Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1394  —  194. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um brottfall úr háskólum og aðgerðir vegna kórónuveirufaraldurs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið brottfall var úr námi á háskólastigi á árunum 2010–2023, sundurliðað eftir árum og menntastofnun?
     2.      Hversu margir luku einungis hluta af tilætluðum einingum á árunum 2010–2023, sundurliðað eftir árum og menntastofnun?
     3.      Hversu margir sóttu um sérstök úrræði hjá Menntasjóði námsmanna vegna veikinda sem tengdust kórónuveirufaraldri, sundurliðað eftir árum?
     4.      Hvaða sértæku aðgerðir í tengslum við kórónuveirufaraldur var farið í til þess að koma til móts við nemendur á háskólastigi?


Brottfall var úr námi á háskólastigi á árunum 2010–2023, sundurliðað eftir árum og menntastofnun.
Skólaár 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Háskólinn á Akureyri Fjöldi 32 37 42 39 43 44 40 40 42 46 38 44 34
Háskólinn á Bifröst Fjöldi Bifröst getur ekki tekið umbeðin gögn út úr nemendaskráningarkerfinu Uglu
Háskóli Íslands Fjöldi Gögn vantar Gögn vantar 1835 1914 1493 1660 1603 1407 1406
Háskólinn á Hólum Fjöldi 30 16 30 27 8 4 6 4 Gögn vantar 8 18 52 17
Háskólinn í Reykjavík Fjöldi 352 352 411 416 261 324 346 373 482 438 367 323 286
Landbúnaðarháskóli Íslands Fjöldi 61 37 36 19 45 21 41 33 55 46 70 44 19
Listaháskóli Íslands Brottfall % Gögn úr eldra kerfi, MySchool, ekki lengur aðgengileg 11,26 7,32 8,6 8,11 7,8 8,15 6,05
     Skýringar: Brottfallsnemandi er nemandi sem var gráðunemandi og þreytti a.m.k. eina einingu en hætti námi við háskóla og fimm skólaár eru liðin frá fyrstu þreyttu einingum hans. Aðeins var óskað eftir fjöldatölu (einni heiltölu) fyrir allt skólaárið, óháð öðru en því sem fram kemur í þessari túlkun.
    Háskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands sem nota nemendaskráningarkerfið Uglu gátu ekki skilað umbeðnum upplýsingum á því sniði sem óskað var eftir, þ.e. fjöldatölum. Listaháskóli Íslands skilaði hlutfallstölum um brottfall.
    Í athugasemdum frá Háskóla Íslands kemur eftirfarandi fram: Vöruhús gagna nær ekki aftar en skólaárið 2012–2013 en spurt var um gögn aftur til ársins 2010. Skilningur á skilgreiningu um brottfall er sá að þegar ákveðið ár er skoðað, t.d. 2015, sést hversu margir nemendur hófu nýtt nám á því skólaári. Skiptinemum og gestanemendum er sleppt þar sem skilgreining brottfalls tekur aðeins til gráðunemenda. Við talningu á brottfallsnemendum eru taldir þeir nemendur sem eru hættir námi án þess að brautskrást að fimm árum liðnum frá fyrstu þreyttu einingunni. Í þessu felst að nýjustu brottfallstölur sem hægt er að birta eru vegna nemenda sem hófu nám 2018. Fyrir nemendur sem hófu nám 2019 og síðar eru ekki enn liðin fimm ár frá fyrstu þreyttu einingunum.

Fjöldi nemenda sem lauk einungis hluta af tilætluðum einingum á árunum 2010–2023, sundurliðað eftir árum og menntastofnun.
Skólaár 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022
Háskólinn á Akureyri Fjöldi 417 410 453 553 400 586 469 524 574 529 455 567 485
Háskólinn á Bifröst Fjöldi 328 283 241 249 269 329 337 403 520 569 547 579 564
Háskóli Íslands Fjöldi Gögn vantar Gögn vantar 6037 6280 6117 5919 5622 5544 5713 6215 7271 6652 6339
Háskólinn á Hólum Fjöldi 13 24 48 46 43 50 38 45 17 43 55 54 48
Háskólinn í Reykjavík Fjöldi 1223 1222 1214 1388 1376 1293 1238 1173 1281 1157 1221 1334 1269
Landbúnaðar-háskóli Íslands Fjöldi 176 167 149 154 142 150 155 129 124 140 210 176 139
Listaháskóli Íslands Hlutfall Gögn úr eldra kerfi, MySchool, ekki lengur aðgengileg 85% 88% 90% 90% 90%
     Skýringar: Hér er horft til skólaárs í heild og þar telst fullt nám vera 60 einingar, sbr. skilgreiningu á hugtakinu fullt nám. Þegar horft er til baka til liðinna skólaára er túlkunin því þannig: Fjöldi nemenda sem fengu námsmat fyrir að lágmarki 45 einingar á skólaárinu. Aðeins er leitað eftir fjöldatölu (einni heiltölu) fyrir allt skólaárið, óháð öðru en því sem fram kemur í þessari túlkun.
    Athugasemd frá Háskóla Íslands: Vöruhús gagna nær ekki aftar en skólaárið 2012–2013 en spurt var um gögn aftur til ársins 2010. Hafa ber í huga að ekki skrá sig allir nemendur í fullt nám. Einnig er ákveðinn fjöldi sem er bara við nám hluta úr skólaári og hefur því ekki tök á að skrá sig í fullt nám á skólaárinu. Það skal einnig tekið fram að töluverður hluti lýkur 54–59 ECTS sem er nánast fullt nám.
    Listaháskóli Íslands gat ekki veitt upplýsingar um fjöldatölur nemenda, aðeins hlutfallstölur.

