Ferill 763. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1403  —  763. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um póstnúmer fyrir Kjósarhrepp.


    Rétt er að geta þess að Byggðastofnun hefur orðið við beiðni Kjósarhrepps.

     1.      Á hvaða grundvelli og með hvaða rökum hafnaði Byggðastofnun því að breyta póstnúmerinu 276 Mosfellsbær í 276 Kjós í mars árið 2023?
    Ráðuneytið bendir á að skv. 15. gr. laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, ákvarðar Byggðastofnun landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá og landfræðilega þekju póstnúmera. Breytingar á póstnúmeraskrá skulu ekki gerðar nema að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. reglugerðar nr. 400/2020 eru það einungis póstrekendur, sveitarfélög og opinberir aðilar sem geta gert kröfu um að póstnúmerum eða landfræðilegri þekju póstnúmera verði breytt.
    Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun barst beiðni Kjósarhrepps í mars 2023 og var hún send alþjónustuveitanda, Íslandspósti ohf., til umsagnar. Umsögn hans barst Byggðastofnun í apríl 2023 og var hún send áfram til sveitarstjóra Kjósarhrepps. Engin ákvörðun var tekin í málinu í mars 2023 en 25. nóvember 2023 barst Byggðastofnun tölvubréf frá Kjósarhreppi þar sem umsögn og rökum alþjónustuveitanda var andmælt.
    Með tölvubréfi 4. desember 2023 var Kjósarhreppi kynnt að málið væri enn til umfjöllunar hjá Byggðastofnun og alþjónustuveitanda. Rök Byggðastofnunar fyrir því að ekki hefði verið fallist á beiðnina væru í stuttu máli þau að póstnúmerakerfið hefði verið búið til í sérstökum tilgangi, þ.e. til að tryggja dreifingu á pósti. Sú staðreynd að aðrir, sem hefðu einhverra hluta vegna ákveðið að nota kerfið til annarra hluta, hefðu orðið fyrir vandræðum gæti ekki eitt og sér verið ástæða þess að kerfinu yrði breytt. Kerfinu yrði því ekki breytt ef alþjónustuveitandi í pósti legðist eindregið gegn því. Byggðastofnun hefði þó beðið alþjónustuveitanda um að skoða betur afstöðu sína.

     2.      Verður ákvörðun Byggðastofnunar um að hafna erindi sveitarstjórnar Kjósarhrepps birt, t.d. á vef stofnunarinnar? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Ákvörðun Byggðastofnunar, þar sem fallist var á kröfu Kjósarhrepps, var tekin 21. mars 2024 og birt á vef Byggðastofnunar sama dag.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að sveitarstjórn Kjósarhrepps verði að ósk sinni um að póstnúmerið beri nafn sveitarfélagsins en ekki nafn annars ótengds sveitarfélags?
    Ráðherra bendir á að ákvarðanir Byggðastofnunar í þessum málum eru kæranlegar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 42. gr. laga nr. 98/2019. Ráðherra hefur takmarkaða getu til að grípa inn í einstök mál sem þessi nema með því að hlutast til um það í samvinnu við Alþingi að lögum verði breytt. Ráðherra telur enga þörf á slíku inngripi enda ber hann fullt traust til undirstofnana sinna til að taka á þeim málum sem upp kunna að koma hverju sinni í samræmi við lög.