141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

afstaða stjórnarþingmanna til ESB.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Út af ummælum hv. þingmanns ætla ég að rifja upp að þegar samþykkt var að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu fóru menn vitaskuld í atkvæðagreiðslu. Tillagan var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 28 þannig að hún hafði drjúgan meiri hluta eins og mörg önnur mál sem spáð er hér áður en þau koma í atkvæðagreiðslu að nái ekki fram að ganga.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður rifjar hér upp, einhverjir þingmenn Vinstri grænna voru á móti þessu ákvæði stjórnarsáttmálans. Ég veit þó ekki betur en að stjórnarsáttmálinn hafi farið í gegnum flokksráð Vinstri grænna og verið samþykktur þar eins og hann var samþykktur í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Það er ekkert meira um það að segja. Þó að einstaka þingmenn Vinstri grænna hafi verið á móti málinu hafði þetta drjúgan meiri hluta í þinginu og var samþykkt í flokksstofnunum beggja flokkanna. Það er lykilatriði í málinu.

Varðandi samþykkt Alþingis var ítarleg greinargerð lögð fram með þessari þingsályktunartillögu, m.a. um einstaka kafla og einstaka þætti á þessari vegferð. Ég veit ekki betur en að það hafi í einu og öllu verið leiðarljós þeirra sem hafa staðið í þessum samningum að fylgja leiðsögninni í þeirri þingsályktunartillögu. Ég held að það sé ekkert yfir því að kvarta.

Þegar spurt er hvort hver þingmaður geti talað eins og hann vill í þessu máli verð ég að segja að ég veit ekki til þess að málfrelsið hafi verið tekið af hv. þingmanni eða öðrum í málinu. Niðurstaðan var alveg klár í stjórnarsáttmálanum, það átti að ljúka viðræðum og bera samninginn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.)