengið aðgang að pósthólfi þess sem hefur misst lögræði. Með því verður lögræðismönnum gert auðveldara að sinna lögboðnum störfum sínum. Þá verður áfram unnið að því að aðrir sem að lögum skulu gæta hagsmuna annarra geti án fyrirhafnar fengið aðgang að stafræna pósthólfinu.
    Reglugerð um framkvæmd laga um stafrænt pósthólf verður að óbreyttu sett í upphafi árs 2024. Í kjölfarið verður hægt að óska eftir því að gögn sem berast í pósthólfið verði einnig send með öðrum hætti. Það má sækja um bæði á mínum síðum og á skrifstofu sýslumanns. Með því er talið að stigið sé stórt skref til að auka aðgengi að gögnum í stafrænu pósthólfi. Þeir sem ekki geta eða eiga erfitt með að fara inn í pósthólfið sjálfir geta þá með einföldum hætti á skrifstofu sýslumanns farið þess á leit að gögnin verði einnig send með öðrum hætti.
    Íslensk stjórnvöld hafa sett rafrænt aðgengi fatlaðs fólks á dagskrá í norrænu samstarfi. 22. mars sl. undirrituðu félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna yfirlýsingu um mikilvægi þess að fatlað fólk fái greiðari aðgang að stafrænum lausnum. Yfirlýsingin var undirrituð á fundi ráðherranna í Reykjavík.
    Innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/882 frá 17. apríl 2019 um kröfur um aðgengi að vörum og þjónustu (e. Directive (EU) 2019/882 of the European Parliament and of the Council of 17 April 2019 on the accessibility requirements for products and services) er í vinnslu. Tilskipunin felur í sér lagalegar kröfur til lágmarksaðgengileika skilgreindrar vöru og þjónustu fyrir fatlað fólk sem og aldraða. Tilskipunin skilgreinir m.a. ýmsa tæknilega eiginleika sem vörur, þjónusta o.fl. þurfa að búa yfir til að uppfylla kröfur um aðgengi. Skyldur samkvæmt tilskipuninni hvíla ýmist á framleiðendum, innflytjendum, dreifingar- og söluaðilum eða stjórnvöldum. Ljóst er að innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á ýmsum lögum hér á landi sem falla undir ábyrgðasvið ýmissa ráðuneyta.
    Jafnframt er unnið að innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/2102 frá 26. október 2016 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki. Þar verða lögfestar kröfur um aðgengi sem vefsetrum og smáforritum fyrir fartæki opinberra aðila ber að uppfylla. Kröfurnar eru í meginatriðum þær sömu og eru gerðar í aðgengisstefnu Stafræns Íslands.
    Loks má geta þess að fram hefur komið af hálfu Auðkennis ehf., sem umræddur úrskurður beinist gegn, að félagið muni skoða ítarlega hvernig gera megi úrbætur í kjölfar niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við fyrirhuguðum breytingum ákveðinna stofnana um að notkun Íslykils verði lögð niður, sbr. t.d. tilkynningu Sjúkratrygginga Íslands frá 28. ágúst sl., í ljósi þess að sumir aðilar geta ekki notað rafræn skilríki sökum fötlunar?
    Eins og segir í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er unnið að ýmsum verkefnum innan stjórnsýslunnar til að tryggja rafrænt og stafrænt aðgengi fatlaðs fólks að vörum, þjónustu og upplýsingum.
    Áform voru uppi í fjármála- og efnahagsráðuneyti um að loka eldri mínum síðum um sl. áramót. Athygli er vakin á að í því hefði ekki falist að auðkenning með Íslykli stæði hvergi til boða. Hins vegar hefur nú verið tekin ákvörðun um að fresta þeim fyrirætlunum að sinni, sbr. tilkynningu þar um: island.is/frett/frestun-a-lokun-eldri-minna-sidna-island-is
    Ástæða þess er m.a. að nú er að störfum hópur á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um þróun lausna að rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk, en til stendur að hópurinn skili af sér tillögum í upphafi næsta árs, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Þar að auki stendur til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga um stafrænt pósthólf, þar sem meðal annars verður kveðið á um heimildir til að fá gögn úr pósthólfinu einnig send með öðrum hætti, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.