141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla mála fram að þinglokum.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður veit mætavel að það eru mörg mál frá ríkisstjórninni sem liggja enn fyrir í nefndum og hafa ekki verið afgreidd en þurfa að fá afgreiðslu. Mér telst til að það gæti verið nálægt 50 mál þannig að það væri ágæt byrjun að byrja á þeim og reyna að koma þeim hingað til þings svo hægt sé að taka þau til umræðu. Annars eru það nefndirnar sjálfar og nefndarformenn sem forgangsraða í sínum nefndum og meta hvaða mál eru komin í þann búning að hægt sé að afgreiða þau til þingsins. En það eru mjög mörg mál sem bíða.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru tvö, þrjú mál sem eiga eftir að koma til þingsins, m.a. varðandi Bakka og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður sé á móti því að við reynum að afgreiða það. Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið svo (Gripið fram í.) við munum þá eiga góða samvinnu í þinginu um að afgreiða það mál. Síðan eru það gjaldeyrishöftin, (Gripið fram í.) hv. þingmaður, og ég held að þverpólitísk samstaða sé um að reyna að afgreiða það mál. Við eigum því samvinnugrundvöll (Forseti hringir.) í ýmsum málum í þinginu.