Sértækar aðgerðir í þágu námsmanna.
    Viðfangsefnum stjórnvalda í þágu háskólanema í heimsfaraldri kórónaveiru má skipta í eftirfarandi flokka:
    1. Aðgerðir til að tryggja rekstrarsamfellu í starfsemi stofnana og skólahald á gildistíma reglna um sóttvarnir og samkomubann vegna COVID-19.
    2. Samskipti við almannavarnir og heilbrigðisráðuneyti vegna útgáfu reglna um takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar og útgáfa leiðbeininga þar að lútandi til háskóla.
    3. Fyrirspurnir frá stofnunum, samtökum og einstaklingum um túlkun á reglum um sóttvarnir og samkomubann, m.a. vegna verklegra námsþátta og prófahalds.
    4. Umsagnir til heilbrigðisráðuneytis um undanþágubeiðnir frá framangreindum reglum.
    5. Nemendafjölgun í háskólum vegna atvinnuleysis í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.
    6. Sérstök styttri menntaúrræði til að draga úr færnibili (e. skills gap) og auðvelda fólki í atvinnuleit að skipta um starfsvettvang.
    7. Sértæk námsúrræði fyrir námsmenn vegna skerts skólastarfs og fækkunar sumarstarfa fyrir námsmenn.
    8. Tímabundin efling samkeppnissjóða í vísindum og nýsköpunarsjóðs námsmanna.
    9. Undirbúningur kannana á líðan og atvinnuhorfum námsmanna með tilliti til sumarstarfa.
    10. Tilslakanir á námsframvindukröfum Menntasjóðs námsmanna og hækkun frítekjumarks fyrir námsmenn sem tóku þátt í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
    11. Sérstakur stuðningur við geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur í háskólum.
    12. Spurningakannanir og fyrirspurnir frá erlendum ríkjum og alþjóðastofnunum eins og OECD um áhrif COVID-19 á skólastarf og viðbrögð íslenskra stjórnvalda.
    13. Mikil fjölgun fjarfunda í erlendu samstarfi í háskóla- og vísindamálum um málefni tengd COVID-19, ásamt upplýsingaskiptum um viðbrögð aðildarríkja við faraldrinum til að tryggja rekstrarsamfellu í starfsemi háskóla- og vísindastofnana.

Aðgerðaáætlanir.
    Ráðuneyti háskólamála, stofnanir þess og aðrir samstarfsaðilar gerðu hver um sig eigin viðbragðsáætlanir gagnvart heimsfaraldri kórónuveiru í samræmi við tilmæli almannavarna og fyrirmyndir þar að lútandi.

Leiðbeiningar til stofnana og samstarfsaðila.
    Ráðuneytið gaf reglulega út í samráði við almannavarnir, sóttvarnalækni og heilbrigðisráðuneyti leiðbeiningar um starfsemi stofnana, sóttvarnir og þess háttar.

Samráðsfundir.
    Ráðherra hélt vikulega formlega samráðsfundi með aðilum skólasamfélagsins, þ.m.t. með rektorum háskóla og Landssamtökum íslenskra stúdenta. Fyrir liggja fundargerðir frá þessum samráðsfundum og dagskrá fundar hverju sinni.
    Haldnir voru að auki vikulega óformlegir samráðsfundir með rektorum háskóla og samstarfsnefnd háskólastigsins. Samráðsfundirnir voru nýttir til að kynna gildandi reglur hverju sinni um takmarkanir á skólastarfi vegna farsóttar og ræða útfærslu á sóttvarnaráðstöfunum í einstökum skólum, einkum útfærslu staðnáms, verklegra námsþátta og próftöku. Haldnir voru samráðsfundir með öðrum stofnunum þar sem fjallað var um ráðstafanir til að halda uppi óskertri starfsemi þrátt fyrir samkomutakmarkanir og sóttvarnareglur.

Undirbúningur og fjármögnun COVID-19 tengdra verkefna.

