141. löggjafarþing — 13. fundur,  27. sept. 2012.

húsnæðismál og skuldir heimilanna.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ástæða til að hafa áhyggjur af því að mörg heimili eru í vandræðum og að okkur hefur ekki tekist að leysa skuldavanda allra þó að við höfum skilað verulegum árangri í því efni. Margar aðgerðir hafa verið settar fram sem hafa skilað árangri, m.a. til að laga skuldastöðu heimilanna sem við erum með tölur um að hafi skilað verulegum árangri. Það er líka sérstakur skuldavandi hjá lágtekjuhópunum. Við höfum tölur um það, t.d. frá Seðlabankanum, og við höfum verið að skoða hvernig hægt er að bregðast við því og það ætlum við til dæmis að gera með auknum barnabótum sem ég er sannfærð um að skili sér best til lágtekjuhópanna.

Hitt er annað mál að vanskil hjá til dæmis Íbúðalánasjóði valda áhyggjum og þarf að fara yfir þá stöðu og finna skýringuna. Af því að það virðist ganga betur í bönkunum er spurning hvort þeir hafi meiri sveigjanleika til að bregðast við erfiðum skuldum hjá heimilum en Íbúðalánasjóður eða hvort þeir sem skulda mikið láti Íbúðalánasjóð hreinlega sitja á hakanum og hann sé síðasti aðilinn sem fólk greiðir skuldir sínar hjá. Við hljótum að velta fyrir okkur skýringunni á þessu.

Varðandi lánsveðin deili ég áhyggjum af þeim með hv. þingmanni. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim og ég viðurkenni alveg að ríkisstjórnin hefur ekki náð því fram sem hún ætlaði sér, þ.e. að taka á lánsveðunum. Þar er helst við að sakast lífeyrissjóðina sem hafa reynt að koma sér hjá því að taka sinn hluta í lánsveðunum. 37% af lánsveðunum eru hjá lífeyrissjóðunum og 10% af þeim sem eru með lánsveð eru í miklum vandræðum. Lífeyrissjóðirnir beita fyrir sig að það sé ekki lagaheimild (Forseti hringir.) til að bregðast við en við hljótum að vera boðin og búin að opna tímabundið fyrir heimild til lífeyrissjóðanna til að þeir geti verið með í því að taka (Forseti hringir.) á lánsveðunum.