Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1143  —  381. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Jódísi Skúladóttur um lögbundnar nefndir innan sveitarfélaga og náttúruvernd.


     1.      Hversu margar náttúruverndarnefndir, eða aðrar fastanefndir sem sinna hlutverki þeirra, hafa skilað inn lögbundinni ársskýrslu skv. 14. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum síðustu fimm ár.
    Umsjón með starfi náttúruverndarnefnda er samkvæmt náttúruverndarlögum á hendi Umhverfisstofnunar og leitaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá stofnuninni við vinnslu fyrirspurnarinnar.
    Árið 2018 skiluðu umhverfisnefndir Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar ársskýrslu til Umhverfisstofnunar. Síðan þá hafa engar skýrslur borist stofnuninni.
    Umhverfisstofnun hefur ekki kallað eftir þessum skýrslum þar sem stofnunin telur sig hvorki hafa eftirlitsskyldu með störfum náttúruverndarnefnda né sé það hlutverk stofnunarinnar að óska eftir skýrslunum. Umhverfisstofnun óskar eftir upplýsingum frá sveitarfélögum eftir þörfum.

     2.      Hversu margar náttúruverndarnefndir, eða aðrar fastanefndir sem sinna hlutverki þeirra, hafa sinnt lögbundinni skyldu um sameiginlegan fund með Umhverfisstofnun og forstöðumönnum náttúrustofa, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum síðustu fimm ár.
    Ársfundurinn sem vísað er til er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar, náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og forstöðumanna náttúrustofa. Samband Íslenskra sveitarfélaga hefur verið tengiliður sveitarfélaganna vegna fundarins. Umhverfisstofnun hefur ekki haldið sérstaklega utan um það frá hvaða sveitarfélögum fundarmenn eru né hvaða hlutverki þeir gegna, að árinu 2022 undanskildu. Ársfundurinn féll niður árið 2020 vegna COVID-19-faraldursins.
    Á ársfundinn árið 2022 mættu fulltrúar sveitarfélaganna Borgarbyggðar, Garðabæjar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Mosfellsbæjar, Rangárþings eystra, Reykhólahrepps, Reykjanesbæjar, Reykjavíkurborgar og Sveitarfélagsins Voga.

     3.      Telur ráðherra að það komi niður á verkefnum á sviði náttúruverndar að víða um land eru náttúruverndarnefndir ekki fyrir hendi en hlutverkum þeirra sinnt af öðrum fastanefndum?
    Þrátt fyrir ákvæði náttúruverndarlaga um náttúruverndarnefndir er sérstök heimild í sveitarstjórnarlögum um sameiningu nefnda.
    Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna, og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar. Mikilvægt er að sveitarfélög uppfylli hlutverk sitt samkvæmt náttúruverndarlögum óháð því með hvaða hætti þau skipa sínum nefndum til starfa þar sem skortur á umsögnum nefnda sem falið er að sinna skyldu samkvæmt náttúruverndarlögum getur leitt til ógildingar ákvarðana sveitarfélaga.
    Ráðgjöf um náttúruvernd í sveitarfélögum er gríðarlega mikilvæg og þörf fyrir hana mun aukast á komandi árum m.a. hvað varðar samspil loftslagsmála og náttúruverndar. Sveitarfélögin hafa ýmsar leiðir til að afla slíkrar ráðgjafar, t.d. að ráða til sín fagfólk menntað í umhverfis- og/eða náttúrufræðum eða kaupa slíka þjónustu af sérfræðingum en slíkt getur haft verulega jákvæða þýðingu og mögulega minnkað þörf fyrir umsagnir og leiðbeiningar ríkisstofnana. Í könnun á verkefnum náttúruverndarnefnda sem framkvæmd var í desember 2020 og lögð var fyrir fulltrúa í náttúruverndarnefndum kom í ljós nokkur skörun milli starfa náttúruverndarnefnda og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, en heilbrigðisnefndir sinna m.a. leiðbeiningum og ráðgjöf til sveitarfélaga. Þá gætu sveitarfélög sameinast um umhverfis- og/eða náttúruverndarfulltrúa eða sérfræðinga svipað og gert er með skipulags- og byggingarfulltrúa víða um land. Slíkir starfsmenn geta stutt náttúruverndarnefndir eða þær nefndir sem sinna hlutverki samkvæmt náttúruverndarlögum. Sé hugað að stuðningi og þjónustu við kjörna fulltrúa með þessum hætti skiptir minna máli hvort náttúruverndarnefnd er sjálfstæð nefnd eða sameinuð öðrum. Sveitarfélögum er tryggður sjálfsákvörðunarréttur um sín málefni í 78. gr. stjórnarskrárinnar og virðir ráðuneytið þann rétt sveitarfélaga að skipa sínum málefnum innan ramma laganna.