    Verkefnin sértæk námsúrræði í háskólum (sumarnám) og stuðningur við geðheilbrigðisþjónustu í háskólum voru undirbúin með þarfagreiningu í samráði við háskóla og Landssamtök íslenskra stúdenta. Þá lágu einnig fyrir niðurstöður kannana um líðan og fjárhagsstöðu námsmanna hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Aflað var aukinna fjárheimilda innan málefnasviðs 21 Háskólastig í fjáraukalögum 2020 og 2021 til að standa straum af átakinu og voru þessar fjárheimildir fullnýttar til átaksins. Tímabundin aukning úthlutunar úr samkeppnissjóðum og nýsköpunarsjóði námsmanna var fjármögnuð með auknum fjárheimildum innan málefnasviðs 7 Vísindi og nýsköpun í rannsóknum með fjáraukalögum og fjárlögum.
    Umfangsmiklum og óvæntum útgjöldum háskóla vegna skyldubundinnar grímunotkunar í skólastarfi var mætt innan útgjaldasvigrúms málefnasviðs 21 Háskólastig í fjárlögum og fjáraukalögum. Tímabundinni nemendafjölgun í háskólum 2021 og 2022 var mætt með auknum fjárheimildum í fjáraukalögum og nýtingu varasjóðs málefnasviðs 21 Háskólastig í fjárlögum.
    Ráðist var í átaksverkefnið Nám er tækifæri í samstarfi við félagsmálaráðuneyti þar sem kennsluframlag var greitt til skóla og fræðsluaðila fyrir stuttar og hagnýtar námsleiðir í þágu atvinnuleitenda á skrá hjá Vinnumálastofnun. Verkefninu, sem var fjármagnað með 2,7 milljarða kr. framlagi á fjárlögum 2021, var ætlað að veita atvinnuleitendum tækifæri til þátttöku í námsúrræðum á framhalds- og háskólastigi, auk framhaldsfræðslu. Þar af voru veittar 971,2 millj. kr. til háskólastigs.

Sértæk námsúrræði í háskólum.
    Stjórnvöld stóðu fyrir átakinu sértæk námsúrræði í háskólum sumrin 2020 og 2021 til að sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun ungs fólks þar sem 500 millj. kr. voru veittar til náms sem fór fram á tímabilinu 25. maí – 15. ágúst. Markhópur sérstakra námsúrræða á háskólastigi eru nemendur sem ljúka námi úr framhaldsskóla á vorönn og vildu sækja undirbúningsnám fyrir háskólanám, aðrir framtíðarháskólanemar, þáverandi háskólanemar, sem og einstaklingar sem vildu styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang. Sértæk námsúrræði sumarnáms voru námskeið ætluð nemendum sem áætla að hefja háskólanám að hausti, heildstæðir námsáfangar í tilteknum námsgreinum, stuttar hagnýtar námsleiðir á grunn- og meistarastigi, endurmenntun fyrir fagaðila eða þverfaglegt nám fyrir almenning. Á árinu 2020 nýttu 4.913 einstaklingar tækifæri til sumarnáms á 260 fjölbreyttum námskeiðum á öllum fræðasviðum. Snemma árs 2020 komu fram vísbendingar um aukna eftirspurn eftir námi í háskólum og að lokinni innritun fyrir haustönn 2020 varð ljóst að nýnemum í öllum háskólum og öllum fagsviðum hafði fjölgað um ríflega 14% frá meðaltali áranna 2018 og 2019. Aðsóknin jókst hlutfallslega mest í nám sem krefst þjálfunar í minni hópum sem er í hærri reikniflokkum, svo sem kennaranám, hjúkrunarnám og starfsmenntanám við Landbúnaðarháskóla Íslands, þó einnig sé fjölgun í félags- og hugvísindum. Við þeirri fjölgun var brugðist með hækkun fjárheimilda til málefnasviðs 21 Háskólastigs í fjáraukalögum.

Kannanir á stöðu og líðan nemenda.
    Í samvinnu við Landssamtök íslenskra stúdenta voru gerðar reglulegar kannanir á áhrifum kórónuveirufaraldursins á stöðu nemenda við háskóla á Íslandi sem voru m.a. nýttar til að meta þörf fyrir sumarnám og sálrænan stuðning fyrir námsmenn.

Efling geðheilbrigðisþjónustu við háskólanema.
    Samþykkt var í ríkisstjórn 30. apríl 2021 að verja 100 millj. kr. til eflingar geðheilbrigðisþjónustu (námsráðgjafar og sálfræðiþjónustu) í háskólum. Með framlaginu var að stærstum hluta komið til móts við óskir háskólanna og Landssamtaka íslenskra stúdenta um aukinn stuðning við geðheilbrigðisþjónustu í háskólum. Framlagið nýttist til þess að fjölga tímabundið stöðugildum náms- og starfsráðgjafa við háskólana og kaupa tíma af sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Háskólar buðu upp á námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM), fræðsluefni, netfyrirlestra og andlegan stuðning á vefjum háskólanna og í gegnum fjarfundabúnað um land allt. Þá sinntu meistaranemar í klínískri sálfræði þjónustu við nemendur og börn þeirra. Sú þjónusta var einnig í boði fyrir nemendur í öðrum háskólum.

