141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér vantrauststillögu á ríkisstjórnina flutta öðru sinni af hv. þm. Þór Saari og verð ég að segja að hún veldur mér bæði undrun og vonbrigðum. Hv. þm. Þór Saari hefur verið ötull stuðningsmaður þess að frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga nái fram að ganga. Það er því vægast sagt sérkennilegt þegar þingmaðurinn velur að leggja til atlögu við ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann sem harðast hefur barist fyrir breytingum á stjórnarskránni allar götur frá 2009. Ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti sem borið hefur fram allt ferli stjórnarskrármálsins, þjóðfundinn, skipan stjórnlagaráðs, rétt fólks til að greiða atkvæði um stjórnarskrártillögur og gert allt sem í valdi þeirra hefur staðið til að ná þessu merka lýðræðisferli í höfn í samræmi við þann skýra þjóðarvilja sem að baki því stendur.

Hv. þingmaður velur í raun heimskulegustu leið sem hægt er að hugsa sér í núverandi stöðu. Hann ræðst til atlögu við helstu samherja sína í málinu og kallar eftir bandalagi við þá sem helst hafa barist gegn nýrri stjórnarskrá, með málþófi og klækjabrögðum sem aldrei fyrr.

Verði tillagan samþykkt er það vísasta leiðin til að ná engum árangri í stjórnarskrármálinu. Þetta kalla ég uppgjöf á lokasprettinum. Einmitt nú er mikilvægt að úthaldið bresti ekki til að ná farsælum lyktum í þetta mikilvæga mál.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur unnið mjög þétt saman með Hreyfingunni til að þoka málinu áleiðis og unnið mjög gott starf þar sem tekið hefur verið mið af athugasemdum og gagnrýni sem fram hefur komið. Að mínu mati er okkur ekkert að vanbúnaði að leiða stjórnarskrármálið til farsælla lykta á Alþingi á grundvelli þeirrar miklu og vönduðu vinnu sem fram hefur farið allt þetta kjörtímabil og í reynd allt frá minnihlutastjórninni 2009.

Mér er enda til efs að nokkurt mál hafi fengið eins mikla umfjöllun á vettvangi þingsins í sögu lýðveldisins og ný og breytt stjórnarskrá hefur fengið á þessum tíma. Hið eina sem kemur í veg fyrir afgreiðslu málsins er fordæmalaust málþófsofbeldi þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að enginn ríkisstjórnarmeirihluti í lýðveldissögunni hefur verið jafneinbeittur í vilja sínum til að breyta stjórnarskránni og sá sem nú starfar. Og það sem meira er, hann hefur verið tilbúinn til að gera það á grundvelli tillagna sem mótaðar hafa verið af fólkinu sjálfu.

Þær tillögur sem fyrir liggja eru ekki tillögur Samfylkingarinnar eða tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þær eru tillögur fólksins í landinu. Og hver stendur í vegi fyrir framgangi þeirra? Eru það stjórnarflokkarnir sem háttvirtur þingmaður vill lýsa vantrausti á? Nei, auðvitað ekki. Andstæðingar málsins eru þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hv. þingmaður vill nú færa í hendur stjórn landsins samkvæmt tillögunni.

Síðan er það auðvitað kafli út af fyrir sig að þessi tillaga er meingölluð og ég spyr hæstv. forseta: Hefur það verið skoðað af hálfu þingsins hvort hún sé þingtæk í óbreyttri mynd? Í greinargerð með tillögunni er gert ráð fyrir að þing verði rofið og að skipuð verði starfsstjórn fulltrúa allra flokka á þingi. Allir sem eitthvað vita um stjórnskipan landsins þekkja að þannig standa menn ekki að málum.

Það verður enginn flokkur skikkaður í ríkisstjórn hvað sem líður samþykktum meiri hluta þings og auðvitað yrði það forseta Íslands að meta hvort og þá hvernig staðið yrði að skipan ríkisstjórnar í framhaldinu ef vantraust á sitjandi ríkisstjórn yrði samþykkt í dag. Það verður líka fróðlegt að sjá hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks greiði tillögunni atkvæði sitt í ljósi efnisatriða og greinargerðar hennar.

Og hver eru rökin þar fyrir vantrausti? Jú, að þingið geti ekki afgreitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga, sem þessir flokkar, íhaldið og Framsókn, hafa með kjafti og klóm staðið í vegi fyrir að nái fram að ganga allt þetta kjörtímabil. Ég spyr: Hvers lags vitleysa er þetta, virðulegi forseti? Og vitleysan er síðan kórónuð með því að eitt efnisatriða tillögunnar er að boða til kosninga þótt þegar liggi fyrir að kosningar verða eftir sjö vikur og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla er hafin fyrir nokkru.

Ég býst við að vandfundinn sé annar eins skrípaleikur í tillöguflutningi á Alþingi. Það verður fróðlegt að sjá hverjir styðja slíkan málatilbúnað.

