141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að þegar hv. þingmaður kvartar yfir því að stjórnarráðslögin séu aftur komin til kasta Alþingis verður hv. þingmaður að hafa í huga að það gekk nú ekki þrautalaust fyrir sig að koma þeim í gegn og tók miklu lengri tíma en maður hugði. Það lá ljóst fyrir að þær breytingar sem hér er verið að gera yrðu að koma til kasta þingsins aftur miðað við þær breytingar sem gerðar voru á ráðuneytaskipan. Það var alveg ljóst að þó að nægjanlegt væri að gera sumt með forsetaúrskurði, eins og hér er gert ráð fyrir, þurfti að gera breytingar þegar um efnislegar breytingar á ákvæðum í lögunum er að ræða eins og varðandi það að breyta þurfi fyrirkomulagi Hafrannsóknastofnunar, Veiðimálastofnunar o.s.frv. Þetta eru bara afleiddar breytingar af því.

Ég held að það sé ekkert athugavert við það að fyrirkomulagið sé með þeim hætti eins og hér er lýst og þingmaðurinn kvartar yfir nú og gerði á síðasta þingi, að það sé fyrst og fremst á verksviði Stjórnarráðsins og ríkisstjórnar hverju sinni að ákveða hver tilhögunin er innan Stjórnarráðsins rétt eins og Alþingi ákveður með þingsköpum sínum hvernig það vill haga starfsemi þingsins. Þetta er algilt og þekkt í öðrum löndum og ég hygg að þegar menn venjast þessu, að þessar breytingar skuli vera með þessum hætti, muni menn ekki kvarta yfir þessu og ég held að það sé ekki óskýrleiki eða ógagnsæi í þessu.

Varðandi 12. gr., sem hv. þingmaður nefndi, þá var alveg farið yfir það að þetta á ekki að vera neitt óskýrt þó að þetta sé með þessum hætti. Breytingin er sú að í stað almenna hugtaksins ráðherra eða ráðuneyti, og þegar tveir eða fleiri ráðherrar koma við sögu, þá er vísað til þess sem ekki ber meginábyrgð á framkvæmd laganna. (Forseti hringir.) En ég held að það sé alltaf ljóst hverju sinni hver ber meginábyrgð á framkvæmd einstakra þátta (Forseti hringir.) í þessu. En þetta er auðvitað atriði sem nefndin sem fær málið til meðferðar getur skoðað sérstaklega.