Efling samkeppnissjóða.
    Þegar fyrirsjáanlegt varð að sumarstörf yrðu af skornum skammti sumarið 2020 brugðust stjórnvöld við fyrirsjáanlegu atvinnuleysi meðal námsmanna með eflingu Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 400 millj. kr. Sjóðurinn úthlutaði því 455 millj. kr. á árinu 2020 til sumarstarfa 552 námsmanna í 358 verkefnum tengdum rannsóknum og nýsköpun. Stjórnvöld beittu sér einnig fyrir eflingu Rannsóknasjóðs um 775 millj. kr. og 125 millj. kr. til Innviðasjóðs.

Menntasjóður námsmanna – námslán og sérúrræði.
    Fjöldi námsmanna sem fengu undanþágu frá lágmarksnámsframvindukröfu sökum kórónuveirufaraldursins voru:

Námsár Fjöldi
2019–2020 145
2020–2021 99

    Stjórn Menntasjóðs námsmanna samþykkti eftirfarandi ívilnanir til handa námsmönnum fyrir skólaárin 2020–2021 og 2021–2022 eða þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði og ýmsar takmarkanir voru í gildi bæði í skólum og í samfélaginu:
    a. Heimild til að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en vottorðum fyrir loknar einingar. Þetta var gert í ljósi þess að sumir námsmenn gátu ekki sinnt hefðbundu skólastarfi vegna röskunar á skólastarfi vegna kórónuveirunnar COVID-19. Fékk námsmaður lán fyrir umsóttar einingar í samræmi við lánsáætlun.
    b. Ef námsmaður veiktist af veirunni og gat ekki sótt skóla í lengri tíma þannig að það hafði áhrif á námsframvindu hans fékk námsmaður lán fyrir umsóttar einingar í samræmi við lánsáætlun.
    c. Námsmenn gátu sótt um aukaferðalán á þessu tímabili vegna sérstakra aðstæðna sem gátu komið upp hjá námsmanni vegna kórónuveirunnar.
    d. Til að koma til móts við atvinnuleysi meðal námsmanna vegna COVID-19 var námsmönnum heimilt skólaárin 2019–2020 og 2020–2021 að stunda sumarnám án þess að það nám tengdist námsferli námsmanns. Fjölguðu háskólar á þessu tímabili áföngum sem kenndir voru yfir sumartímann. Ekki var gerð krafa um lágmarksnámsframvindu á sumarönn og var lánað niður í 1 ECTS-einingu.
    Fjöldi námsmanna sem nýttu sér þetta úrræði var:

Námsár Fjöldi
2019–2020 121
2020–2021 113

    e. Frítekjumarkið fyrir námsmenn sem komu af atvinnumarkaði og höfðu ekki verið á námslánum síðustu sex mánuði var hækkað úr þreföldu í fimmfalt. Þetta þýddi minni skerðing námslána vegna launatekna. Þetta var m.a. gert til að auðvelda þeim sem voru atvinnulausir að fara í nám.
    f. Þá var grunnframfærsla námsmanna hækkuð tímabundið á þessum árum og námsmönnum boðið upp á viðbótarlán fyrir skólaárið 2021–2022. Lánið nam 6% álagi á grunnframfærslu framfærslulána ef námsmaður náði ekki lágmarks heimiluðu frítekjumarki.
    Boðið var upp á sumarlán fyrir námsmenn. Lánað var allt niður í eina ECTS-einingu. Frítekjumark var hækkað fimmfalt fyrir námsmenn sem komu af atvinnumarkaði sem hefðu ekki átt kost á eða fengið skert framfærslulán í námi. Boðið var upp á viðbótarlán sem nam 6% álagi á grunnframfærslu framfærslulána fyrir þá námsmenn sem ekki náðu heimiluðu frítekjumarki. Gripið var til ýmissa ívilnandi aðgerða til að koma til móts við greiðendur og námsmenn. Tímabundið voru rýmkaðar heimildir greiðenda til að sækja um undanþágu vegna fjárhagsörðugleika og þá miðað við tekjur síðustu tveggja mánaða fyrir gjalddaga. Ef undanþága var samþykkt var umræddur gjalddagi felldur niður og færður aftur á höfuðstól lánsins.
    Dregið var tímabundið úr á námsframvindukröfum með lækkun úr 15 ECTS-einingum í eina ECTS-einingu sem gerði fleiri námsmönnum kleift að fá sumarlán.
    Framfærsluviðmið voru hækkuð vegna barna námsmanna og veittur aukinn sveigjanleiki fyrir greiðendur námslána. Frítekjumark var hækkað úr 4.470.000 kr. fyrir greiðanda og maka í 8.940.000 kr. á ársgrundvelli. Auk framangreinds hækkaði tekjuviðmið um 430.000 kr. fyrir hvert barn sem greiðandi er með á sínu framfæri. Ef námsmanni hafði ekki tekist að sinna námi sínu vegna röskunar á hefðbundnu skólastarfi vegna kórónuveirunnar gat hann skilað inn staðfestingu skóla á ástundun sinni og óskað í kjölfarið eftir því að fá greitt í samræmi við lánsáætlun sína fyrir önnina. Ef skipulag skóla breyttist og námskeið færðust milli anna eða skólaára gat nemandi óskað eftir því að tekið yrði tillit til þess við mat á námsárangri. Ef námsmaður veikist af veirunni og gat ekki sótt skóla eða þreytt próf gat hann óskað eftir að tillit væri tekið til þess við útborgun námsláns. Námsmaður gat sótt um aukaferðalán á vormisseri vegna sérstakra aðstæðna vegna kórónuveirunnar. Umsóknarfrestir um námslán voru framlengdir. Hægt var að óska eftir því að tekjur námsmanna vegna vinnu þeirra við bakvarðasveitir heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar og bakvarðasveit lögreglunnar væru dregnar frá við útreikning á framfærslu námsmanns skólaárið.
    Námsmenn sem fengu útgreiddan séreignarsparnað gátu óskað eftir því að hann yrði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2020–2021.
    Við mat á umsóknum greiðenda um undanþágu frá afborgun vegna verulegra fjárhagsörðugleika var heimilað að horfa til tekjumissis á þann veg að miðað yrði við tekjur greiðanda síðustu tveggja mánaða fyrir gjalddaga og annarra sérstakra aðstæðna sem skapast höfðu hjá greiðendum vegna kórónuveirunnar.
    Eindaga námslána var frestað um 30 daga og þar með var öllum innheimtuaðgerðum einnig seinkað eins og t.d. sendingu í milli- og löginnheimtu.

