Ferill 1104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1655  —  1104. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu rammasamkomulags milli Íslands og Grænlands um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.


Frá utanríkisráðherra.



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd rammasamkomulag milli Íslands og Grænlands um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum, sem gert var í Reykjavík 3. júlí 2023, ásamt eftirtöldum viðaukum:
    1. viðauka: Samkomulag um langtímaveiðistjórnun loðnustofnsins á hafsvæðinu milli Austur-Grænlands, Íslands og Jan Mayen.
    2. viðauka: Ráðstafanir varðandi aðgang og tæknileg skilyrði til loðnuveiða milli Íslands og Grænlands.
    3. viðauka: Tafla 1 og 2. Skýrslugjöf um aflamörk loðnu og loðnuafla á hafsvæðinu milli Íslands, Austur-Grænlands og Jan Mayen.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á rammasamkomulagi milli Íslands og Grænlands um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum, sem undirritað var fyrir Íslands hönd í Reykjavík 3. júlí 2023. Samkomulagið er fylgiskjal með tillögu þessari ásamt viðaukunum. Gert er ráð fyrir að samningsaðilar geti breytt efni viðaukanna á árlegum samráðsfundi ríkjanna um loðnustofninn ef samningsaðilar sem hagsmuna hafa að gæta samþykkja.
    Samningaviðræður milli Grænlands, Noregs (Jan Mayen) og Íslands, sem eiga hagsmuna að gæta vegna veiða úr loðnustofninum og skilgreind eru sem strandríki, hófust árið 2022 eftir að Ísland sagði upp fyrra samkomulagi frá 2018 vegna ágreinings við Noreg. Margir samningafundir voru haldnir frá ársbyrjun 2023 og fram í júní það ár þegar Noregur gekk frá samningaborðinu. Í ljósi mikilvægis málsins lögðu Ísland og Grænland áherslu á að halda viðræðum áfram og gerðu í kjölfarið með sér samkomulag í júlí 2023. Ísland og Grænland buðu Noregi aðgang að því samkomulagi en Noregur óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til tilboðsins. Í apríl 2024 lá fyrir að Noregur gæti ekki gengið að nýju samkomulagi vegna ágreinings um aðgang Noregs til veiða á sinni hlutdeild innan lögsögu Íslands.
    Ísland sagði upp samningi Íslands, Grænlands og Noregs um skiptingu og veiðar úr loðnustofninum í lok árs 2022 vegna ágreinings um breytingu á tvíhliða bókun ríkjanna í ljósi breytinga á útbreiðslu loðnu og ríflegra aðgangsheimilda norskra skipa til loðnuveiða í íslenskri lögsögu. Fyrir kom að öngþveiti myndaðist á loðnumiðum og voru á tímabili fleiri norsk skip að veiðum en samanlagt frá Íslandi og Grænlandi. Í fyrra samkomulagi frá 2018 var gert ráð fyrir að aflaheimildir Íslands næmu 80% af heildaraflamarki, Grænland fengi 15% og Noregur 5%. Í ljósi mjög minnkaðrar viðveru loðnu í lögsögu Jan Mayen en aukinnar í grænlenskri lögsögu var samið um að hlutur Grænlands ykist í 18% en hlutur Noregs færi niður í 1%. Jafnframt jókst hlutdeild Íslands í 81%.
    Samkomulagið staðfestir formlega að ákvörðun heildarafla á hverri vertíð byggist á langtímanýtingarstefnu, en Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hefur staðfest að þessi nýtingarstefna, eins og hún er skilgreind í 1. viðauka við samkomulagið, sé í samræmi við viðmið um ábyrgar veiðar, sjálfbærni stofnsins og varúðarsjónarmið. Ákvörðun um heildarafla á vertíð hefur á undanförnum árum grundvallast á framangreindri nýtingarstefnu. Með þessari nýtingarstefnu er einnig staðfest sú samstaða strandríkjanna, sem hafði verið á milli þeirra frá árinu 2015, að stunda ekki ósjálfbærar sumarveiðar. Þessi samstaða þýðir að nær engin loðna er lengur veidd í fiskveiðilögsögu annarra ríkja en Íslands. Það hefur því ekki áhrif á nýtingu stofnsins að eftir eigi að semja um aðgang Noregs til veiða á sinni hlutdeild innan lögsögu Íslands.
    Hið nýja samkomulag gerir ekki ráð fyrir öðrum breytingum á fyrirkomulagi kvótaúthlutunar. Íslandi er því t.d. áfram heimilt, komi í ljós að hlutur Grænlands eða Noregs veiðist ekki að fullu, að veiða það magn sem óveitt er, en Ísland þarf að greiða bætur vegna slíkra veiða ef grænlensk og norsk skip ná ekki að veiða sína hlutdeild vegna síðbúinnar ákvörðunar um leyfilegan hámarksafla. Í nýju rammasamkomulagi er bótaskylda þó miðuð við að ákvörðun um heildarafla sé tekin 15. febrúar eða síðar á árinu. Tímamarkið var 5. febrúar í fyrri samningi.
    Skilyrði fyrir tvíhliða aðgangi að fiskveiðilögsögu samningsaðila og tæknilegar takmarkanir koma fram í 2. viðauka við rammasamkomulagið. Grænlenskum skipum er heimilt samkvæmt samkomulaginu að veiða 35.000 tonn sunnan breiddargráðu 64°30´N eftir 15. febrúar. Jafnframt er þremur tilgreindum grænlenskum skipum heimilt að vinna að hámarki 6.500 tonn samtals af afla um borð á meðan skipin eru í fiskveiðilandhelgi Íslands. Aðgangur grænlenskra skipa er þannig óbreyttur frá fyrra rammasamkomulagi.
    Í rammasamkomulaginu lýsa samningsaðilar yfir þeim vilja sínum að eiga náið samstarf um frekari rannsóknir á loðnustofninum. Samkomulagið hefur jafnframt að geyma skýr ákvæði um skýrsluskil og miðlun upplýsinga um afla og framsal aflahlutdeildar. Fiskistofa safnar og heldur utan um allar aflaupplýsingar hvað varðar veiði á loðnu. Jafnskjótt og upplýsingum hefur verið safnað skal Fiskistofa miðla þessum upplýsingum á sérstöku formi, sem tilgreint er í samkomulaginu, til samningsaðila.
    Nýja rammasamkomulagið er ótímabundið, en hægt er að segja því upp með einnar vertíðar fyrirvara. Samkomulagið tók gildi til bráðabirgða við undirritun þess og mun öðlast gildi endanlega þegar stjórnskipulegum skilyrðum hvers lands um sig hefur verið fullnægt.


Fylgiskjal.


Rammasamkomulag milli Íslands og Grænlands um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum, ásamt 1., 2. og 3. viðauka.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s1655-f_I.pdf