Ferill 956. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1629  —  956. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um þjónustu við ungt fólk sem er ekki í vinnu, virkni eða námi.


     1.      Hversu margir einstaklingar á aldrinum 18–29 ára, sem falla undir NEET-skilgreiningu um að vera ekki í vinnu, virkni eða námi (e. Not in Education, Employment, or Training, NEET ), njóta þjónustu á vegum stofnana ráðuneytisins eða aðila sem ráðuneytið á í samstarfi við?
    Stofnanir ráðuneytisins og samstarfsaðilar þess veita þjónustu við einstaklinga sem tilheyra NEET-hópnum og eru í þörf fyrir samþætta heilbrigðis- og starfsendurhæfingu. Árið 2023 voru 506 einstaklingar sem tilheyra framangreindum hópi í úrræðum sem falla undir ábyrgðarsvið heilbrigðisráðherra. Þar af voru 72 einstaklingar í samþættri heilbrigðis- og starfsendurhæfingu hjá Janusi endurhæfingu ehf. og 434 sem fengu þjónustu innan geðsviðs Landspítala með merkingu um örorkulífeyri, en það voru 23% af heildarfjölda einstaklinga á aldrinum 18–29 ára sem fengu þjónustu geðsviðs árið 2023.
    Meðfylgjandi tafla sýnir þann fjölda sem fékk þjónustu innan geðsviðs Landspítala með merkingu um örorkulífeyri og gætu fallið undir NEET-skilgreiningu. Taflan sýnir einnig hvernig sú tala skiptist á fimm ára aldursflokka og milli þjónustuforma (legudeild, dag-, göngudeild eða bráðamóttaka) á árinu 2023. Vert er að geta þess að í sjúkraskrárkerfi Landspítala, Sögu, er ekki haldið utan um atvinnu eða námsstöðu einstaklinga eins og hún er við innlögn eða komu á deildir spítalans.

Útskriftarár Gjaldskrárflokkur SÍ á þjónustutíma Aldursflokkur Fjöldi kt. Fjöldi lega Fjöldi koma á dag-/göngudeild eða bráðamóttöku
2023 Örorkulífeyrisþegi 18–19 ára 26 9 230
2023 Örorkulífeyrisþegi 20–24 ára 169 122 3.416
2023 Örorkulífeyrisþegi 25–29 ára 206 160 4.674
Samtals 434 291 8.320

     2.      Hvaða úrræði í heilbrigðiskerfinu miðast sérstaklega að þessum hópi?
    Ýmsir sjúkdómar geta orðið til þess að fólk eigi í erfiðleikum með að stunda virkni, vinnu eða nám, til dæmis þau sem glíma við geðrænar áskoranir. Sú meðferð og endurhæfing sem stendur fólki til boða innan geðheilbrigðisþjónustu miðar að því að mæta lífsálfélagslegum þörfum notenda, þ.m.t. þeim sem falla undir NEET-skilgreiningu. Skal þess getið að í september 2023 var undirritaður þríhliða samningur milli VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs, Sjúkratrygginga Íslands og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta heilbrigðis- og starfsendurhæfingu fyrir þann hóp sem telst til NEET-hóps en er einnig með undirliggjandi geðvanda. Gert er ráð fyrir að endurhæfingartímabilið sé 12–24 mánuðir.

     3.      Telur ráðherra þörf á breytingum á þjónustu við þennan hóp?
    Vorið 2023 greindi Endurhæfingarráð í samvinnu við meðferðareiningu lyndisraskana á Landspítala, geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og VIRK – starfsendurhæfingarsjóð þá hópa NEET-ungmenna sem þurfa sérstaka aðkomu heilbrigðiskerfisins vegna undirliggjandi geðvanda og hafa þannig þörf fyrir samþætta heilbrigðis- og starfsendurhæfingu. Greiningin leiddi í ljós að tveir undirhópar NEET eru í ríkri þörf fyrir samþætta þjónustu, þ.e. 1) ungmenni með þráláta kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda; og b) ungmenni með einhverfu eða á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál. Áframhaldandi samvinna þessara aðila varð grunnurinn að samningnum við Janus endurhæfingu ehf.
    Þríhliða samningurinn við Janus endurhæfingu ehf. er einnig tveggja ára tilraunaverkefni í þjónustu við þann hóp sem þarf samþætta heilbrigðis- og starfsendurhæfingu vegna stöðu sinnar. Verkefnið er rýnt reglulega af þeim aðilum sem komu að gerð samningsins og þá er metið hvort sú þjónusta sem er í boði sé viðeigandi, uppfylli þarfir hópsins og skili árangri. Ráðherra telur því þjónustuna sem í boði er hafa gefið góða raun en það sé eftir sem áður mikilvægt að endurmeta reglulega þjónustuna af viðeigandi fagaðilum í samvinnu við sérfræðinga ráðuneytisins.