Ferill 1103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1643  —  1103. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (ökutæki flóttamanna frá Úkraínu).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Einstaklingur sem hefur á árinu 2022 eða síðar flutt ökutæki inn til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda á grundvelli a-liðar 4. tölul. 1. mgr. 7. gr., sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 630/2008, getur óskað eftir framlengingu á greiðslufresti aðflutningsgjalda í 12 mánuði frá umsóknardegi, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
          1.      Ökutækið hefur skráningarnúmer frá Úkraínu.
          2.      Skráður eigandi ökutækisins er úkraínskur ríkisborgari sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum skv. 44. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016.
          3.      Eigandi ökutækisins var skráður eigandi ökutækisins á því tímamarki þegar hann fékk dvalarleyfi hér á landi, sbr. 2. tölul.
          4.      Lagt sé fram skoðunarvottorð frá skoðunarstofu hér á landi sem sýnir að ökutækið hafi hlotið aðalskoðun, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 414/2021 um skoðun ökutækja.
          5.      Lagt sé fram alþjóðlegt vátryggingarskírteini eða önnur skilríki um gilda ábyrgðartryggingu vegna notkunar ökutækisins á hinu framlengda tímabili, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 1244/2019 um ökutækjatryggingar.
    Heimild skv. 1. mgr. gildir til og með 31. desember 2024.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu leggur efnahags- og viðskiptanefnd til nýtt ákvæði til bráðabirgða í tollalögum til þess að styðja við úkraínska ríkisborgara, sem hafa stöðu flóttamanna hér á landi og hafa flutt hingað ökutæki sem þeir áttu þegar þeir bjuggu í Úkraínu. Með ákvæðinu er lögð til sérstök framlenging á greiðslufresti aðflutningsgjalda af ökutækjunum.
    Samkvæmt a-lið 4. tölul. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, getur einstaklingur, sem ætlar að dvelja hér á landi í ár eða skemur, flutt inn ökutæki án þess að greiða af því aðflutningsgjöld. Ef ökutækið er enn hér á landi að tólf mánuðum liðnum falla aðflutningsgjöldin í gjalddaga og séu þau ekki greidd getur komið til þess að skráningarnúmer ökutækis verði klippt af því. Þetta á við um marga þá flóttamenn sem hingað hafa leitað frá Úkraínu.
    Ákvæðið tekur aðeins til ökutækja sem úkraínskir flóttamenn hafa flutt með sér til landsins frá árinu 2022 en með því er þeim veitt aðstoð við björgun verðmæta sinna frá Úkraínu. Þannig veitir ákvæðið ekki úkraínskum ríkisborgurum aukinn frest til greiðslu aðflutningsgjalda af ökutækjum sem þeir hafa keypt í öðrum löndum eftir að þeir fluttu til landsins. Í þeim tilvikum er fresturinn áfram bundinn við 12 mánuði frá innflutningi.
    Framlengingin gildir í 12 mánuði frá umsóknardegi. Hægt verður að óska eftir framlengingu til og með 31. desember 2024. Þar með getur framlenging orðið lengst til 31. desember 2025.
    Einnig geta sótt um framlengingu þeir sem þegar eru komnir fram yfir 12 mánaða frestinn skv. a-lið 4. tölul. 7. gr. tollalaga. Að fullnægðum skilyrðum ákvæðisins mun hún gilda í 12 mánuði frá umsóknardegi. Hið sama gildir þótt viðkomandi hafi þurft að þola að skráningarnúmer hafi verið klippt af ökutæki og getur viðkomandi því fengið skráningarnúmerin aftur á ökutækið.
    Þeir sem ekki sækja um framlengingu verða að greiða aðflutningsgjöld eða að öðrum kosti þola það að skráningarnúmerin verði klippt af ökutækjum þeirra. Sá sem hefur tekið þá ákvörðun að tollafgreiða bíl sinn getur ekki sótt um framlengingu, enda enginn greiðslufrestur lengur fyrir hendi.