Ferill 728. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1633  —  728. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (fjarheilbrigðisþjónusta).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Sigurð Guðmundsson og gesti frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Persónuvernd, Viðskiptaráði Íslands, ÖBÍ réttindasamtökum og Landssamtökunum Þroskahjálp.
    Nefndinni bárust sex umsagnir sem aðgengilegar eru á síðu málsins á vef Alþingis. Þá barst nefndinni minnisblað frá heilbrigðisráðuneyti.
    Um efni frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Frumvarp þetta byggist á tillögum starfshóps heilbrigðisráðuneytis sem falið var að leggja fram tillögur að skilgreiningu á hugtakinu „fjarheilbrigðisþjónusta“, en starfshópurinn var settur á laggirnar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007.
    Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði að lögum og telur að mikilvæg og nauðsynleg skref séu stigin með því að skýra og samræma lagalega hugtakanotkun hvað varðar fjarheilbrigðisþjónustu. Miklar tækniframfarir hafa orðið á síðastliðnum árum og er að mati meiri hlutans brýnt að löggjöf taki mið af þeirri þróun og standi ekki í vegi fyrir henni.

Aðgengi að fjarheilbrigðisþjónustu.
    Í umsögnum ÖBÍ réttindasamtaka og Landssamtakanna Þroskahjálpar er lögð áhersla á gott aðgengi að fjarheilbrigðisþjónustu. Þar er m.a. bent á að fatlað fólk geti átt erfitt með að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu og geta ástæðurnar fyrir því verið margþættar. Auk þess kom fram við umfjöllun í nefndinni að mikilvægt væri að skilgreina leiðir fyrir þá hópa til að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu til jafns við aðra.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að öllum hópum verði tryggður aðgangur til jafns að fjarheilbrigðisþjónustu og að stafræn heilbrigðisþjónusta taki mið af þörfum ólíkra hópa. Meiri hlutinn bendir á að félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirrituðu á vormánuðum ársins 2023 viljayfirlýsingu um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar var skipaður starfshópur sem hefur nú skilað af sér tillögum um aukið aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni heilbrigðis- og fjármálaþjónustu.

Hugtakið „fjarheilbrigðisþjónusta“ (1. gr.).
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið þess efnis að ákvæði 1. gr. kynni að ýta undir óvissu um gildissvið og skarast á við aðra löggjöf á sviði velferðarmála um félagsþjónustu sveitarfélaga og önnur skyld svið.
    Í 1. tölul. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er hugtakið „heilbrigðisþjónusta“ skilgreint sem hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem er veitt í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga. Þjónusta sem kann að vera veitt á grundvelli annarra laga, svo sem laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, fellur því ekki undir þá skilgreiningu. Meiri hlutinn telur ekki að framangreint muni valda vandkvæðum við túlkun ákvæðis 1. gr. frumvarpsins eins og það er sett fram og telur því ekki ástæðu til að leggja til breytingu í þá veru.

Fyrirmæli landlæknis (4. gr.).
    Í 4. gr. frumvarpsins segir að heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skuli við skipulagningu og veitingu fjarheilbrigðisþjónustu uppfylla fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi í samræmi við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.
    Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands segir m.a. að ráðið telji nauðsynlegt að þau fyrirmæli sem vísað er til verði útfærð í reglugerð en ekki með almennum fyrirmælum stjórnvalds, þ.e. embættis landlæknis.
    Meiri hlutinn telur rétt að árétta að unnið er að stefnumótun á þessu sviði eins og fram kemur í minnisblaði frá ráðuneyti. Telur meiri hlutinn ekki næg rök vera fyrir því að bregðast við þessari athugasemd með breytingartillögu en þó er mikilvægt að ráðuneytið taki framangreindar athugasemdir til skoðunar við stefnumótunina.
    Þá telur meiri hlutinn rétt að benda á það sem fram kemur í umsögn Persónuverndar, að betur hefði farið á að vísa til 1. mgr. 5. gr. laga um landlækni og lýðheilsu í stað 1. mgr. 6. gr. í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins. Tekur ráðuneytið undir það sjónarmið í minnisblaði sínu.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Í stað orðanna „í gegnum viðeigandi og öruggan tæknibúnað“ í a-lið komi: með viðeigandi og öruggum tæknibúnaði.
     b.      Í stað orðsins „styðja“ í e-lið komi: treystir.

    Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 6. maí 2024.

Steinunn Þóra Árnadóttir,
form.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson. Jóhann Páll Jóhannsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Óli Björn Kárason.