Ferill 780. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1309  —  780. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Sigríði J. Steingrímsdóttur um lækkun kosningaaldurs.


     1.      Hefur komið til skoðunar við gerð tillagna um breytingu á stjórnarskránni að kveða á um lækkun kosningaaldurs við kosningar til Alþingis í 16 ár?
    Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017 kom fram að halda ætti áfram þeirri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem unnið hefði verið að á undan í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar.
    Í samræmi við framangreint lagði ráðherra til í upphafi síðasta kjörtímabils að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, yrði endurskoðuð í heild á tveimur kjörtímabilum og að vinnan yrði áfangaskipt. Höfð yrði hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem lögð hafði verið í endurskoðun árin á undan, t.d. með þjóðfundi, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráði auk starfa stjórnarskrárnefnda árin 2005–2007 og 2013–2016, þeirri miklu samfélagslegu umræðu sem átt hafði sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hafði þegar komið fram. Miðað var við eftirfarandi skiptingu málefna:
    Á tímabilinu 2018–2021 skyldu tekin fyrir: Þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minni hluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
    Á tímabilinu 2021–2025 skyldu tekin fyrir: Kaflar stjórnarskrár um Alþingi, m.a. um fjárstjórnarvald þess, Alþingiskosningar og dómstóla, þ.e. III., IV. og V. kafli, ákvæði um þjóðkirkjuna, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og inngangsákvæði, þ.e. I., VI. og VII. kafli, og önnur efni sem ekki hafa þegar verið nefnd.
    Árin 2018–2021 hélt ráðherra fundi með formönnum og fulltrúum stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi, þar sem fjallað var um þau atriði sem talin eru upp hér að framan. Ekki náðist að ljúka umfjöllun um öll þau efni sem áætlað hafði verið að ræða á fyrra kjörtímabilinu. Mikil áhersla var lögð á samráð við almenning við stjórnarskrárvinnuna. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands var fengin til að framkvæma skoðanakönnun um viðhorf almennings til stjórnarskrár og tiltekinna atriða í stjórnarskrá. Í kjölfarið annaðist stofnunin umsjón rökræðukönnunar.
    Stjórnarskrárvinnu kjörtímabilsins lauk með framlagningu ráðherra á frumvarpi á 151. löggjafarþingi 2020–2021 þar sem mælt var fyrir breytingum á ákvæðum stjórnarskrárinnar sem varða forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds, umhverfisvernd, auðlindir náttúru Íslands og íslenska tungu. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.
    Á yfirstandandi kjörtímabili hefur áfram verið unnið að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í samræmi við það sem fram kemur í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá nóvember 2021. Í lok árs 2022 setti ríkisstjórnin af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um störf Alþingis, dómstóla og mannréttindaákvæði. Var greinargerðum sérfræðinga skilað til ráðherra í september 2023 og þá hafa verið haldin þrjú opin málþing um efni greinargerðanna í samstarfi við háskólana með aðkomu sérfræðinga og stjórnmálamanna.
    Þar með liggja fyrir tillögur sem eru afrakstur heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Þess ber þó að geta að örfá viðfangsefni hafa ekki enn fengið sérstaka rýni frá 2017. Þar er einkum um að ræða I. kafla stjórnarskrárinnar um stjórnarformið, III. kafla um alþingiskosningar, VI. kafla um trúfrelsi og þjóðkirkjuna og 78. gr. um málefni sveitarfélaga.
    Lækkun kosningaaldurs hefur lengi verið til umræðu og fjölmörg þingmál verið lögð fram á síðustu árum þess efnis. Á 131. löggjafarþingi flutti Kristján L. Möller og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um að þeir sem yrðu 18 ára á kosningaári ættu rétt til þátttöku í kosningum. Í þingsályktunartillögu þingmannanna Hlyns Hallssonar og Kolbrúnar Halldórsdóttur sem var lögð fram á 133. löggjafarþingi var gengið lengra og lagt til að kosningaaldur yrði 16 ár í stað 18 ára. Síðan þá hafa þingmenn úr ýmsum stjórnmálaflokkum lagt fram frumvörp til breytinga á stjórnarskipunarlögum í þá veru, sem ekki hafa náð fram að ganga, þar á meðal núverandi forsætisráðherra, þá sem óbreyttur þingmaður ásamt fleirum, á 144. og 145. löggjafarþingi. Í þessu sambandi má einnig nefna að ýmsir þingmenn hafa á undanförnum árum lagt fram frumvörp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna, síðar kosningalögum, um að kosningaldur til sveitarstjórnarkosninga verði lækkaður úr 18 árum í 16 ár. Lækkun kosningaaldurs til þingkosninga hefur á hinn bóginn ekki verið lögð til í þeirri vinnu sem hefur átt sér stað vegna endurskoðunar stjórnarskrárinnar á síðustu tuttugu árum eða svo, t.d. af hálfu stjórnlaganefndar, af stjórnlagaráði eða þeim stjórnarskrárnefndum sem hafa verið að störfum á því tímabili.

     2.      Hyggst ráðherra leggja til að kosningarréttur í stjórnarskránni verði miðaður við 16 ára aldur? Ef svo er ekki, hvaða rök liggja til grundvallar þeirri ákvörðun?
    Sem fyrr segir hefur heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar staðið yfir á síðasta og núverandi kjörtímabili í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar. Verður að teljast eðlilegt í slíkri heildarendurskoðun að jafnframt verði rætt um þingkosningar og kjördæmaskipan þó ekki hafi enn gefist ráðrúm til þess. Ráðherra hefur allt frá árinu 2018 fundað með formönnum þeirra flokka sem sæti eiga á Alþingi til að fjalla um hvort vilji sé til að standa saman að frumvarpi sem lagt yrði fram á núverandi kjörtímabili. Leiðarljós í undirbúningi fyrir þær viðræður hefur verið að leggja mat á hvaða tillögur séu líklegar til að eiga breiðan hljómgrunn og hvaða atriði sé mögulega brýnast að lagfæra í núverandi stjórnskipan.