Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1077  —  480. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um hagsmuni brotaþola varðandi aðgengi sakbornings að gögnum í sakamálum.


     1.      Hvernig er metið í hvaða tilvikum lögregla má synja sakborningi og/eða verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum máls skv. 3. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008? Er haft samráð við brotaþola um aðgengi að gögnum þegar slíkt mat fer fram?
    Í 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er mælt fyrir um að verjandi skuli svo fljótt sem auðið er fá aðgang að öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans. Jafnframt er verjanda heimilt að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af þeim gögnum eða kynna honum þau með öðrum hætti, sbr. 4. mgr. 37. gr. laganna. Réttur verjanda til aðgangs að gögnum máls er þó ekki fortakslaus og getur sætt takmörkunum. Í 3. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála er mælt fyrir um að lögreglu sé heimilt að synja verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef öryggi ríkisins eða almennings er í húfi ellegar brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans eða samskipti við yfirvöld í öðrum ríkjum standi því í vegi. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá framangreindri meginreglu um aðgang skjólstæðings og verjanda að gögnum.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga um meðferð sakamála kemur beiting ákvæðisins einna helst til álita þegar um er að ræða rannsóknir sem beinast að afbrotum á borð við landráð, brotum gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, sbr. X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða alvarlegum brotum sem hafa í för með sér almannahættu, sbr. XVIII. kafla sömu laga. Einnig kemur til greina að beita ákvæðinu þegar brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings verjanda eða samskipti við yfirvöld í öðrum ríkjum standa því í vegi.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er það almennt sá sem stýrir rannsókn sakamáls sem tekur ákvörðun um hvort tilefni sé til að beita 3. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála. Lögin kveða ekki á um að skylt sé að hafa samráð við brotaþola við beitingu ákvæðisins en hagsmunir brotaþola eru meðal þess sem getur haft áhrif við mat á því hvort framangreindu undantekningarákvæði skuli beitt. Þá geta brotaþolar og réttargæslumenn þeirra einnig komið afstöðu brotaþola á framfæri um takmörkun aðgengis sakbornings og verjanda að gögnum.

     2.      Getur brotaþoli kært ákvörðun lögreglu um aðgengi sakbornings og/eða verjanda að gögnum eða bjóðast honum einhver önnur úrræði varðandi aðgengi sakbornings og/eða verjanda hans að gögnum máls?
    Aðgangur sakaðs manns að gögnum máls er ein meginforsenda þess að hann geti haldið uppi vörnum í sakamáli og eru undantekningar frá því jafnan túlkaðar þröngt. Að meginreglu skal verjanda og sakborningi veitt aðgengi að öllum gögnum málsins jafnskjótt og unnt er, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála,, en í 1.– 3. mgr. ákvæðisins eru þó tilgreindar undantekningar þar frá, þar á meðal ef brýnir einkahagsmunir annarra standa því í vegi. Sakborningur, eða eftir atvikum verjandi hans, getur borið synjun um aðgengi undir dómara á grunni 1. og 3. mgr. 37. gr. laganna.
    Á hinn bóginn geta aðrir en sakborningur og verjandi ekki leitað endurskoðunar á ákvörðun lögreglu um aðgengi sakbornings og/eða verjanda að gögnum. Þó er rétt að vekja athygli á að samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga um meðferð sakamála getur vitni farið fram á að nafn þess, kennitala og heimili sem og aðrar upplýsingar, sem gætu bent til þess hvert það er, komi ekki fram í lögregluskýrslu, ef það telur hættu á að lífi, heilbrigði eða frelsi þess sjálfs ellegar náinna vandamanna þess yrði stefnt í hættu ef gert væri uppskátt hvert það er. Í því tilviki skulu upplýsingar þessar varðveittar þannig að tryggt sé að aðrir fái ekki aðgang að þeim en sá sem rannsókn stýrir og ákærandi, svo og dómari ef skýrslan er síðar lögð fyrir dóm. Skal vekja athygli vitnisins á þessum rétti þess ef tilefni er til. Sambærileg ákvæði gilda við meðferð mála fyrir dómi, sbr. 8. mgr. 122. gr. sömu laga.