Ferill 942. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1389  —  942. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020 (Loftslags- og orkusjóður).

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.



1. gr.

     a.      Í stað orðsins „Orkusjóður“ í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr., 2. mgr. 2. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: Loftslags- og orkusjóður.
     b.      Í stað orðsins „Orkusjóðs“ í 1. mgr. 2. gr., 1., 2. og 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 4. gr., 1., og 2. mgr. 5. gr., 6. gr., 7. gr., 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: Loftslags- og orkusjóðs.
     c.      Í stað orðsins „Orkusjóði“ í 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: Loftslags- og orkusjóði.

2. gr.

    Fyrirsögn 1. gr. laganna orðast svo: Loftslags- og orkusjóður.


3. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Loftslags- og orkusjóður skal enn fremur styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, efla hringrásarhagkerfið, auka kolefnisbindingu fyrir utan skógrækt og landgræðslu og auka viðnámsþrótt gegn loftslagsvá.
    Jafnframt er hlutverk Loftslags- og orkusjóðs að sjá um beinar stuðningsaðgerðir, svo sem styrki til kaupa á rafbílum og styrki til jarðhitaleitar, eftir atvikum hverju sinni.

4. gr.

    Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr Loftslags- og orkusjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

5. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Loftslags- og orkusjóð.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2024.


7. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012: IX. kafli laganna fellur brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Með því er ætlunin að sameina tvo sjóði sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkusjóð og Loftslagssjóð, sem styrkja verkefni sem tengjast orkuskiptum og nýsköpun á sviði loftslagsmála. Þá munu styrkveitingar ráðuneytisins til verkefna á málefnasviði þess og styrkir til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu falla undir nýjan sameinaðan sjóð sem lagt er til að muni bera nafnið Loftslags- og orkusjóður.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá árinu 2021 á Ísland að verða vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Styðja á við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar, ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.
    Markmið með frumvarpinu er að einfalda og auka við styrkveitingar á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Núverandi skipulag við styrkveitingar ráðuneytisins er óþarflega flókið og veldur aukakostnaði við umsýslu sjóða og fjármagns. Með frumvarpinu er stefnt að því að leggja enn skýrari áherslu á að verkefni sem styrkt eru stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að sameina tvo sjóði sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkusjóð og Loftslagssjóð, sem styrkja verkefni sem tengjast orkuskiptum og nýsköpun á sviði loftslagsmála. Í frumvarpinu er lagt til að sameinaður sjóður muni bera heitið Loftslags- og orkusjóður. Hlutverk sjóðsins verður að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtingar og hringrásarhagkerfis, einkum til verkefna í tengslum við aðlögun og innleiðingu nýrra loftslagsvænna lausna.
    Með frumvarpinu er lagt til að fella úr gildi IX. kafla laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, sem fjallar um Loftslagssjóð.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1994, og er það sett fram til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu og mat á áhrifum frumvarps til laga um breytingu á lögum um Orkusjóð fóru í samráðsgátt stjórnvalda 16. desember 2022 (mál nr. S-250/2022) og var umsagnarfrestur til 10. janúar 2023. Alls bárust níu umsagnir um áformin um lagasetninguna frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Íslenskri nýorku, Landsvirkjun, Landvernd, Orkustofnun, Félagi kvenna í orkumálum og tveimur fulltrúum í stjórn Loftslagssjóðs. Við undirbúning frumvarpsins var höfð hliðsjón af framangreindum umsögnum.
    Drög að frumvarpi þessu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 5. mars 2024 (mál nr. S-69/2024) og var umsagnarfrestur til 15. mars 2024. Alls bárust sjö umsagnir um frumvarpsdrögin frá Umhverfisstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Rannsóknamiðstöð Íslands, Landsvirkjun, Viðskiptaráð Íslands og Landvernd. Allar umsagnir fyrir utan eina voru jákvæðar í garð sameiningar Orkusjóðs og Loftslagssjóðs í Loftslags- og orkusjóð. Í umsögnunum kom m.a. fram að gæta þyrfti þess að tryggja jafnt fjármagn til allra málaflokka sem falla undir sjóðinn. Í framkvæmd verður gert ráð fyrir að því fjármagni sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar hverju sinni verði skipt niður á mismunandi málaflokka sjóðsins. Umsagnir um frumvarpið gáfu ekki tilefni til þess að breyta efni þess.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur almennt jákvæð áhrif á samfélagið þar sem veittir verða nýsköpunar- og innviðastyrkir sem stuðla að skilvirkari aðgerðum í loftslagsmálum og stuðla að orkuskiptum.
    Í frumvarpinu er lagt til að Loftslagssjóður og Orkusjóður verði sameinaðir í einn sjóð, Loftslags- og orkusjóð. Gert er ráð fyrir að núverandi fjárheimildir beggja sjóða renni inn í sameinaðan sjóð og frumvarpið hefur því ekki áhrif á ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í frumvarpinu er lögð til breyting á heiti Orkusjóðs sem muni heita Loftslags- og orkusjóður. Í greinunum eru lagðar til breytingar á orðalagi til samræmis við framangreinda orðalagsbreytingu.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að við 2. gr. laganna verði bætt tveimur málsgreinum varðandi hlutverk Loftslags- og orkusjóðs. Í fyrsta lagi er lagt að meginhlutverk sjóðsins verði að styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, orkunýtingar og hringrásarhagkerfis. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn hafi möguleika á að geta styrkt nýsköpunar- og innviðaverkefni varðandi kolefnisbindingu en sjóðnum er hins vegar ekki ætlað að veita almennt styrki til verkefna sem stuðla að endurheimt votlendis og verkefni sem stuðla að bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, svo sem með skógrækt og landgræðslu. Í öðru lagi er lagt til að sjóðurinn sjái um beinar stuðningsaðgerðir, svo sem styrki til kaupa á rafbílum og styrki til jarðhitaleitar, eftir atvikum hverju sinni. Á síðustu árum hefur Orkusjóði verið falin umsjón með beinum stuðningsaðgerðum af hálfu stjórnvalda í tengslum við orkuskipti og því eðlilegt að kveða á þetta nýlega hlutverk um lögum um sjóðinn. Þá verður áfram gert ráð fyrir óbreyttu hlutverki sjóðsins varðandi hagkvæma nýtingu orkuauðlinda landsins og orkuöryggi, sbr. 2. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að kveða skýrar á um að ákvarðanir stjórnar Loftslags- og orkusjóðs um styrkveitingar séu endanlegar á stjórnsýslustigi.


Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að fyrirsögn laganna verði breytt til samræmis við breytt heiti sjóðsins.


Um 6. og 7. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.