141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

framhald stjórnarskrármálsins.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál, breyting á stjórnarskrá Íslands, á betra skilið en að um það sé fjallað í ræðustól með þeim hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins gerir, með órökstuddum fullyrðingum og útúrsnúningum. Þótt ég teldi að við hefðum hér allan tíma í heimi, langt fram á sumar, mundi það ekki duga Sjálfstæðisflokknum til að fjalla um þetta mál vegna þess að hann hefur engan áhuga á að þetta mál verði klárað á vakt þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Ég held að það séu staðreyndir málsins. Hann vill hafa málið allt öðruvísi en stjórnlagaráð hefur gert tillögur um og hann er að vona að hans tími komi hér til að geta haft utanumhald um þetta mál og fara þá með það með líkum hætti og gert hefur verið undanfarna áratugi með litlum árangri.

Það er útúrsnúningur hjá hv. þingmanni að ég hafi sagt í ræðustól að það hafi verið tekið tillit til allra ábendinga Feneyjanefndarinnar. Það er rangt. (Forseti hringir.) Yfir það verður vandlega farið eins og öll önnur atriði í stjórnlagafrumvarpinu og það hefur verið tekið tillit til fjölmargra atriða og tillagna sem hafa komið frá sérfræðingum og fræðasamfélaginu. (ÓN: Það er bara rangt.)