141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[14:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst alveg óþarfi af hv. stjórnarandstöðu að reyna að skapa ótta um stöðu þjóðarbúsins og koma því inn hjá þjóðinni að hér sé allt í kalda koli. Það er bara ekki svo. Það hefur komið fram hjá Seðlabankanum að hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins sé viðráðanleg eftir að þrotabúin hafa verið gerð upp. Hér er kallað eftir því og sagt að stjórnvöld hafi ekkert gert í því að borga niður skuldir. Hvað höfum við gert? Það kom fram í máli mínu áðan að skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað um 200% af landsframleiðslu á þremur árum. Mér finnst það alveg ótrúlegur árangur. (Gripið fram í.) Hvað höfum við gert varðandi ríkissjóð? Við erum að ná honum niður í jafnvægi, sennilega á næsta ári úr 300 milljörðum. Ég tel að það sé gífurlega mikill árangur.

Það kemur hér mjög misvísandi fram hjá stjórnarandstöðunni, þ.e. sjálfstæðismenn tala um að hagvöxtur skipti engu máli meðan framsóknarmenn tala um að hann sé allt of lítill. Síðan komu fram áhyggjur af gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins. Það er nú svo að ríkissjóður og Seðlabanki Íslands hafa í tvígang fyrir fram greitt komandi gjalddaga á lánum tengdum efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðs til að lækka kostnað á gjaldeyrisforðanum.

Ég tel að engin alvarleg staða sé varðandi gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins ef frá er skilið það sem við þurfum að skoða vel og er verið að reyna að ná fram, þ.e. endurfjármögnun á Landsbankabréfinu.

Þegar við erum að tala um erlendar skuldir og framleiðni á gjaldeyri liggja spár þannig að við getum lækkað hreinar skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu nokkuð hratt miðað við undirliggjandi viðskiptajöfnuð næstu ára sem er áætlaður um 2–3% af landsframleiðslu, en viðskiptaafgangur af þessari stærðargráðu og hagvöxtur (Forseti hringir.) í kringum 3% ætti að skila því.

Ég tel því alveg óþarfa að vera með svona svartagallsraus varðandi stöðu þjóðarbúsins. Við þurfum að vinna (Forseti hringir.) vel úr málum og við erum að gera það.