Ferill 1075. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1570  —  1075. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016
(grunnfjárhæðir og fjöldi heimilismanna).


Frá innviðaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr.:
     a.      Tafla í 1. mgr. orðast svo:
Fjöldi heimilismanna Stuðull
1 1
2 1,33
3 1,55
4 1,68
5 1,82
6 eða fleiri 1,96

     b.      Tafla í 2. mgr. orðast svo:
Fjöldi heimilismanna Grunnfjárhæð húsnæðisbóta
1 609.504 kr.
2 810.641 kr.
3 944.732 kr.
4 1.023.967 kr.
5 1.109.298 kr.
6 eða fleiri 1.194.628 kr.

2. gr.

    Tafla í 1. mgr. 17. gr. orðast svo:
Fjöldi heimilismanna Frítekjumörk m.v. árstekjur
1 5.690.772 kr.
2 7.568.727 kr.
3 8.820.697 kr.
4 9.560.497 kr.
5 10.357.206 kr.
6 eða fleiri 11.153.914 kr.

3. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „6.500.000 kr.“ í 1. mgr. 18. gr. kemur: 12.500.000 kr.

4. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. júní 2024 og taka til húsnæðisbóta sem greiddar eru frá þeim degi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu, sem samið er í innviðaráðuneytinu, eru lagðar til breytingar á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016. Breytingarnar eru liður í aðgerðum stjórnvalda til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði sem kynntar voru 7. mars 2024. Er þar m.a. kveðið á um að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta skuli hækka um 25% og að aukið tillit verði tekið til fjölskyldustærðar þannig að húsnæðisbætur verði greiddar fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings kjarasamningum sem undirritaðir voru 7. mars 2024.
    Markmið þess er að styðja við heimili á leigumarkaði undir tilteknum tekju- og eignamörkum og þá sérstaklega barnmargar fjölskyldur og er því lagt til að við útreikning húsnæðisstuðnings verði gert ráð fyrir allt að sex einstaklingum í heimili í stað fjögurra eins og er í gildandi lögum. Er það einnig í samræmi við lög nr. 5/2024, um breytingu á lögum um sérstakan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að við útreikning húsnæðisbóta skuli taka aukið tillit til fjölda heimilismanna þannig að grunnfjárhæðir og frítekjumörk vegna húsnæðisbóta taki til allt að sex heimilismanna í stað fjögurra áður.
    Í öðru lagi er lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta til einstaklingsheimila hækki um 25% frá því sem nú gildir og aðrar grunnfjárhæðir hækki til samræmis við stuðla í a-lið 1. gr. Þá er lagt til að skerðingarmörk vegna eigna hækki í 12,5 millj. kr.
    Í þriðja lagi er lagt til að gerð verði breyting á stuðlum þannig að í stað sjö aukastafa verði tveir aukastafir, en þeir eru notaðir til útreikninga á grunnfjárhæðum húsnæðisbóta.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er lagt fram af sérstöku tilefni, þ.e. sem liður í aðgerðum til stuðnings kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði. Mat á áhrifum á sveitarfélögin var borið undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerði ekki athugasemdir við það.

