Ferill 990. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1640  —  990. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um endurnýtingu örmerkja.


     1.      Ber íslenskum bændum að örmerkja sauðfé samkvæmt regluverki sem innleitt hefur verið frá Evrópu eða er um að ræða svokallaða gullhúðun eða innleiðingu umfram kröfur?
    Íslenskum bændum er hvorki skylt að örmerkja sauðfé á grundvelli EES-reglna sem innleiddar hafa verið í landsrétt né á grundvelli annarra reglna. Íslenskum bændum ber þó að merkja ásetningsfé með forprentuðu plötumerki í eyra á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar búfjár.
    Meginmarkmið auðkenningar búfjár er, líkt og fram kemur í 1. gr. reglugerðar nr. 916/2012, að tryggja rekjanleika þess frá upprunahjörð/fæðingu dýrs til sölu afurða og skapa þannig grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra. Sömu forsendur liggja til grundvallar löggjöf Evrópusambandsins um auðkenningu eða merkingar búfjár.
    Ísland er skuldbundið af þeim kröfum sem gerðar eru um merkingar búfjár og rekjanleika afurða sem fram koma í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/429 um smitandi dýrasjúkdóma, sem og afleiddum gerðum. Ber þar helst að nefna reglugerðir (ESB) 2019/2035 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/429 að því er varðar reglur fyrir starfsstöðvar með landdýr í haldi og útungunarstöðvar og rekjanleika tiltekinna landdýra í haldi og útungunareggja, og reglugerð (ESB) 2021/520 um reglur um beitingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/429 að því er varðar rekjanleika tiltekinna landdýra í haldi.
    Í reglugerð (ESB) 2019/2035 er m.a. mælt fyrir um skyldur þeirra sem halda sauðfé, skráningu þess og hvaða upplýsingar þurfi að skrá (22. og 23. gr.), skyldur rekstraraðila (bænda) til auðkenningar og hvers kyns merki og aðferðir sé heimilt að nota til auðkenningar (45. gr.). Þá er einnig fjallað um undanþágur (48. gr.) en þar segir að þrátt fyrir b-lið 2. mgr. 45. gr. sé aðildarríkjum heimilt að leyfa að skipt sé út auðkenningu sem er tilgreind í c–f-lið III. viðauka, þ.e. c) rafrænu eyrnamerki, d) vambarstaut, e) stunguörmerki eða f) rafrænu bandi um kjúkuna, fyrir hefðbundið eyrnamerki eða hefðbundið band um kjúkuna eins og tilgreint er í a- og b-lið sama viðauka ef heildarfjöldi sauðfjár í ríkinu fer ekki yfir 600.000 samkvæmt skráningu í tölvugagnagrunni, og sauðfé er ekki ætlað til flutnings til annars aðildarríkis.
    Samkvæmt skráðum upplýsingum ráðuneytisins var heildarfjöldi vetrarfóðraðs sauðfjár á árinu 2023 á Íslandi 360 þúsund og lifandi fé er ekki flutt úr landi. Því hvílir ekki skylda á íslenskum bændum að örmerkja sauðfé en þeim er engu að síður heimilt að gera það.
    Í I. hluta II. viðauka reglugerðar (ESB) 2021/520 er mælt fyrir um tækniforskriftir auðkenninga fyrir m.a. sauðfé. Þar segir að auðkenningin sem um getur í a-, b-, c-, f- og h-lið III. viðauka reglugerðar (ESB) 2019/2035 fyrir nautgripi, sauðfé, geitur, svín o.fl. í haldi skuli vera: a) einnota, b) úr efni sem brotnar ekki niður, c) þannig að ekki sé hægt að eiga við hana, d) auðveld aflestrar allan líftíma dýrsins, e) hönnuð þannig að hún haldist tryggilega fest á dýr án þess að valda þeim skaða, f) auðveldlega fjarlægjanleg úr fæðukeðjunni.
    Af framansögðu leiðir að ekki er heimilt að nota hvers kyns fjölnota merki til auðkenninga fyrir sauðfé en jafnframt nautgripi, geitur og svín. Þetta bann á við á öllu EES-svæðinu.

     2.      Hvaða áhrif hefði það ef á Íslandi yrði áfram leyfð endurnýting örmerkja í sauðfjárbúskap?
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði úttekt hér á landi á opinberu eftirliti með framleiðslu á kjöti og mjólk og afurðum þeirra. Í lokaskýrslu ESA gerði stofnunin athugasemd við að áreiðanleiki auðkenningar sauðfjár væri ekki tryggður þar sem auðkennismerki væru ekki notuð í samræmi við EES-reglur um bann við endurnýtingu á auðkennismerkjum.
    Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessari athugasemd voru að fella brott heimild Matvælastofnunar um að leyfa endurnotkun á auðkennismerkjum, en það var gert með reglugerð nr. 1122/2023 og formleg tilkynning þar um send til ESA eins og gert er ráð fyrir. Málið er því í lokunarferli hjá stofnuninni. Matvælaráðuneytið hefur fundað með ESA vegna málsins og upplýst um að það hyggist fresta gildistöku brottfallsákvæðisins þar sem fyrirséð að það muni taka bændur lengri tíma en áætlað var að aðlagast kröfum um einnota merki. Jafnframt upplýsti ráðuneytið stofnunina um að fyrirséð væri að gildistaka yrði um næstkomandi áramót. Bændum verður því heimilt að endurnýta merki í sláturtíð 2024 og nota þau einu sinni enn, þ.e. til 1. nóvember 2025.
    Ef Ísland stendur ekki við þær skuldbindingar sem það hefur undirgengist í þessu samhengi gæti það leitt til þess að ESA opni brotamál gagnvart Íslandi.

     3.      Er eitthvað í regluverki Evrópusambandsins sem kemur í veg fyrir slíka endurnýtingu? Ef svo er, hvaða reglugerð er um að ræða og á hvaða rökum er byggt?
    Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar er það svo að í I. hluta II. viðauka reglugerðar (ESB) 2021/520 er mælt fyrir um ýmiss konar tækniforskriftir auðkenninga fyrir m.a. sauðfé. Meðal krafna reglugerðarinnar er að auðkenning skuli vera einnota.
    Af því leiðir að ekki er heimilt að nota hvers kyns fjölnota merki til auðkenninga fyrir sauðfé en jafnframt nautgripi, geitur og svín. Þetta bann á við á öllu EES-svæðinu.

     4.      Ef endurnýting örmerkja þar sem einstaklingsmerki kemur ekki fram verður ekki leyfð áfram, hyggjast stjórnvöld taka þátt í kostnaði bænda við kaup á nýjum örmerkjum?
    Matvælaráðuneytið hefur átt fundi með Bændasamtökum Íslands þar sem farið hefur verið yfir það að ráðuneytið muni gera það sem mögulegt er innan þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist með EES-samningnum til að auðvelda bændum að merkja sauðfé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru með sem minnstum tilkostnaði. Rétt er að ítreka að ekki er skylda að örmerkja sauðfé samkvæmt áðurnefndum reglum.
    Nú liggur fyrir að heimilt verður að endurnýta örmerki í sláturtíðinni 2024 og nota þau einu sinni enn, þ.e. til 1. nóvember 2025.

     5.      Er hægt að endurnýta örmerki með öðrum hætti en við örmerkingu sauðfjár? Ef svo er, hvernig er það gert?
    Matvælaráðuneytinu er ekki kunnugt um að það sé hægt enda er skýrt bann í reglugerð (ESB) 2021/520, sem innleidd hefur verið í íslenskan rétt með reglugerð nr. 1607/2022.