141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

fjölgun starfa.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög gott að hafa það í huga þegar farið er í svona vinnumarkaðsaðgerðir eins og við höfum gert, að það er sérstaklega verið að hjálpa fólki að fara í nám sem af einhverjum ástæðum hefur flosnað upp úr skóla eða er á atvinnuleysisskrá. Við erum mjög stolt af því að hafa gert það og höfum gert með aðilum vinnumarkaðarins. Það er ljóst og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála, að þar erum við að tala um fjárfestingu til framtíðar. Þetta eru vinnumarkaðsaðgerðir sem fleiri lönd en við hafa gripið til við sambærilegar aðstæður. Það eru um 2.400 manns sem hafa tekið þátt í þessum vinnumarkaðsaðgerðum sem gripið var til í fyrra og ég tel að þetta hafi breytt miklu að því er varðar vinnumarkaðinn. Síðan hlýtur það að segja okkur eitthvað að við erum með miklu lægra atvinnuleysi en í Evrópu, hér er atvinnuleysi 4–5% meðan það er 8% að meðaltali í Evrópu og það hlýtur að segja sína sögu. Síðan bendi ég á þessi skekkjumörk og einnig að það er hefðbundið að 17–18% fólks á aldrinum 16–74 ára séu utan vinnumarkaðarins af einhverjum ástæðum, (Forseti hringir.) m.a. öryrkjar og aldrað fólk.