141. löggjafarþing — 72. fundur,  28. jan. 2013.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

510. mál
[16:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég held að draga megi þá ályktun af henni að þeir þingmenn sem hér hafa talað vilji að málið sé skoðað áfram í þeim dúr sem ég hef hér lýst. Ég get alveg tekið undir það og hef reyndar talað fyrir því sem þingmaður á sínum tíma fyrir mörgum árum að það væri mjög mikilvægt að stofna hagdeild við Alþingi og held að það ætti að vinda bráðan bug að því, því að það hefur verið niðurstaðan úr þeim viðræðum sem farið hafa fram milli Stjórnarráðsins og Alþingis um þetta efni. Ég vona að af því verði sem fyrst.

Ég held að sé alveg full ástæða til að skoða tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um þjóðhagsstofu. Þetta er ekkert heilagt nafn sem ég nefndi áðan um hagrannsóknastofnun. Mikilvægast af öllu er að við komum á fót óháðri sjálfstæðri stofnun, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi. Ég held að það hafi verið mikil eftirsjá að Þjóðhagsstofnun á sínum tíma þegar hún var lögð niður fyrir ellefu árum síðan. Ég man að þáverandi ríkisstjórn, en þáverandi forsætisráðherra beitti sér fyrir niðurlagningu á þeirri stofnun, sú ríkisstjórn beitti sér fyrir því að í staðinn yrði aukið fjármagn til hagdeilda aðila vinnumarkaðarins. Það er mín skoðun að það hafi alls ekki komið í staðinn fyrir Þjóðhagsstofnun sem hafi gegnt mjög veigamiklu hlutverki.

Maður freistast stundum til að hugsa, vegna þess hruns sem við höfum gengið í gegnum, hvort einhverjar viðvörunarbjöllur hefðu getað komið þaðan þegar við þurftum sannarlega á því að halda, enda er það rannsóknarnefndin sjálf sem bendir á að koma þurfi upp stofnun sambærilegri við Þjóðhagsstofnun. Ég mun vinna málið áfram á þeim grunni sem ég hef lýst og vona að (Forseti hringir.) þingið geri það sem bent er á að það geri; að taka upp sérstaka hagdeild við þingið.