Ferill 833. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1254  —  833. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fullnægjandi fjármögnun meðferðarúrræða SÁÁ við ópíóíðafíkn.


Flm.: Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ásmundur Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Dagbjört Hákonardóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að tryggja SÁÁ fullnægjandi fjármögnun meðferðarúrræða við ópíóíðafíkn án þess að það komi niður á annarri starfsemi samtakanna. Fjármögnun úrræðisins verði tryggð fyrir 1. júní 2024.

Greinargerð.

    Á Íslandi geisar illviðráðanlegur ópíóíðafaraldur sem kostar tugi mannslífa á hverju ári. Stór hópur þeirra sem fallið hafa vegna hans er ungt fólk. Markmið tillögu þessarar er að tryggja það að fjármögnun meðferðarúrræða við ópíóíðafíkn sé alltaf fullnægjandi og komi jafnframt ekki niður á annarri starfsemi meðferðaraðila.
    Við ópíóíðafíkn er til gagnreynd lyfjameðferð sem hefur óumdeilanlega reynst mjög vel. Fyrir liggur að SÁÁ sinna á milli 300 og 400 einstaklingum sem þiggja slíka meðferð að staðaldri. Þrátt fyrir þann mikla fjölda sem þarf á meðferðinni að halda, og árangurinn sem hún hefur skilað, greiðir ríkið eingöngu kostnaðinn af meðferðum fyrir 90 einstaklinga. Vegna þess hve mikilvæg meðferðin er hafa SÁÁ tekið á sig viðbótarkostnaðinn sem felst í því að hafna engum um meðferð við ópíóíðafíkn. Leyfissvipting læknis til að skrifa út lyf, sem hafði um áraskeið veitt morfínfíklum skaðaminnkandi aðstoð, og var til umfjöllunar í fjölmiðlum fyrr á þessu ári er til viðbótar til þess fallin að auka enn frekar álagið á meðferðarúrræði SÁÁ.
    SÁÁ hafa verið knúin til þess að taka fjármagn úr öðrum rekstri til að sinna þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu, enda er um að ræða afar skilvirka leið til þess að bjarga mannslífum og bæta lífsgæði hópsins sem þiggur meðferðina. Bitnar þetta á öðru starfi SÁÁ sem birtist meðal annars í því að ekki er hægt að keyra sjúkrahúsið Vog á fullum afköstum og í því að loka þarf eftirmeðferðarstöðinni VÍK á sumrin. Sú nöturlega staðreynd þýðir að fjölmargir fá ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þegar þeir þurfa hana. Í ljósi þess hve víðtækur annar fíknivandi en ópíóíðafíkn er í samfélaginu er ljóst að einstaklingar, fjölskyldur og samfélagið þarf að þola mikinn skaða vegna þessa. Meira en 100 einstaklingar láta lífið á hverju ári vegna fíknivandans. Þúsundir glíma við vandann á hverjum degi, sem er bæði skaðlegt fyrir þá sjálfa, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild sinni.
    Að mati flutningsmanna er viðbragð samfélagsins ekki í samræmi við umfang og skaðsemi fíknivandans. Áætlaður kostnaður við fulla fjármögnun er um 100 milljónir króna á ári. Það er dýrt að gera of lítið og það er bjargföst trú flutningsmanna að kostnaður við fjármögnun meðferðarúrræðanna muni skila sér til baka með bættri lýðheilsu, björgun mannslífa og aukinni samfélags- og atvinnuþátttöku þeirra sem þurfa á þjónustu SÁÁ að halda.