Virðulegi forseti. Vilji þjóðarinnar til breytinga, til aukins lýðræðis, almannaréttar og mannréttinda og til betri stjórnarhátta almennt er augljós og eindreginn. Tveir af hverjum þremur sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs vilja að þær verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá landsins. Þann þjóðarvilja ber okkur að virða og ég sem þingmaður og forsætisráðherra þessa lands velkist ekki í vafa eitt augnablik um skyldu mína í málinu. Og ég hef staðið í þeirri trú að hv. þingmaður væri mér þar sammála. Að því er nú unnið undir forustu formanna stjórnarflokkanna að tryggja að þessi skýri þjóðarvilji verði að veruleika þrátt fyrir hatramma og óbilgjarna andstöðu stjórnarandstöðunnar.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari hlýtur að átta sig á að samþykkt tillögu hans gæti falið í sér að til yrði nýr meiri hluti á Alþingi sem hefði forustu um framhald málsins. Meiri hluti skipaður þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokk, hv. þm. Þór Saari og fleirum. Það grátbroslega er að svo virðist sem þingmaðurinn telji meiri líkur á árangri í stjórnarskrármálinu í því samstarfi en í samstarfi við núverandi stjórnarflokka. Á því feigðarflani mundi hv. þm. Þór Saari bera mesta ábyrgð.

Virðulegi forseti. Við erum á lokasprettinum og spurningin er: Höfum við úthaldið sem þarf til að klára málið? Kröfuna um að góð sátt ríki um stjórnarskrárbreytingar má ekki túlka þannig að ávallt beri að leita lægsta samnefnara á andstæðum skoðunum sem uppi kunna að vera. Slíkt leiðir í raun ekki til neinna breytinga, engrar framþróunar á íslensku samfélagi, á íslensku stjórnkerfi, á möguleikum almennings til áhrifa og þátttöku, á stjórnmálamenningu landsins. Þannig munum við ekki ná markmiðum um aukna mannréttindavernd né munum við með slíkum aðferðum ná að tryggja með fullnægjandi hætti til framtíðar sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum sínum.

Virðulegi forseti. Mér hefur lengi verið ljóst að það þarf alls ekki alltaf að vera samasemmerki milli víðtækrar sáttar í samfélaginu og víðtækrar sáttar hér á hinu háa Alþingi. Á það ekki hvað síst við þegar kemur að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Á þeim grunni hef ég í gegnum árin lagt til að kosið yrði til bindandi stjórnlagaþings sem fengi það sérstaka verkefni að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni, verkefni sem Alþingi Íslendinga hefur ekki tekist að klára þrátt fyrir að hafa haft tæp 70 ár til verkefnisins.

Síðast stóð ég ásamt forustumönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi nema Sjálfstæðisflokksins að flutningi slíkrar tillögu vorið 2009 án þess þó að hún næði fram að ganga, því miður, vegna málþófs sem þá var viðhaft. Því erum við í þeirri stöðu sem raun ber vitni. Umræðan um stjórnarskrána sem varað hefur síðustu fjögur ár hefur tekið 150 klukkustundir á Alþingi, og það má sannarlega leiða líkur að því að ekkert mál á Alþingi frá upphafi hafi verið rætt eins lengi. Þar hefur umræðan og krafan um að þjóðareign á auðlindum yrði fest í stjórnarskrána aldrei verið meiri. Það getur skipt sköpum fyrir framtíðina og eðlilega hlutdeild allrar þjóðarinnar í gífurlegum auðæfum sem felast í auðlindum að ná þessu fram nú á þessu þingi. Jafnaðarmönnum er einum treystandi fyrir því að auðlindaákvæðið verði þannig úr garði gert að þjóðin sjálf en ekki fáir útvaldir njóti afrakstursins af auðlindum þjóðarinnar í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Hvergi er munurinn meiri á hinni víðtæku sátt í samfélaginu annars vegar og á Alþingi hins vegar en þegar kemur að álitaefnum um hina veigamestu grundvallarhagsmuni þjóðarinnar sem lúta að umráðum og eignarhaldi á auðlindum þjóðarinnar. Þannig svöruðu tæp 85% þeirra sem þátt tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2013 þeirri spurningu játandi að þeir vildu að auðlindir sem ekki væru í einkaeigu yrðu lýstar þjóðareign. Sú niðurstaða ætti ekki að koma neinum á óvart, þessi afstaða almennings hefur verið þekkt lengi. Þrátt fyrir það hefur Alþingi í áratugi heykst á að fara að þeim vilja þjóðarinnar. Í mínum huga er algert grundvallaratriði að núverandi þing breyti stjórnarskránni í samræmi við vilja þjóðarinnar í auðlindamálum.