6. Mat á áhrifum.
    Í frumvarpinu er lagt til að viðmið varðandi grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og frítekjumörk miðist við allt að sex einstaklinga í heimili í stað fjögurra. Munu breytingarnar helst gagnast fjölmennari fjölskyldum sem þurfa eðli máls samkvæmt á stærra húsnæði að halda. Þá munu breytingar á reglum um frítekjumörk gera foreldrum ungmenna kleift að styðja við börn sín lengur þannig að þau geti búið lengur í foreldrahúsum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um áhrif á kynin en árið 2023 voru yfir 80% umsækjenda konur í þeim tilfellum heimila þar sem aðeins var einn fullorðinn ásamt börnum. Sá hópur taldi um 22% heimila sem fengu húsnæðisbætur.
    Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna húsnæðisbóta hækki um 2,3–2,5 milljarða kr. á ársgrunni vegna þessara breytinga. Kostnaðarmatið tekur mið af þeim hópi heimila sem fengu greiddar húsnæðisbætur árið 2023. Reiknaður var mismunur af þeim útgjöldum sem hefðu orðið miðað við uppfærðar forsendur grunnfjárhæða, tekju- og eignamarka á móti raunútgjöldum ársins 2023.
    Verði frumvarp þetta að lögum getur það haft óbein áhrif á sérstakan húsnæðisstuðning sem sveitarfélög veita á grundvelli 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í greininni er aðeins kveðið á um að sveitarfélög skuli setja sér reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og gefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið út leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin í þeim efnum. Í reglum sveitarfélaganna er oft miðað við að sérstakur húsnæðisstuðningur sé ákveðið hlutfall af greiddum húsnæðisbótum, oft á bilinu 700–1000 kr. fyrir hverjar 1000 kr. sem heimili fær í húsnæðisbætur. Þannig getur hækkun grunnfjárhæða húsnæðisbóta leitt til þess að sérstakur húsnæðisstuðningur hækki í sama hlutfalli að óbreyttum reglum sveitarfélagsins. Þá geta hærri frítekjumörk fyrir heimili með fimm eða sex heimilismenn auk hækkunar á eignamörkum leitt til þess að fleiri heimili öðlist rétt til húsnæðisbóta og í einhverjum tilvikum einnig sérstaks húsnæðisstuðnings.
    Á hinn bóginn kveða reglur sveitarfélaga oft einnig á um hámark samanlagðra húsnæðis-bóta og sérstaks húsnæðisstuðnings. Þá gæti hækkun húsnæðisbóta í einhverjum tilvikum leitt til þess að sérstakur húsnæðisstuðningur lækki ef hámarkinu er náð. Æskilegt væri að sveitarfélög myndu taka til skoðunar hvort breyta þurfi reglum um hámark samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings svo hækkanir þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu skili sér til húsnæðisbótaþega, verði það samþykkt.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er í fyrsta lagi lagt til að við töflu í 1. mgr. 16. gr. laganna verði bætt tveimur nýjum flokkum þannig að tekið verði aukið tillit til fjölda heimilismanna þegar fimm, sex eða fleiri eru í heimili. Þá er aukastöfum í stuðlunum fækkað í tvo, en í dag eru stuðlarnir settir fram með sjö aukastöfum. Ekki er um efnislega breytingu að ræða á þeim stuðlum sem ná til fyrstu fjögurra flokkanna.
    Í öðru lagi er lagt til að grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til einstaklingsheimila hækki um 25% frá þeim grunnfjárhæðum sem nú eru í gildi samkvæmt reglugerð um húsnæðisbætur, nr. 1200/2016, með síðari breytingum. Grunnfjárhæðir fyrir aðra flokka hækka svo eftir nýjum stuðlum. Í eftirfarandi töflum má sjá hvernig stuðlar og grunnfjárhæðir eru nú skv. 13. gr. reglugerðar nr. 1200/2016, sbr. reglugerð nr. 1596/2022, og hvernig lagt er til að stuðlar og grunnfjárhæðir verði:


Fjöldi heimilismanna

Stuðlar

Grunnfjárhæð húsnæðisbóta skv. 13. gr. reglugerðar nr. 1200/2016

1

1

487.601 kr.

2

1,3225806

644.892 kr.

3

1,5483871

754.995 kr.

4 (eða fleiri)

1,6774194

817.912 kr.


Fjöldi heimilismanna

Stuðlar

Grunnfjárhæðir skv. frumvarpi

1

1,00

609.504 kr.

2

1,33

810.641 kr.

3

1,55

944.732 kr.

4

1,68

1.023.967 kr.

5

1,82

1.109.298 kr.

6 (eða fleiri)

1,96

1.194.628 kr.


Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að við töflu í 17. gr. verði bætt tveimur flokkum sem skilgreina frítekjumörk þegar um er að ræða heimili með fimm og sex eða fleiri einstaklingum.
    Þá er lagt til að frítekjumörk fyrir einn til fjóra einstaklinga í heimili verði færð til samræmis við frítekjumörk skv. 14. gr. reglugerðar um húsnæðisbætur, nr. 1200/2016, sbr. reglugerð nr. 1557/2023, að teknu tillit til breytingar á stuðlum.

Fjöldi heimilismanna

Stuðlar

Frítekjumörk húsnæðisbóta skv. 13. gr. reglugerðar nr. 1200/2016

1

1

5.690.772

2

1,3225806

7.526.505

3

1,5483871

8.811.518

4 (eða fleiri)

1,6774194

9.545.812


Fjöldi heimilismanna

Stuðlar

Frítekjumörk skv. frumvarpi

1

1,00

5.690.772

2

1,33

7.568.727

3

1,55

8.820.697

4

1,68

9.560.497

5

1,82

10.357.206

6 (eða fleiri)

1,96

11.153.914


Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 18. gr. laganna sem kveður á um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í gildandi lögum er miðað við 6,5 millj. kr. en skv. 15. gr. reglugerðar um húsnæðisbætur, nr. 1200/2016, sbr. reglugerð nr. 1156/2019, eru gildandi mörk 8 millj. kr. Lagt er til að sú fjárhæð verði hækkuð í 12,5 millj. kr. Í gildandi 18. gr. kemur fram að húsnæðisbætur falli niður við 60% hærri fjárhæð og munu þær því falla niður þegar eignir ná 20 millj. kr.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.