141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

fækkun starfa.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að aðilar vinnumarkaðarins byggja allan sinn málflutning á slæmum niðurstöðum könnunar Hagstofunnar frá því í ágúst. Það gefur ekki rétta mynd af stöðunni vegna þess að sú könnun, ágústkönnunin, sker sig mjög úr og þarf að skoða með tilliti til skekkjumarka. Ef litið væri til dæmis á mánuðinn á undan, júlí, voru tölurnar allt aðrar, þá var talan 4.600 í nýjum störfum.

Staðreyndin er sú að allar vísbendingar gefa til kynna að atvinnulífið sé að taka við sér og störfum að fjölga — nema ágústniðurstaða Hagstofunnar. Ég held að í stað þess að við deilum um þetta í ræðustól eða í blöðum ættum við að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins og fara yfir þessar tölur til að menn séu ekki að tala út og suður í þessu máli. Á því eru skýringar eins og ég nefni varðandi þessar ágústtölur.

Rauntölur Vinnumálastofnunar um fjölda atvinnulausra eru viðvarandi, þ.e. atvinnuleysið er 1,5–1,9 prósentustigum minna í ár en í fyrra. Allar vísbendingar um aukin umsvif í hagkerfinu, auknar skatttekjur vegna aukinnar veltu og viðvarandi hagvöxtur benda til hins sama. Ég bendi á skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka sem er nýkomin út þar sem því er lýst hvernig hagkerfið er komið út úr kreppunni, hvernig vöxtur sé á flestum sviðum atvinnulífsins, markverður árangur í að vinna á kerfisvandamálum o.fl. Ef ágústtölur Hagstofunnar reynast hins vegar gefa raunsanna mynd af ástandinu núna og sambærileg mynd birtist okkur í september og október er ástæða til að staldra við og hafa áhyggjur. Við eigum að horfa á heildarmyndina og viðurkenna sveiflur sem eru í tölum Hagstofunnar frá mánuði til mánaðar þannig að það þarf að líta yfir miklu stærra tímabil til að fá raunsanna (Forseti hringir.) mynd af stöðunni.