Að þessu er nú unnið undir forustu formanna stjórnarflokkanna en af því verður hins vegar tæplega, verði vantraust samþykkt hér í dag. Ætlar hv. þm. Þór Saari að koma í veg fyrir að þessi vilji þjóðarinnar nái fram að ganga?

Hæstv. forseti. Ábyrgð þingmannsins Þórs Saaris er mikil.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur nú stjórnað landinu í rúm fjögur ár og einn og hálfur mánuður lifir af kjörtímabilinu. Á þeim fordæmalausa og merka tíma sem liðinn er frá hruni hefur þjóðin unnið sannkallað þrekvirki við endurreisn samfélagsins og ég fullyrði að engin ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur komið eins mörgum þjóðþrifamálum í gegn á einu kjörtímabili.

Ég fullyrði líka að engin ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur tekið við jafnslæmu búi og snúið því jafnrækilega við á einu kjörtímabili. Ísland rambaði á barmi þjóðargjaldþrots og samfélagslegrar upplausnar. Það var því fyrir fram vitað að verkefnið yrði ekki til vinsælda fallið. Við blasti að taka þyrfti á mörgum og erfiðum málum og það hefur kostað mikið þrek og þor hjá þingmönnum stjórnarflokkanna að ganga í gegnum hreingerningarnar eftir hrunið.

Stjórnarmeirihlutinn hefur aldrei misst sjónar af heildarhagsmunum þjóðarinnar þrátt fyrir að hafa yfir sér sífelld svikabrigsl stjórnarandstöðunnar sem veifað hefur sýknt og heilagt óábyrgum gylliboðum og villt um fyrir þjóðinni með tilboðum um gull og græna skóga sem nú eru endurtekin í aðdraganda kosninganna. Hér var gífurlegur fjárlagahalli, óðaverðbólga, okurvextir og fjárhagur flestra fyrirtækja og heimila í rúst. Atvinnuleysisvofan lagðist yfir landið. Á aðeins fjórum árum hefur Ísland snúið vörn í sókn, kröftugri lífskjarasókn en flest okkar helstu samanburðarlönd geta státað af.

Í rúm tvö ár hefur hagvöxtur á Íslandi verið meiri en í flestum löndum OECD, atvinnuleysi er um helmingi minni en það varð mest og er með því lægsta sem mælist. Kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna hefur vaxið jafnt og þétt og eignastaða heimilanna batnar.

Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað um sem nemur tvöfaldri landsframleiðslu á þremur árum og eru skuldir heimila nú lægri en þær voru árið 2007. Við höfum stoppað í fjárlagagatið og sjáum fram á bjartari tíma og lækkun skulda. Greiningaraðilar hækka lánshæfismat Ísland og nú er svo komið að skuldatryggingarálagið á Íslandi er ekki nema tíundi hluti þess sem það varð mest og traust á Íslandi er óðum að vaxa. (Gripið fram í.) Þessum ótrúlega árangri í ríkisfjármálum höfum við náð, án þess að hækka heildarskattheimtu ríkisins. Þvert á móti tekur ríkið nú smærri hluta landsframleiðslunnar til samfélagslegra verkefna en ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerðu fyrir hrun.

Um 60% allra heimila bera lægri skattbyrði en fyrir hrun og tekjubilið milli hinna ríku og þeirra sem minna hafa handa á milli hefur minnkað umtalsvert. Jöfnuður er nú meiri á Íslandi en í flestum löndum heims. Þar erum við í góðum hópi norrænu landanna þótt skattbyrðin hér sé umtalsvert lægri. Á sama tíma hefur umfang velferðarþjónustunnar vaxið sem hlutfall af landsframleiðslu. Þannig hefur verið forgangsraðað í þágu jöfnuðar og velferðar eins og norrænni velferðarstjórn sæmir. Þessari ríkisstjórn vill hv. þm. Þór Saari víkja frá til að koma að umboðslausri ríkisstjórn í einn og hálfan mánuð sem ljóst er að engu mun fá áorkað, allra síst í málefnum stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Dettur einhverjum í hug að slíkt ástand þjóni hagsmunum landsmanna? Hvað yrði þá um þau fjölmörgu mál sem nú liggja fyrir þinginu og stjórnarflokkarnir ætla sér að afgreiða? Mál sem varða mikilvæga atvinnuuppbyggingu, kjör almennings, heilbrigðismál, efnahagsmál, og umhverfismál, svo eitthvað sé nefnt. Telur hv. þm. Þór Saari eða aðrir þeir sem hyggjast greiða atkvæði með þessari tillögu að betur muni ganga að leiða þessi mál til lykta ef núverandi stjórnarflokkar segðu sig frá landsstjórninni? Nei, tillaga þingmannsins er út í hött og mun ef samþykkt verður leiða til óstöðugleika og hringlandaháttar við stjórn landsins í einn og hálfan mánuð, þegar engan tíma má missa. Það er alls ekki það sem Ísland þarfnast, enda treysti ég því og trúi að tillagan verði felld.