Ferill 873. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1307  —  873. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.


Flm.: Brynhildur Björnsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarni Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jódís Skúladóttir, Guðbrandur Einarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að efla alhliða kynfræðslu og kennslu um kynheilbrigði í grunn- og framhaldsskólum.

Greinargerð.

    Með tillögunni er mennta- og barnamálaráðherra falið að efla alhliða kynfræðslu og kennslu um kynheilbrigði í grunn- og framhaldsskólum. Þar má m.a. líta til vinnu stjórnvalda á síðustu árum, til að mynda skýrslu starfshóps frá árinu 2021 um markvissari kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum og þeirra tillagna sem þar liggja fyrir. Mikilvægt er að samhengis verði gætt við þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, nr. 37/150.
    Kynlíf er mikilvægur félagslegur og tilfinningalegur hluti lífsins og fræðsla um það er grunnþáttur í þroska barna og ungmenna og mikilvægt veganesti inn í framtíðina. Börn og ungmenni verða fyrir stöðugu áreiti úr umhverfinu hvað varðar kynlíf, kynverund sína og annarra, líkamsímynd, kynferðisleg samskipti og mörk í samskiptum. Markviss alhliða kynfræðsla auk hefðbundinnar líffræðilegrar kynfræðslu eykur færni þeirra til að meta slíkar upplýsingar og taka afstöðu til þeirra á heilbrigðan og jákvæðan hátt.
    Á síðustu árum hefur skýr vilji verið fyrir breytingum sem varða kynfræðslu en stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að tryggja kynfræðslu og ofbeldisforvarnir, auk kynja-, hinsegin- og jafnréttisfræðslu í skólastarfi, samkvæmt lögum, samþykktum þingsályktunum og aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2011, en þar kemur fram að jafnrétti sé einn af sex grunnþáttum menntunar. Fyrrnefnd þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna felur í sér heildstæða stefnu í forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem miðuð er sérstaklega að börnum og ungmennum. Henni fylgir krafa um aukna fræðslu og að í hverjum grunnskóla landsins starfi forvarnateymi. Ályktunin er liður í framfylgd stjórnvalda á alþjóðlegum skuldbindingum sínum, til að mynda Istanbúl-samningnum, samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) og samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun (Lanzarote-samningnum). Aukin áhersla á markvissa alhliða kynfræðslu og kynheilbrigði er mikilvægur liður í því að standa við þær skuldbindingar.
    Þrátt fyrir framangreint, fjölda átaksverkefna, vitundarvakningu og sjálfsprottnar byltingar í samfélaginu þar sem vakin hefur verið athygli á nauðsyn markvissari fræðslu af þessum toga hefur kynfræðsla lengi verið afgangsstærð í menntun á Íslandi. Á sama tíma eykst þörfin fyrir öfluga kyn-, kynlífs- og samskiptafræðslu með hverjum deginum í samhengi við nýja heimssýn sem mótast hefur í stafrænum veruleika. Aukin notkun snjallsíma hefur fært til mörk í samskiptum, viðhaldið óraunhæfum staðalmyndum kynjanna og aukið aðgengi að klámi, sem er í besta falli mjög óraunveruleg birtingarmynd kynferðislegra samskipta og getur aldrei orðið góð kynfræðsla fyrir ungmenni. Vitundarvakningu hefur því miður ekki verið fylgt nægilega vel eftir í skólakerfinu og því er mikilvægt að taka þessi mál fastari og markvissari tökum. Byrja þarf snemma og byggja smátt og smátt upp betri þekkingu í samræmi við aldur barna og þroska. Sú sýn verður vonandi að veruleika um allt land áður en langt um líður.
    Mikilvægt er að huga vel að menntun kennara, námsefni og aðgengi að námsefni. Mennta þarf kennaranema í kynfræðslu og kennslu kynheilbrigðis og huga að samhengi þessara greina við önnur fög. Ýmsar áskoranir geta mætt kennurum í þessum greinum og er grundvallaratriði að þeir hafi þekkingu og færni til að kenna kynfræðslu á sama hátt og önnur fög. Mikilvægt er að nálgast slíka fræðslu með opnum hug og án fordóma með virðingu að leiðarljósi. Þá er einnig mikilvægt að taka tillit til nemenda úr mismunandi menningarheimum án þess þó að það komi niður á gæðum fræðslunnar. Jafnframt er gerð krafa um heildstætt alhliða námsefni í kynfræðslu sem sé aðgengilegt og nútímalegt, svari þörfum samtímans og tengist og skarist við aðrar skyldar námsgreinar, svo sem fræðslu um jafnrétti og mannréttindi.
    Börn eiga skilið að fá að þroskast og njóta þess fallegasta sem lífið býður upp á með traustar innbyggðar varnir gegn óæskilegum áhrifum frá umhverfinu. Þau eiga skilið að þekkja líkama sinn, geta sett mörk í umgengni við hann og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Markviss alhliða kynfræðsla gefur þeim mikilvæg verkfæri á þeirri vegferð. Það er mat þeirra sem standa að tillögu þessari að tillögur starfshóps eins og þær koma fram í skýrslu um markvissari kennslu um kynheilbrigði og ofbeldisforvarnir í grunn- og framhaldsskólum frá árinu 2021 svari kalli nútímans um aukið vægi kynfræðslu.