Ferill 888. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1576  —  888. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um breytingu á ákvæði um blygðunarsemisbrot.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðuneytið til skoðunar að leggja til breytingu á 209. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er fjallar um lostugt athæfi og blygðunarsemisbrot til að taka mið af tækniþróun eins og gert hefur verið við hliðstæð lagaákvæði annars staðar á Norðurlöndunum?

    Samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt. Ákvæðið sem slíkt er tæknilega hlutlaust og hefur tekið takmörkuðum breytingum frá gildistöku almennra hegningarlaga en túlkun þess í réttarframkvæmd og inntak hafa að nokkru þróast í takt við viðhorf samfélagsins.
    Til að auka refsivernd kynferðislegrar friðhelgi, einkum í ljósi aukins stafræns kynferðisofbeldis í íslensku samfélagi, voru gerðar breytingar á almennum hegningarlögum árið 2021, sbr. lög nr. 8/2021. Um frekari ástæður fyrir lagabreytingunum og samanburð við önnur lönd vísast til almennra skýringa í greinargerð með frumvarpi því er varð að nefndum lögum, en þar er meðal annars að finna ítarlega umfjöllun um 209. gr. almennra hegningarlaga.
    Á meðal þeirra breytinga sem mælt var fyrir um með lögum nr. 8/2021 var að nýju ákvæði, 199. gr. a, var bætt við almenn hegningarlög. Í 1. mgr. 199. gr. a þeirra laga er nú mælt fyrir um að hver sem í heimildarleysi útbúi, afli sér, dreifi eða birti ljósmynd, kvikmynd, texta eða sambærilegt efni af eða um nekt eða kynferðislega háttsemi annars skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, en 4 árum sé brotið stórfellt. Í dómaframkvæmd hefur háttsemi af því tagi sem lýst er í 1. mgr. 199. gr. a almennra hegningarlaga verið talin falla að háttsemi sem lýst er í 209. gr. laganna og því verið talin refsinæm þó að hún hafi verið viðhöfð fyrir gildistöku laga nr. 8/2021, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga og dóm Landsréttar frá 12. mars 2024 í máli nr. 205/2023. Þannig þykir lagabreytingin hafa aukið refsivernd þeirra sem verða fyrir brotum sem eru refsinæm samkvæmt 209. gr. laganna og eru viðhöfð fyrir tilstilli stafrænna miðla.
    Að svo komnu máli er því ekki til skoðunar að leggja til breytingar á 209. gr. almennra hegningarlaga.