Ráðstafanir einstakra háskóla.
    Hér er á eftir byggt á svörum frá háskólunum um aðgerðir sem gripið var til í kórónuveirufaraldri.

Háskólinn á Akureyri.
    Umsóknarfrestur um nám var framlengdur í júní 2020.
    Á vormisseri 2020 heimilaði háskólaráð undanþágur frá námsmatsreglum. Fyrirkomulag prófa og námsmats var aðlagað að stöðu í samfélaginu vegna COVID, próf ýmist féllu niður eða námsmati var breytt. Nemendum var boðið að breyta lokaeinkunn í „staðið“ á námsferli í stað tölulegrar einkunnar og gjald vegna endurtökuprófs var ekki innheimt á vormisseri 2020. Gert var ráð fyrir samráði við stúdenta og markmiðið að létta álagi af stúdentum vegna erfiðra aðstæðna í samfélaginu og gera stúdentum kleift að ljúka námi misserisins þannig að það hindraði ekki framgang í námi næsta árs (ákvörðun háskólaráð dags. 2. apríl 2020).
    Boðið var upp á aukapróftímabil í ágúst 2020 fyrir þá stúdenta sem náðu ekki að ljúka prófum í maí vegna COVID. Próftökugjald var ekki innheimt fyrir þetta próftímabil. Skrásetningargjald var ekki innheimt af þeim nemendum sem nýttu sér þetta próftímabil ef þeir héldu ekki áfram námi á haustmisseri. Ákvæði í námsmatsreglum um að nemandi megi einungis endurtaka próf í hverju námskeiði einu sinni gilti ekki fyrir þetta tímabil og voru nemendur sem náðu ekki að ljúka prófum sínum í maí hvattir til að nýta sér þetta og ljúka prófunum í ágúst 2020. Skólaárinu 2019–2020 var lokið að fullu með rafrænum hætti og engin próf voru haldin á vormisseri 2020 þrátt fyrir tilslakanir á samkomubanni. Brautskráning var haldin með rafrænum hætti í júní 2020 (ákvörðun háskólaráðs dags. 30. apríl 2020).
    Sumarnámskeið voru haldin sumarið 2020 ásamt þátttöku í átaki stjórnvalda um sumarstörf fyrir námsmenn.
    Árið 2020 var starfsfólki í námsráðgjöf fjölgað til að koma til móts við aukna þörf á stuðningi við nemendur ásamt því að ráðinn var sálfræðingur í hlutastöðu.
    Fyrirkomulag prófa og námsmats á haustmisseri 2020 tók einnig mið af aðstæðum í samfélaginu og engin próf haldin á prófstöðum eða í húsnæði háskólans nema um væri að ræða próf sem væru hluti af samkeppnisprófum eða í námsleiðum þar sem væru fjöldatakmarkanir í námið. Nemendum var jafnframt boðið að óska eftir að fá tölulegri einkunn í námsferli breytt í „staðið“ og ekki innheimt gjald fyrir endurtökupróf. Ákvarðanir um framkvæmd prófa og námsmats voru teknar í samræmi við leiðbeiningar stjórnvalda um fjöldatakmarkanir og með það að markmiði að eyða óvissu og létta álagi á nemendum vegna aðstæðna í samfélaginu vegna COVID. Kennsla fór að mestu leyti fram með rafrænum hætti á haustmisseri 2020 og vormisseri 2021, með staðarlotum sem haldnar voru í samræmi við sóttvarnareglur stjórnvalda.
    Skrásetningargjöld fyrir haustmisseri 2020 voru ekki innheimt af stúdentum sem höfðu áætlað að brautskrást í maí 2020 en þurftu að fresta brautskráningu fram í október 2020.
    Próf og námsmat á vormisseri og haustmisseri 2021 tóku mið af stöðu í samfélaginu á hverjum tíma og leiðbeiningar stjórnvalda um fjöldatakmarkanir hverju sinni. Áhersla var á rafræna kennslu og próf eins og hægt var og lögð áhersla á að eyða óvissu nemenda um framkvæmd prófa eins og mögulegt væri.
    Almennt var í deildum háskólans mikill sveigjanleiki á þessum tíma. Neyðarstjórn háskólans fundaði um tíma nánast daglega og reynt var að bregðast hratt við aðstæðum hverju sinni. Kennsla fór fram rafrænt, próf voru að mestu rafræn, nemendum boðið að fá námskeið metin sem „staðið“ án einkunnar og mikill sveigjanleiki að fresta námskeiðum og lengja í námstíma. Hliðra þurfti til vegna vettvangsnáms og í sumum tilfellum að finna aðrar leiðir sem „ígildi“ vettvangsheimsókna eða vettvangsnáms og þannig var nemendum sem voru t.d. á lokaári í kennaranámi og áttu að vinna á vettvangi heilt misseri gert kleift að halda sínu striki og brautskrást á réttum tíma.
    Styrkleiki Háskólans á Akureyri í rafrænum kennsluháttum og sveigjanlegu námi kom vel í ljós á þessum tíma þar sem háskólinn gat í öllum tilfellum brugðist hratt við og aðlagast aðstæðum og komið til móts við mismunandi aðstæður stúdenta og mismunandi aðstæður námsbrauta.

