141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

skýrsla McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins um íslenska hagkerfið.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í forsætisráðuneytinu höfum við allt þetta ár verið að vinna að skipulagningu á því hvernig við getum kortlagt betur sóknarfæri á Íslandi, tækifæri og ógnanir. Við vorum komin langleiðina með það hvernig við vildum skipuleggja þá vinnu þannig að skýrsla McKinseys kemur bara eins og kölluð inn í þá umræðu sem er í gangi í forsætisráðuneytinu. Ég tek sannarlega undir það sem hv. þingmaður segir, við eigum að nýta okkur það sem fram kemur í þessari skýrslu ásamt því sem við höfum verið að vinna að í forsætisráðuneytinu. Ég hef einmitt verið með það í undirbúningi og mun leggja það fyrir ríkisstjórn, annaðhvort á morgun eða þriðjudaginn, hvernig við eigum að fara í það að draga sem flesta að þessu borði og fara í þá vinnu sem kemur fram í McKinsey-skýrslunni og raunar vinnu við fleiri þætti sem við höfum unnið að.

Ég tel að fulltrúar stjórnarflokkanna eigi að koma að þessu borði sem og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og hugsanlega fleiri þannig að ég er svo sannarlega tilbúin að ræða þetta mál og hvernig við skipuleggjum það. Ég tel reyndar að við ættum að skoða sameiginlega hvernig við viljum leggja þessa vinnu fram og hvernig uppleggið á að vera í henni. Ég mun fyrr en seinna kalla fulltrúa stjórnarflokkanna að borðinu til að ræða hvernig við getum farið í þessa mikilvægu vinnu. Sóknarfærin liggja víða en það eru líka ógnanir sem þarf að taka á þannig að ég fagna þessari skýrslu og fagna því sem fram kemur í orðum hv. þingmanns um að allir komi að þessu borði enda fellur það nákvæmlega að þeirri hugmynd sem við höfum verið að vinna að (Forseti hringir.) í Stjórnarráðinu.