Ferill 786. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1636  —  786. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Friðriki Friðrikssyni um skerðingar ellilífeyris.


    Áður en spurningum þeim sem fram koma í fyrirspurninni er svarað er nauðsynlegt að taka það fram að árið 2017 tóku gildi mjög umfangsmiklar breytingar á kerfi greiðslna ellilífeyris og tengdra greiðslna og voru þær sérstaklega afgerandi varðandi tekjuskerðingar, þ.m.t. þau frítekjumörk sem um er spurt. Meginbreytingin fólst í því að sameina þrjá bótaflokka (ellilífeyri, tekjutryggingu og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ellilífeyrisþega) í einn greiðsluflokk (ellilífeyri). Ellilífeyrir fyrir og eftir þessa breytingu er því í raun ekki sami greiðsluflokkurinn og af þeim sökum er samanburður þar á milli vart marktækur. Til að hafa marktækan samanburð þyrfti því að bera saman annars vegar samanlagðar skerðingar vegna tekna allra þriggja greiðsluflokka sem voru sameinaðir og hins vegar tekjuskerðingar í nýja greiðsluflokknum. Þar sem einn þessara greiðsluflokka (sérstök uppbót til framfærslu ellilífeyrisþega) var ekki með frítekjumörk og lækkaði krónu á móti krónu má segja að frítekjumark nýja ellilífeyrisins hafi verið hækkun úr núlli fyrir lægstu tekjuhópana sem nutu þess greiðsluflokks. Flestir aðrir ellilífeyrisþegar nutu í raun frítekjumarks tekjutryggingar í stað frítekjumarks ellilífeyris. Af þessum sökum eru þau svör sem hér eru gefin alfarið miðuð við nýja kerfið og því aðeins farið aftur í tímann til 2017 en ekki tíu ár þar sem það gæfi misvísandi niðurstöður milli tímabila fyrir og eftir breytingu.

     1.      Hvernig hafa skerðingar ellilífeyris þróast í krónum talið síðastliðin tíu ár?
    Gengið er út frá því að hér sé spurt um muninn á heildargreiðslum til allra ellilífeyrisþega eins og þær voru og hvernig þær hefðu orðið ef engar tekjuskerðingar væru til staðar. Tafla 1 sýnir þann mun en til skýringar má nefna að greiðslur ársins 2017 hefðu orðið 36,5 milljörðum kr. hærri ef engar tekjuskerðingar hefðu verið á því ári. Þeir bótaflokkar sem koma til skoðunar í þessu sambandi eru ellilífeyrir, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 1: Munur á heildargreiðslum til ellilífeyrisþega eins og þær voru og hvernig þær hefðu orðið ef engar tekjuskerðingar væru til staðar.

     2.      Hvað getur haft áhrif á skerðingar ellilífeyris?
    Tekjur lífeyrisþega umfram frítekjumörk hafa áhrif til lækkunar ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Samkvæmt 22. gr. laganna skal ellilífeyrisþegi við útreikning ellilífeyris hafa almennt frítekjumark sem nemur 300.000 kr. á ári. Þá skal lífeyrisþegi hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna sem nemur 2.400.000 kr. á ári. Séu tekjur lífeyrisþega umfram framangreind frítekjumörk skal lækka ellilífeyri um 45% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 21. gr. laganna. Til tekna teljast skattskyldar tekjur að teknu tilliti til frádráttarliða samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, að undanskildum greiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr viðbótarlífeyrissparnaði og lífeyrir almannatrygginga frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við.

     3.      Hver hefur þróun frítekjumarks ellilífeyris verið í krónum talið síðastliðin tíu ár?
    Frá árinu 2017 hefur almennt frítekjumark (vegna allra tekna) ellilífeyris verið 300.000 kr. á ári eða 25.000 kr. á mánuði. Frítekjumark atvinnutekna hefur verið eftirfarandi:
    Árið 2017: 0 kr.
    Árin 2018–2021: 1.200.000 kr. á ári (100.000 kr. á mánuði).
    Frá árinu 2022: 2.400.000 kr. á ári (200.000 kr. á mánuði).

     4.      Hver væru skerðingarmörk nú í krónum talið ef þau hefðu fylgt sömu þróun og persónuafsláttur?
    Almennt frítekjumark var 300.000 kr. (25.000 kr. á mánuði) árið 2017 og hefur það haldist óbreytt. Það var ekkert frítekjumark vegna atvinnutekna árið 2017, en slíkt frítekjumark var tekið upp árið 2018 og var þá 1.200.000 á ári (100.000 kr. á mánuði). Af þessum sökum er miðað við árið 2017 sem upphafsár almenna frítekjumarksins en árið 2018 sem upphafsár frítekjumarks atvinnutekna. Tafla 2 sýnir hvernig þessi frítekjumörk væru á mánuði ef þau hefðu fylgt persónuafslætti og hver þau eru í dag.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2: Fjárhæðir frítekjumarka ellilífeyris og hverjar þær væru hefðu þær fylgt persónuafslætti.

     5.      Hefur ráðuneytið gert greiningu á mismunandi fyrirkomulagi við framangreindar skerðingar með það í huga að breyta því, t.d. þannig að skerðingar verði eftir á?
    Nei, slík greiningarvinna hefur ekki farið fram. Útreikningur greiðslna miðast við tekjur greiðsluársins og skal til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum almanaksárs, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna. Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli tekna greiðsluþega.
    Þrátt fyrir framangreint hefur komið til skoðunar að við útreikning greiðslna skuli litið til fjármagnstekna ársins á undan í stað fjármagnstekna yfirstandandi árs. Sú leið þykir þó ekki gallalaus enda getur verið um að ræða tekjur sem fallið hafa til löngu fyrir þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi, t.d. söluhagnað eða arð sem greiddur hefur verið út fyrri hluta ársins. Því hefur ekki komið til þess að lagt hafi verið fram frumvarp á Alþingi um slíka breytingu á gildandi lögum en ráðuneytið hefur verið og mun áfram leita leiða, eftir atvikum í samráði við Tryggingastofnun, til að stuðla að réttum greiðslum og draga úr of- og vangreiðslum í almannatryggingakerfinu.

     6.      Hvernig hefur sala eigna áhrif á skerðingar ellilífeyris?
    Ef sala eignar myndar skattskyldan söluhagnað þá telst hún til fjármagnstekna og skerðir þá ellilífeyri. Myndi salan ekki skattskyldan söluhagnað skerðir hún aftur á móti ekki ellilífeyri.