141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Í morgun barst mér bréf frá nefnd um afnám gjaldeyrishafta sem skipuð er fulltrúum þingflokka og snertir nákvæmlega það mál sem hv. þingmaður nefnir. Ég vænti þess að hann hafi fengið sambærilegt bréf þar sem óskað er eftir fundum með formönnum stjórnmálaflokkanna um tvennt, um gjaldeyrishöftin og hvernig standa eigi að áætlunum um losun gjaldeyrishaftanna og um stöðuna í nauðasamningum og hvernig best sé að fara í uppgjör á þeim. Nefndin er skipuð fulltrúum allra þingflokka og óskar eftir fundi með formönnum flokkanna til að fara yfir þessi mál og ég fagna því. Ég tel eðlilegt að fulltrúar stjórnmálaflokkanna komi að þessu máli eins og gert hefur verið í nefndinni og nú með því að formenn stjórnmálaflokkanna komi einnig að málinu til að fara yfir stöðuna.

Það er mikilvægt ef hægt er að ná samstöðu um það hvernig hægt er að standa að afnámi gjaldeyrishaftanna og ekki síður uppgjöri á þrotabúunum. Ég tel brýnt að fundur verði haldinn með formönnum flokkanna nú fyrir jólin, og er reyndar farið fram á það í bréfinu. Ég tel því eðlilegt að við reynum að ná samstöðu um að boða til slíks fundar á morgun þar sem við getum farið yfir málin.

Hv. þingmaður nefndi að það hefði komið fram að ESB er tilbúið að veita okkur þá aðstoð sem hægt er við afnám gjaldeyrishaftanna, og ég held að það sé bara hið besta mál að fara yfir það. Ég hef litið svo á að fyrst og fremst sé um faglega og tæknilega aðstoð að ræða (Forseti hringir.) sem þarna er í boði.