Ferill 759. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1402  —  759. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um sjálfkrafa skráningu samkynja foreldra.


     1.      Hefur verið skoðað í ráðuneytinu að heimila sjálfkrafa skráningu samkynja foreldra sem eru í hjúskap eða í skráðri sambúð?
         Það hefur ekki komið til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu, en ráðherra hefur skipað þriggja manna nefnd, sifjalaganefnd, til þess að vinna að heildarendurskoðun á barnalögum, nr. 76/2003, og hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Sifjalaganefnd tók til starfa síðastliðið haust og er ætlað að skila ráðherra drögum að lagafrumvörpum fyrir 1. september 2024.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til þess að heimila sjálfkrafa skráningu samkynja foreldra sem eru í hjúskap eða í skráðri sambúð?
    Ráðherra telur rétt að umrætt álitaefni skoðist heildstætt í tengslum við framangreinda endurskoðun á barnalögum.

     3.      Telur ráðherra að eitthvað standi í vegi fyrir því að heimila sjálfkrafa skráningu samkynja foreldra sem eru í hjúskap eða í skráðri sambúð?
    Ef ákveðið verður að heimila sjálfkrafa skráningu samkynja foreldra sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð kann að vera að taka þurfi m.a. til endurskoðunar nýlegar breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, og lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, sbr. lög nr. 69/2023. Með þeim breytingum var einstaklingum heimilað að samþykkja sameiginlega notkun á kynfrumum eða fósturvísum fyrri maka þrátt fyrir skilnað, eða eftir atvikum notkun eftirlifandi maka á kynfrumum eða fósturvísum, í stað skyldunnar til að eyða kynfrumum eða fósturvísum ef svo bæri undir að annar aðilinn andaðist eða hjúskap eða sambúð aðila lyki. Í barnalögum er gert ráð fyrir að fyrri maki í slíkum tilvikum teljist foreldri viðkomandi barns, en ekki núverandi maki þess sem gekkst undir tæknifrjóvgun ef svo háttar til að sá sem gekkst undir tæknifrjóvgun hafi gengið í hjúskap eða skráð sig í sambúð með nýjum maka. Að öðru leyti er vísað til svars við 2. tölul. fyrirspurnarinnar um að ráðherra telji rétt að skoða umrætt álitaefni heildstætt í tengslum við endurskoðun á barnalögum.