Ferill 827. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1419  —  827. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hafa ráðuneytið og stofnanir þess boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo er, hvernig hefur henni verið háttað? Ef svo er ekki, hyggst ráðherra sjá til þess að starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess fái slíka fræðslu?

    Heilbrigðisráðuneyti stendur reglulega fyrir fræðslufyrirlestrum fyrir starfsfólk sitt um ýmis málefni. Nýverið var haldinn fyrirlestur þar sem sérstaklega var fjallað um hatursorðræðu, hvað slík orðræða felur í sér, hvernig hún er skilgreind í lögum og alþjóðasamningum og hvernig umræða um þetta hugtak og skilningur á því hefur þróast undanfarin ár. Fyrirlesturinn var haldinn sem fjarfundur til að gera öllu starfsfólki ráðuneytisins kleift að taka þátt og í lokin gafst kostur á fyrirspurnum og umræðum.
    Heilbrigðisráðuneyti óskaði eftir upplýsingum frá stofnunum sínum um hvort þær hefðu boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk sitt um hatursorðræðu og kynþáttahatur og ef svo væri, hvernig henni hefði verið háttað.
    Stofnanir ráðuneytisins eru 15. Þetta eru Landspítali, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, sex heilbrigðisstofnanir í heilbrigðisumdæmum Austurlands, Norðurlands, Suðurlands, Suðurnesja, Vestfjarða og Vesturlands, embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands, Lyfjastofnun, Geislavarnir ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og vísindasiðanefnd.
    Þær stofnanir ráðuneytisins sem bjóða eða hafa boðið upp á fræðslu sem fellur að einhverju leyti undir efni fyrirspurnarinnar eru sex talsins: Landspítali, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Sjúkratryggingar Íslands.
    Að aftan eru upplýsingar um hvernig fræðslu ofangreindra stofnana er háttað.
    Landspítali heldur reglulega námskeið fyrir starfsfólk um jafnrétti, fjölbreytileika og inngildingu þar sem tekið er á málefnum jafnréttis og kynþáttafordóma. Eftirtalin námskeið eru haldin á eins til tveggja mánaða fresti og er hvert þeirra 2,5 klukkustundir:
     *      Jafnrétti, fjölbreytileiki og inngilding – námskeið fyrir allt starfsfólk.
     *      Equality, Diversity and Inclusion – námskeið fyrir starfsfólk á ensku.
     *      Inngildandi stjórnarhættir – námskeið fyrir stjórnendur.
    Árlega eru gerðar samskiptakannanir á Landspítala þar sem spurt er um kynþáttafordóma. Á spítalanum starfar jafnréttisnefnd sem veitir framkvæmdastjórn ráðgjöf um jafnréttismál og fjölbreytileika innan sjúkrahússins og gerir tillögur um aðgerðir til úrbóta.
    Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hefur jafnréttis- og mannréttindastefnu sem miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda sinna án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Jafnframt hefur stofnunin verklagsreglur varðandi einelti, kynbundið áreiti, kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustað. Einelti eða annað ofbeldi er með öllu óheimilt innan HH og ekki liðið í samskiptum starfsfólks eða annarra sem að starfsemi HH koma. Markmið verklagsreglnanna er að tryggja að úrræði séu fyrir hendi ef slík mál koma upp. HH býður ekki upp á formlega fræðslu eða námskeiðshald vegna hatursorðræðu eða kynþáttahaturs. Aftur á móti heldur HH nýliðafræðslu fyrir alla nýja starfsmenn á tveggja mánaða fresti þar sem jafnréttis- og mannréttindastefna HH er kynnt nýjum starfsmönnum ásamt verklagsreglum um einelti, kynbundið áreiti, kynferðislega áreitni og ofbeldi.
    Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur fengið fræðslu hjá Samtökunum ’78 um hinseginleika, m.a. hvað varðar orðræðu. Enn hefur ekki verið boðið upp á fræðslu þar sem fjallað er sérstaklega um kynþáttahatur en forstjóri hefur ákveðið að setja það á dagskrá fræðsluáætlunar stofnunarinnar.
    Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) heldur úti námskeiði á fræðsluneti stofnunarinnar þar sem fjallað er um fordóma á vinnumarkaði, áhrif þeirra og afleiðingar. Námskeiðið er hugsað sem hugvekja um fordóma í íslensku samfélagi og gagnast öllum þeim sem vinna með fjölbreyttum hópi fólks eða með fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Fjallað er um grundvallarhugtök eins og kynþátta- og menningarfordóma, birtingarmyndir þeirra á Íslandi og áhrif á andlega og líkamlega líðan einstaklinga sem verða fyrir þeim. Á námskeiðinu er líka vakin athygli á muninum á fjölbreytileika og inngildingu. Námskeiðið hefur staðið starfsfólki HSU til boða frá því í mars 2023. Starfsfólk getur sótt það á fræðslunetinu hvenær sem er. Stjórnendur eru hvattir til að tryggja starfsfólki tíma til að sækja námskeið á fræðslunetinu. Mannauðsdeild sér um að kynna námskeið fyrir starfsfólki og þau eru einnig kynnt á starfsmannafundum.
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er þátttakandi í verkefninu „Velferðarnet Suðurnesja“ sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga og ríkisstofnana á Suðurnesjum. Velferðarnetið hefur haldið námskeið fyrir starfsfólk í framlínu sem ber heitið „Fjölmenning auðgar“ og hefur það verið vel sótt af framlínustarfsfólki stofnunarinnar. Á námskeiðinu er fjallað um auðinn sem felst í margbreytileikanum og um verkfæri til að takast á við áskoranir fjölbreytileikasamfélagsins. Með námskeiðinu er unnið að því að styrkja sterka heild opinberrar þjónustu á Suðurnesjum, tryggja notendavænt viðmót í þjónustu fyrir alla einstaklinga og vellíðan starfsfólks í síbreytilegu og margbreytilegu starfsumhverfi.
    Sjúkratryggingar Íslands stóðu fyrir fræðslu með erindi á starfsmannafundi stofnunarinnar þar sem fulltrúi Samtakanna ’78 fjallaði um málefni hinsegin fólks og sneri að einhverju leyti að hatursorðræðu.
    Þess ber að geta að öllum stofnunum ráðuneytisins er skylt að hafa skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Áætlunin skal m.a. fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a laganna og 27. gr. reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustaðnum, og skal vinnuveitandi m.a. greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum. Í reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, er sérstaklega fjallað um skyldur atvinnurekanda varðandi þessi mál og um aðgerðir hans berist honum kvörtun, ábending eða vísbendingar um slíkt á vinnustað.
    Ráðherra mun áfram beita sér fyrir fræðslu um hatursorðræðu og kynþáttahatur í ráðuneytinu og stofnunum þess og hvetja til þess að allar stofnanir sinni slíkri fræðslu reglubundið og eftir atvikum í samráði við ráðuneytið.