Ferill 1094. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1624  —  1094. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um verklag Náttúruhamfaratryggingar Íslands við skoðun á húsnæði í Grindavík.


Frá Birni Leví Gunnarssyni, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Gísla Rafni Ólafssyni, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Eyjólfi Ármannssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Ingu Sæland, Jakobi Frímanni Magnússyni, Tómasi A. Tómassyni, Guðbrandi Einarssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Orra Páli Jóhannssyni og Bergþóri Ólasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um verklag Náttúruhamfaratryggingar Íslands við skoðun á húsnæði í Grindavík. Ráðherra skal láta gera samanburð á stöðluðu verklagi við ástandsskoðun húsnæðis og verklagi Náttúruhamfaratryggingar Íslands við mat á ástandi húsnæðis í Grindavík í kjölfar jarðskjálfta og eldgosa á undanförnum árum.
    Ráðherra skal gera grein fyrir þeim stöðlum, lögum og reglum sem fylgja skal við framkvæmd ástandsskoðunar og skýrslugerð og bera það saman við framkvæmd Náttúruhamfaratryggingar Íslands á ástandsskoðun húsnæðis í Grindavík.