141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég áttaði mig sannarlega ekki á því að ég væri að flytja einhver stórtíðindi í þingsal, eins og hv. þingmaður lýsir því. (Gripið fram í.) Litlu verður Vöggur feginn, segi ég bara. Það sem ég var að segja er að ég fagna þeim tillögum sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram. Hann hefur að minnsta kosti sett fram tillögur um það hvernig hann sjái fyrir sér að hægt sé að ljúka þessu máli. Það er heldur meira en ég hef séð frá Sjálfstæðisflokknum.

Það er einlæg von mín og ósk að við getum lokið þessu máli á sem farsælastan hátt fyrir þjóðina og í samræmi við þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni.