141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um fordæmalausa stöðu. Ég hygg að sú auglýsing sem ASÍ kaus að birta í gær sé án fordæmis og algerlega tilefnislaus. Við í ríkisstjórninni höfum þurft að búa við það í gegnum tíðina að sitja undir eilífum svikabrigslum frá ASÍ. Þau eru orðin það mikil að þeir geta varla verið marktækir í umræðunni þegar horft er á málin í heild. Auglýsingin er ósanngjörn og á ekki við nein rök að styðjast.

Við getum horft til þess að þeir samningar sem gerðir voru eru mjög viðamiklir og aðkoma ríkisins að þeim var mjög mikil. Margir töldu þar að við hefðum gengið of langt að því er varðar útgjöld ríkisins vegna þess að svo mjög lagði ríkisstjórnin sig fram um að ná þessum samningum. Þeir hafa leitt til þess að friður hefur verið á vinnumarkaðinum. Þeir hafa leitt til þess að kaupmáttur hefur aukist. Þeir hafa leitt til að hagvöxtur er hér meiri en í samanburðarlöndunum og þeir hafa leitt til þess að atvinnuleysi hefur minnkað verulega. Þeir hafa líka leitt til þess að við höfum farið í ýmsar aðgerðir sem stuðlað hafa að jöfnuði í samfélaginu með þrepaskiptum tekjuskatti, fullri verðtryggingu persónufrádráttar, sem ekki var reglan þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stjórnuðu, og miklum jöfnuði í samfélaginu. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari auglýsingu vegna þess að þau átta atriði sem þarna eru sett fram eiga ekki við rök að styðjast.

Eins og komið hefur fram er misjöfn túlkun á einu atriði varðandi bætur, atvinnuleysisbætur og almannatryggingabætur, en að öðru leyti styðst auglýsingin ekki við nein rök. Virðulegi forseti. Ég skil ekki hvað vakir fyrir forustumanni ASÍ, Gylfa Arnbjörnssyni. (TÞH: … verkalýðsforustuna.)