141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að ljúka stjórnarskrármálinu á þessu kjörtímabili. Áherslur stjórnarflokkanna á að ljúka þessu máli hafa verið í ferli meira og minna allt kjörtímabilið, og reyndar frá 2009. Þetta ferli er einstakt og hvernig á því hefur verið haldið. Þetta mál er styttra komið en ég hefði óskað á þessum tímapunkti þegar ekki lifir lengra af þessu kjörtímabili, en málið er í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, meðferðin á því og hvernig haldið er á því.

Nú hafa flestar nefndir þingsins, að því er ég best veit, haft þetta frumvarp til umfjöllunar og skoðunar líklega í heilan mánuð. Það er beðið eftir því að þær skili álitum sínum. Það er fremur rúmur tími sem nefndirnar hafa fengið til að veita umsögn eina saman til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þannig að þeim gengur nokkuð hægt að klára málin.

Eins og ég segi er málið í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ég vona að hún komist að niðurstöðu um það hvernig best sé að haga fyrirkomulagi í því. Mér er kunnugt um að forustumenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa verið í samtölum við forustumenn stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hvernig best sé að halda á því.

Ég leyni því ekki að ég tel skynsamlegast að halda á því með þeim hætti að menn setji niður tímaplan þar sem lagt verði upp með hvernig frumvarpið verður rætt á Alþingi. Síðan verður tíminn að leiða í ljós hvort menn klára þetta mál endanlega, en það er mín eindregna ósk að svo verði. Þetta hefur fengið umfjöllun hjá ýmsum sérfræðingum og (Forseti hringir.) ýmis álit liggja fyrir. Væntanlega munum við fá Feneyjaálitið í lok þessa mánaðar þannig að okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að klára málið. Í þessu máli sem svo mörgum öðrum er það oft vilji sem ræður því hvort mál þokast áfram eða ekki.