141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

orð forseta Íslands um framgöngu Breta og hryðjuverkalögin.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á ýmis mál sem varða forseta Íslands og ýmislegt af því sem fram hefur komið hjá forsetanum er ég alls ekki sammála eins og að Evrópusambandið sé að stefna í átt til sambandsríkis. Ég er alls ekki sammála því.

Varðandi Icesave sem hv. þingmaður nefndi tel ég að staðið hafi verið vel að því máli og að við höfum undirbúið okkur vel undir þá niðurstöðu sem kemur á mánudaginn. Við erum með mjög sterkt málflutningsteymi í því máli þannig að ég tel góðar vonir um að Ísland vinni það mál. Málstaður okkar þar er mjög góður og að því hefur verið unnið mjög vel undir forustu hæstv. utanríkisráðherra.

Varðandi málflutning forsetans almennt á erlendum vettvangi og reyndar hér innan lands líka er forsetinn auðvitað frjáls að því hvað hann segir og hvernig hann leggur út af hinum ýmsu málum. Ég hef stundum sagt að það sé kannski ekki ráðlegt að forsetinn stígi mikið inn á hinn pólitíska vettvang, en hann ræður auðvitað gerðum sínum og máli. Við höfum víða og oft látið óánægju okkar í ljós með framkomu Breta, ekki síst varðandi setningu hryðjuverkalaganna og ég tel að Bretar skuldi okkar afsökunarbeiðni varðandi það framferði sitt sem er algerlega óafsakanlegt, að setja hryðjuverkalögin á Ísland. Ég kom þeim skilaboðum á sínum tíma til Camerons að þeir skulduðu okkur afsökunarbeiðni í því máli og væru þeir menn að meiri ef þeir bæðust afsökunar. En ég get ekki tekið undir málflutning forsetans almennt í fjölmiðlum í gær. Hann ræður auðvitað orðum sínum en mér fannst hann ganga nokkuð langt þar.