Háskólinn á Bifröst.
    Til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum var opnað fyrir umsóknir á allar annir skólans sem og í seinni lotur hverrar annar (hver önn skiptist í tvær sjö vikna lotur sem lýkur með námsmati áður en næsta lota hefst) svo að fólk sem missti vinnuna gæti skráð sig í nám. Aukið var við námsframboð á sumarönnum til að nemendur gætu flýtt námi sínu og verið í fullu námi allt sumarið.
    Allt nám var og er enn í fjarnámi, nemendur gátu og geta hlustað á fyrirlestra þegar þeim hentar og öll verkefnaskil eru rafræn. Allar staðlotur og Vinnuhelgar sem áttu að vera í háskólanum voru færðar á Teams og haldnar rafrænt. Nemendur fengu aukið aðgengi að starfsfólki skólans og sálfræðingur ráðinn í hlutastarf við skólann með fjárhagsaðstoð frá ráðuneytinu sem því miður var ekki framhaldið en þörfin er hins vegar áfram brýn.

Háskóli Íslands.
    Háskóli Íslands hafði lagt í mikla vinnu til að innleiða stafrænt námsumsjónarkerfi og stafrænt prófakerfi á árunum 2018 til 2020 sem voru til staðar við upphaf heimsfaraldurs í febrúar 2020. Þessi úrræði sköpuðu forsendur til þess að Háskólinn gæti fært allt nám yfir á netið við upphaf faraldurs þegar skólum landsins var lokað samkvæmt tilskipun stjórnvalda. Þessi sömu kerfi voru vitaskuld einnig til staðar þegar Háskólanum var lokað að hluta eða öllu leyti á síðari misserum faraldursins.
    Þá bætti Háskóli Íslands aðstöðu til að streyma frá vissum kennslustofum og til að taka upp kennslutengt efni í námsumsjónarkerfinu eða á staðnum í Setbergi, húsi kennslunnar. Varðandi námsumsjónarkerfið má nefna að HÍ keypti aðgang að forritinu Canvas Studio (m.a. til að efla vendikennslu) en fyrir var forritið Panopto sem m.a. er notað við upptökur í stofum. Um aðstöðuna í Setbergi má nefna að Háskólinn hefur haldið áfram að byggja þar upp vandað upptökuver, vel tækjum búið, og öfluga hljóðklefa. Þá hefur Háskólinn haldið áfram að styrkja það teymi sem sér um að streyma frá stofum.
    Í heimsfaraldrinum lagði HÍ áherslu á staðnám og próf á staðnum eftir því sem kostur var og lög og reglur leyfðu. Stefna Háskólans var sú að leitast við að halda uppi eins eðlilegu skólastarfi og aðstæður leyfðu. Segja má að það hafi tekist stóráfallalaust, ekki síst tókst að hafa mikinn hluta prófa á staðnum og nemendum gafst kostur á að sækja um aukið rými á prófstað (fárými). Á vettvangi náms- og starfsráðgjafar var þjónusta við nemendur aukin – t.d. geðheilbrigðisþjónusta – og Nemendaráðgjöf færði öll viðtöl yfir á netið.
