141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að vandi Íbúðalánasjóðs er mjög mikill. Á honum verður að taka og það hefur ríkisstjórnin verið að gera. Hún gerði það strax 2010 með því að setja 33 milljarða ríkisframlag inn í Íbúðalánasjóð. Það fé fór bæði í að styrkja eiginfjárstöðu til að kosta þær aðgerðir sem var farið í vegna skuldugra heimila og í að greiða afskriftir hjá lögaðilum vegna leiguíbúða sem var heimilt að fjármagna hér frá 1998. Þessi vandi er kerfislægur. Hann varð til árið 2004 eins og fram hefur komið. Þær aðgerðir sem þá var gripið til af hálfu þáverandi ríkisstjórnar með nýju íbúðalánakerfi þegar húsbréfakerfið var aflagt sköpuðu opna vaxtaáhættu eða uppgreiðsluáhættu sem lýsir sér í því að skuldir sjóðsins eru óuppgreiðanlegar en útlán sjóðsins eru það ekki. Þáverandi stjórnvöld hunsuðu tillögur sérfræðinga um að taka á þessari áhættu sem var ljós alveg frá upphafi og það voru alvarleg hagstjórnarmistök.

Ríkisstjórnin fjallaði um málið á fundi sínum í gær og það er þegar ákveðið, eins og menn vita, að setja í þetta allt að 13 milljarða kr. Síðan þarf að skoða vandann í heild sinni. Það þarf að skoða áhættustýringu sjóðsins. Það þarf sérstaklega að skoða hvernig á að mæta þeim uppgreiðsluvanda sem við blasir. Það þarf að skoða hvernig á að taka á þessum fullnustuíbúðum sem eru um 2.000 og er ljóst að þar mun bætast í. Þær aðgerðir sem var farið í 1998, að veita lögaðilum lán til fullnustuíbúða, eru vandamál sem við erum að taka á í dag. (Forseti hringir.)

Ég mun halda áfram að svara fyrirspurninni þegar ég kemst aftur að á eftir.