Ferill 727. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1089  —  727. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 (rannsóknarnefnd almannavarna).

Flm.: Bryndís Haraldsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    IX. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Rannsóknarnefnd almannavarna, orðast svo:

    a. (28. gr.)

Skyldur rannsóknarnefndar almannavarna.

    Rannsóknarnefnd almannavarna starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum.
    Rannsóknarnefnd almannavarna skal að loknu hættuástandi rannsaka þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila, þar á meðal vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, samhæfingar- og stjórnstöðvar, lögreglu, slökkviliðs, landhelgisgæslu og almannavarnanefnda.

    b. (29. gr.)

Skýrsla rannsóknarnefndar almannavarna.

    Nú er rannsókn skv. 2. mgr. 28. gr. lokið og semur þá rannsóknarnefnd almannavarna skýrslu til ráðherra, ríkislögreglustjóra og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um niðurstöður nefndarinnar, tillögur og annað sem nefndinni þykir máli skipta.
    Skýrslan skal birt opinberlega að virtum ákvæðum 31. gr. og ákvæðum upplýsingalaga.
    Skýrslum rannsóknarnefndar almannavarna skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum.

    c. (30. gr.)

Skipan rannsóknarnefndar almannavarna.

    Alþingi kýs þrjá menn og þrjá varamenn hlutfallskosningu til fimm ára til setu í rannsóknarnefnd almannavarna. Nefndin kýs sér formann. Með nefndinni starfar maður sem skal fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara.
    Nefndarmenn rannsóknarnefndar almannavarna og starfsmenn hennar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.

    d. (31. gr.)

Heimildir rannsóknarnefndar almannavarna.

    Rannsóknarnefnd almannavarna skal hafa óhindraðan aðgang að gögnum viðbragðsaðila almannavarna og er þeim skylt að veita nefndinni hverjar þær upplýsingar sem hún óskar.
    Rannsóknarnefndinni er óheimilt að veita aðgang að trúnaðargögnum sem nefndin aflar í tengslum við rannsókn einstakra mála. Til trúnaðargagna teljast m.a. álitsgerðir, sem aflað hefur verið í tengslum við rannsókn máls, og skýrslur vitna og annarra aðila.
    Að öðru leyti en greinir í ákvæðum þessa kafla skal í starfi nefndarinnar fara eftir lögum um rannsókn samgönguslysa eftir því sem við á.

2. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að rannsóknarnefnd almannavarna verði að nýju tekin upp í lög um almannavarnir. Rannsóknarnefnd almannavarna var sett á fót með lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, en var lögð niður með lögum nr. 39/2022. Þá hafði rannsóknarnefnd almannavarna verið virkjuð einu sinni og var það í kjölfar mikils óveðurs sem skall á í desember 2019.
    Markmið laga um almannavarnir er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið. Á undanförnum árum hefur hlutverk, verksvið og ábyrgð almannavarna í íslensku samfélagi orðið æ veigameiri í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og jarðhræringa á Reykjanesskaga. Í ljósi þess óvissutímabils sem nú virðist vera hafið á skaganum og vísindamenn spá að geti jafnvel varað í áratugi eða árhundruð er ljóst að almannavarnir munu áfram skipta þjóðina verulegu máli í náinni framtíð enda kallar langvarandi almannavarnaástand á öflugar almannavarnir.
    Hlutverk rannsóknarnefndar almannavarna var, í gildistíð eldri laga, að rýna og meta framkvæmd almannavarnaaðgerða þannig að draga mætti lærdóm af reynslunni og stuðla með þeim hætti að umbótum. Með því fyrirkomulagi var ætlunin að koma í veg fyrir að framkvæmdarvaldið rannsakaði eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem störfuðu á ábyrgðarsviði þess. Til þess að tryggja að markmið um að fullnægjandi rannsókn ætti sér stað var í stað rannsóknarnefndar almannavarna í lögum nr. 39/2022 kveðið á um skyldu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra til að halda rýnifundi eftir að almannavarnastigi væri aflétt með fulltrúum viðbragðsaðila sem hefðu tekið þátt í aðgerðum, rita fundargerðir um þá rýnifundi og ábyrgð ríkislögreglustjóra á að fylgja eftir úrbótum sem lagðar eru til á slíkum fundum.
    Flutningsmönnum frumvarpsins þykir það skjóta skökku við að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra rannsaki eigin aðgerðir líkt og tilgangur eldri laga var að koma í veg fyrir. Því leggja flutningsmenn frumvarpsins til að rannsóknarnefnd almannavarna verði endurvakin. Nefndin skal gera tillögur til viðbragðsaðila og stjórnvalda um úrbætur innan kerfisins. Nefndin skal starfa sjálfstætt og rannsaka viðbrögð viðbragðsaðila að loknu hættuástandi og skila skýrslu um niðurstöður nefndarinnar til ráðherra, ríkislögreglustjóra og Alþingis.