    Á vettvangi Nemendaráðgjafar hefur skólinn haldið áfram að bæta við stuðningsúrræðum fyrir nemendur sem þurfa á námsráðgjöf eða geðheilbrigðisþjónustu að halda. Ráðnir hafa verið sálfræðingar í hlutastarf og nýir námsráðgjafar. Þá hefur verið boðið upp á fjöldann allan af námskeiðum um geðheilbrigði bæði á íslensku og ensku. Má í því samhengi nefna HAM-námskeið, núvitundarnámskeið, sálrækt auk þess sem boðið er upp á einstaklingsviðtöl á ensku og íslensku. Um tíma stóð nemendum einnig til boða fíkniráðgjöf frá sérfræðingi SÁÁ sem starfaði sem verktaki hjá HÍ.
    Megináhersla Háskólans eftir að heimsfaraldrinum lauk hefur verið sú að fá nemendur aftur í staðnám og skapa námssamfélag á háskólalóðinni. Rannsóknir sérfræðinga Háskólans sýndu að í heimsfaraldrinum dró mjög úr tengslamyndun og félagslegum samskiptum nemenda eins og búast mátti við. En rannsóknir sýna að brotthvarf úr námi er mest hjá þeim hópum sem hafa minnst tengsl við samnemendur sína, hvort heldur er í félagslífinu eða á vettvangi námsins sjálfs, t.d. í gegnum hópastarf og aðra samvinnu um úrlausn verkefna. Eftir að heimsfaraldri lauk hefur HÍ lagt áherslu á að styrkja móttöku nýnema á staðnum og efla félagslífið í samvinnu við félag stúdenta. Auk þess hefur Háskóli Íslands haldið áfram í þróun stafrænna kennsluhátta til að auka fjölbreytni í námsmati og tengslamyndun nemenda og kennara og stuðla að bættu aðgengi að námi. Háskólinn hefur einnig lagt áherslu á að auka fjarnám á völdum námsleiðum á undanförnum misserum og efla gæði þess.
    Þá ber að nefna í þessu samhengi að deildir skólans hafa líka gripið til ýmissa úrræða til að efla námssamfélagið á lóðinni eftir heimsfaraldurinn.

Háskólinn á Hólum.
    Staðbundin kennsla var flutt yfir í fjarkennslu á Zoom. Staðbundnum fyrirlestrum nemenda var breytt í verkefni. Staðpróf urðu að fjarprófum. Staðbundin kennsla í hestafræði var kennd með myndböndum fyrir hópinn. Skólaárið lengdist um 2–3 vikur til að kenna verklegt í minni hópum.
    Staðbundin kennsla í ferðamáladeild varð að vinnulotum á netinu. Boðið var upp á sumarnámskeið. Stuðningur við nemendur var aukinn.
    Skólinn fékk undanþágu frá takmörkunum til þess að nemendur gætu hugsað um hrossin sín en nemendum var skipt í minni fasta hópa sem höfðu viðveru í hesthúsi á sama tíma. Verkleg kennsla varð að einka- eða paratímum þar sem nemendur sem bjuggu saman mættu á sama tíma. Sérstaða skólans er einangrun og hestahald sem þarfnaðist skipulagningar upp á nýtt.
    Takmarkanir höfðu mikil áhrif á kennsluna. Framkvæmd fjarkennslu tókst betur en búist var við í upphafi. Fenginn var kvikmyndatökumaður sem bjó á staðnum til að aðstoða við upptökur á námsefni og sýnikennslu á hestum. Gestakennarar unnu gegnum fjarkennslubúnað.

