141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa því auðvitað á bug að ég sé með einhverja sleggjudóma um það hvað hefur gerst hér á umliðnum árum að því er varðar breytingar á stjórnarskránni. Staðreyndirnar tala sínu máli, hv. þingmaður, um það hverju við höfum náð varðandi breytingar á stjórnarskránni. Við höfum ekki náð fram neinni heildstæðri endurskoðun á stjórnarskránni af því að það hefur verið mikil andstaða við þær breytingar sem við erum til dæmis að fjalla um núna.

Fyrrverandi hv. þm. Jón Kristjánsson gerði góða hluti á þingi með tilraun til þess að hafa forustu um að breyta stjórnarskránni en því miður náði hann því ekki. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar, eins og á mannréttindakaflanum, en í 60–70 ár höfum við ekki náð að gera þær heildstæðu breytingar sem margsinnis hefur verið reynt að gera á þingi. Nefnd eftir nefnd hefur verið skipuð í málið til þess að gera breytingar en þær ekki náð neinni niðurstöðu.

Þess vegna fórum við með málið út fyrir Alþingi og (Forseti hringir.) í það ferli sem það hefur verið í sem ég tel að hafi verið farsælt fyrir þróun málsins.

Síðari spurningu þingmannsins skal ég svara á eftir.