Ferill 1106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1658  —  1106. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um vopnahlé og mannúðaraðstoð í Palestínu.


Flm.: Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að fordæma tafarlaust þau mannréttindabrot sem framin hafa verið í Palestínu og kalla eftir vopnahléi á svæðinu. Þá ályktar Alþingi að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að morð á almennum borgurum verði stöðvuð, að Hamas-samtökin leysi alla gísla úr haldi tafarlaust og án skilyrða og að mannúðaraðstoð á Gaza-ströndinni verði aukin.

Greinargerð.

    Frá því að Hamas-samtökin gerðu árásir á almenna borgara í Ísrael 7. október 2023 og Ísraelsher réðst inn á Gaza-ströndina í kjölfarið hafa fleiri en 35.000 manns verið drepin. Á meðal hinna látnu eru börn, blaðamenn og starfsfólk mannúðarsamtaka. Áætlað er að stærstur hluti þeirra sem týnt hafa lífi í átökunum séu almennir borgarar.
    Fyrir liggur að fjölda árása hefur verið beint að borgaralegum byggingum og innviðum á borð við skóla, heilbrigðisstofnanir, bænastaði, verslanir, íbúðarhverfi og flóttamannabúðir. Þá hefur víða verið lokað fyrir aðgengi almennings að nauðsynjum á borð við vatn, mat, lyf, eldsneyti og rafmagn. Afleiðingarnar eru meðal annars útbreidd og alvarleg hungursneyð.
    Flutningsmenn tillögu þessarar telja að Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin þurfi að leggja enn meira af mörkum til að reyna að stuðla að vopnahléi og aukinni mannúðaraðstoð á Gaza-ströndinni. Í fyrsta lagi er lagt til að Alþingi feli utanríkisráðherra að fordæma hvers konar mannréttindabrot sem hafi verið framin. Má þar nefna árásir sem er ekki beint að hernaðarlegum skotmörkum og aðgerðir sem fela í sér hóprefsingu almennra borgara. Í öðru lagi er lagt til að Alþingi feli utanríkisráðherra að kalla eftir tafarlausu vopnahléi milli hinna stríðandi fylkinga. Enn einar viðræður um vopnahlé runnu nýlega út í sandinn þegar Ísrael hafnaði sáttatillögu milligönguaðila frá Katar og Egyptalandi og hélt áfram fyrirætlunum sínum um árásir á Rafah-borg. Þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu gegnir lykilhlutverki í því að fá stríðandi fylkingar til að fallast á vopnahlé. Í þriðja lagi er lagt til að Alþingi feli forsætisráðherra og utanríkisráðherra að beita sér fyrir aukinni mannúðaraðstoð á svæðinu, bæði með auknum stuðningi frá Íslandi og með því að greiða fyrir frekari stuðningi á grundvelli alþjóðasamstarfs, og sömuleiðis að þeir beiti sér fyrir því að morð á almennum borgurum verði stöðvuð og að Hamas-samtökin leysi alla gísla úr haldi tafarlaust og án skilyrða.
    Flutningsmenn telja mjög mikilvægt að Ísland standi staðfastlega með almennum borgurum í Ísrael og Palestínu. Í því ljósi eru árásir og morð á almennum borgurum fordæmd og mikilvægi þess að framfylgja alþjóðalögum og mannréttindum undirstrikað. Ísland á að gangast fyrir því á alþjóðavettvangi að lausn verði fundin á yfirstandandi átökum á þessu svæði sem byggist á tveimur sjálfstæðum ríkjum Ísraels og Palestínu.