Ferill 738. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1295  —  738. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Ágústi Bjarna Garðarssyni um lóðarleigusamninga.


     1.      Hyggst ráðherra leggja til breytingu á lögum og reglugerðum í ljósi skýrslu Sambands íslenskra sveitarfélaga um lóðarleigusamninga og mögulega heildarlöggjöf um þá sem birt var í janúar árið 2021?
    Eins og bent er á í tilvitnaðri skýrslu skortir heildstæða löggjöf um lóðarleigusamninga hér á landi. Réttarstaða aðila lóðarleigusamninga fer því aðeins eftir ákvæðum viðkomandi samnings hverju sinni og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Réttindi lóðarhafa á grundvelli slíkra samninga geta því verið mismunandi eftir sveitarfélögum. Mikilvægt er að tryggja aukið samræmi í skilmálum lóðarleigusamninga til að stuðla að jafnræði og auknum fyrirsjáanleika á þessu sviði óháð búsetu. Í tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er því lagt til í aðgerðaáætlun að lagaumgjörð verði sett um lóðarleigusamninga í þessum tilgangi (aðgerð 4.6). Gert hafði verið ráð fyrir því að frumvarp til laga um lóðarleigusamninga yrði lagt fram nú á vorþingi en framlagningu þess hefur verið frestað til næsta vetrar.

     2.      Telur ráðherra að þörf sé á auknu samræmi hjá sveitarfélögum og öðrum leigusölum lóða hvað varðar efni lóðarleigusamninga, sérstaklega að því er snertir lengd samnings og ákvæði um uppkaup leigusala?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. er þörf á samræmdum reglum um efni lóðarleigusamninga til að tryggja fyrirsjáanleika og jafnræði lóðarhafa óháð búsetu. Því er í bígerð frumvarp til laga um lóðarleigusamninga sem lagt verður fram næsta vetur.