141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

hagvöxtur.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Það er mjög ánægjulegt að hér sé verið að fjalla um árangur ríkisstjórnarinnar vegna þess að við erum mjög ánægð með þann árangur sem við höfum náð við mjög erfið skilyrði. Ég finn að þeir sem tala úr þessum ræðustól reyna að draga niður þann árangur sem þó hefur náðst. Það eru helst erlendir sérfræðingar sem lyfta upp þeim árangri sem við höfum náð og finnst hann mjög mikill. Hagvaxtarspárnar hafa verið nokkuð rokkandi eins og hv. þingmaður nefndi og hagvöxtur upp á 2,5–3% held ég að sé mjög góður, miðað við þá stöðu sem er í Evrópu. Honum var spáð lítillega meira, það er rétt, en það er af ýmsu að taka þegar við veltum fyrir okkur af hverju það hefur ekki tekist. Það er kannski ekki síst sú staða, það ástand sem hefur verið í Evrópu sem hefur dregið úr og ekki gefið þann hvata sem þarf til að koma hér af stað ýmsum fjárfestingum.

Ég held að við getum verið ánægð með það sem er fram undan í þessum efnum. Það eru ýmsir fjárfestingarsamningar í gangi, miklar framkvæmdir fyrirhugaðar t.d. á Bakka, svo ég nefni það. Hægt er að nefna fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem mun skila hagvexti og fjölga störfum, það er áætlun til næstu þriggja ára. Við vitum að við höfum náð árangri í að auka kaupmátt, þar höfum við náð aukningu, og við höfum náð niður verðbólgunni þó að hún sé því miður allt of há og við höfum ekki náð þeim markmiðum sem við settum okkur í því efni. Á því eru ýmsar skýringar (Forseti hringir.) og ekki síst sú sem ég nefndi áðan.