Háskólinn í Reykjavík.
    Fyrstu önnina, vorið 2020, var boðið upp á að nemendur fengju staðið, ef þeir höfðu staðist námsmatið fram að lokaprófi, og áttu þá möguleika á að sleppa lokaprófi og enda með lokaeinkunnina staðið. Námsráðgjafar fengu frjálsari hendur með að biðja deildir að koma til móts við nemendur (vegna námsmats) sem veiktust illa vegna COVID eða bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður vegna faraldursins.
    Nemendur voru hvattir til að leita til námsráðgjafa til að fara yfir stöðu sína. Viðtöl við náms- og starfsráðgjafa voru aðgengileg frá upphafi í gegnum Kara Connect. Einnig var sálfræðiaðstoð og stuðningur aðgengilegur á staðnum þegar færi gafst og einnig í gegnum myndviðtöl (Kara Connect). Vægi námsmats var breytt og aðlagað eftir þörfum, þá máttu lokapróf gilda að hámarki 50% (í stað 70% í gildandi reglum um nám og námsmat HR). Flest próf (og á tímabili) öll próf urðu heimapróf. Mörg próf voru munnleg próf og þá tekin í gegnum Zoom. Boðið var upp á staðarpróf, en þeir sem vildu frekar vera heima máttu það án útskýringa en tóku þá prófið í gegnum Zoom með rafrænni yfirsetu. Reynt var að halda húsnæðinu opnu eins og hægt var og í takt við reglugerðir, m.a. til þess að koma til móts við þá nemendur sem ekki höfðu aðstöðu heima fyrir eða voru með börn heima við sem gerðu lærdóm erfiðari.
    Þriðja próftímabil stóð nemendum til boða eina önnina og þeim að kostnaðarlausu. Þá önnina (vor 2020) höfðu nemendur því þrjá möguleika til að ljúka námskeiði.
    Boðið var upp á að nemendur gætu brautskráðst eða nálgast útskriftargögn sín utan hefðbundinna tímabila. Var það gert til að koma til móts við nemendur án þess að það kæmi niður á gæðum lokaverkefna þeirra eða hamlaði útskrift. Þannig þurfti nemandi sem ekki náði að skila ritgerð fyrir miðjan maí 2020 ekki að bíða eftir útskrift í febrúar heldur voru útskriftir keyrðar oftar. Stundatöflum var breytt miðað við reglugerðarbreytingar.

Landbúnaðarháskóli Íslands.
    Landbúnaðarháskóli Íslands fylgdi settum reglugerðum er varðaði fjölda- og fjarlægðatakmarkanir í COVID og færði mikið af sinni bóklegu kennslu úr staðarnámi á háskólastigi í fjarkennslu, með þeim kostum og göllum sem því fylgdu en eðli sumra áfanga í staðarnámi er þannig að snúið og jafnvel ómögulegt er að kenna þá í hreinni fjarkennslu. Í þeim tilfellum voru hópastærðir minnkaðar og kennt oftar, með talsvert auknu álagi á kennara og kennsluskrifstofu. Nemendum var boðin aukin aðstoð frá námsráðgjafa og kennsluskrifstofu í gegnum síma og fjarfundabúnað eftir því sem við átti. Einnig voru dæmi um að slegið væri af kröfum um mætingarskyldu í einhverjum tilfellum ef upp komu smit hjá nemendum eða þeir settir í sóttkví. Sumt af slíku var hægt að leysa með öðrum verkefnaskilum en í einhverjum tilfellum fengu þessir nemendur að mæta í verklegt undir handleiðslu kennara á öðrum tíma en aðrir nemendur. Einnig voru dæmi um að verklegri kennslu væri haldið úti í öðrum landshlutum þegar ekki mátti ferðast á milli landshluta, t.d. frá Austurlandi.

Listaháskóli Íslands.
    Kennarar fengu þjálfun í stafrænum kennsluháttum og upptökuver fyrir kennara var sett upp. Aukið var við starfshlutfall náms- og starfsráðgjafa (20% frá 1. nóv. 2020 – námsráðgjafi í 100% stöðu frá 1. jan. 2022). Boðið var upp á viðtöl hjá námsráðgjafa á Teams. Fræðsla fór fram á Teams (t.d. námstækni, seigla, samskipti, hópastarf, tímastjórnun). Veittur var styrkur fyrir sálfræðiþjónustu til nemenda. Samstarf var tekið upp við Háskólann í Reykjavík þar sem meistaranemendur í klínískri sálfræði önnuðust fræðslu og námskeið fyrir nemendur LHÍ (t.d. HAM-námskeið, kvíði, svefn, svefn barna). Fræðilegt nám (fyrirlestrar) fóru fram að stórum hluta í fjarnámi þegar samkomutakmarkanir leyfðu ekki að hópar kæmu saman. Viðburðum og sýningum nemenda var streymt í stað þess að áhorfendur og gestir kæmu í hús. Nýnemar fengu forgang í aðgengi að húsnæði. Lögð var áhersla á að nýta sóttvarnaaðferðir, í samvinnu við yfirvöld, til að raska sem minnst stundaskrám og námsframvindu nemenda. Tekin var upp hópaskipting og aðgengi að kennslurýmum aukið, t.d. á kvöldin og um helgar, þannig að fleiri gætu nýtt sér aðstöðuna. Rými voru sótthreinsuð á milli hópa. Kennsla var flutt í stærri rými. Húsnæði var endurskipulagt og hólfað niður. Settar voru upp gólfmerkingar til að stýra flæði um byggingar. Kveðið var á um notkun hlífðarbúnaðar og gagnsæ skilrúm sett upp fyrir verklega námsþætti sem kröfðust nálægðar. Í nokkrum tilvikum var sótt um undanþágur frá samkomutakmörkunum vegna verklegrar kennslu.