141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mjög freistandi þetta ákvæði sem hv. þingmaður bendir á um að hægt sé að rjúfa þing á miðju næsta kjörtímabili út af stjórnarskránni og boða til kosninga ef svo illa fer að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda. En ég tel að ákvæðið sem er verið að vinna með í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé nauðsynlegt af því að þá er hægt að breyta stjórnarskránni án þess að boða til kosninga.

Ég hefði auðvitað viljað að við hefðum getað gengið miklu lengra og náð miklu stærri áfanga á þessu kjörtímabili en í stefnir og við hefðum getað klárað stjórnarskrána. Mér finnst raunar að ekkert sé að vanbúnaði ef þingmenn tækju sér nokkra daga til að ræða það ágæta álit sem hefur komið frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um heildarendurskoðun á stjórnarskránni. En það er alveg ljóst að til þess er ekki vilji í stjórnarandstöðunni og því hafa formenn stjórnmálaflokkanna farið þá leið að flytja þau tvö mál sem eru núna væntanlega á lokastigi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Vonandi munum við sjá þau fljótlega, helst á þessum degi, í þinginu þannig að hægt sé að taka til við að ræða þau. Ég held að það sé líka mjög brýnt að við sjáum í því máli áður en það verður til lykta leitt á Alþingi að minnsta kosti breytingu á auðlindaákvæðinu.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Getum við ekki átt von á því að við getum átt samleið í að ná fram breytingu á auðlindaákvæðinu að minnsta kosti, áður en við ljúkum þessu þingi og helst einnig breytingu varðandi beint lýðræði, sem eru þau tvö ákvæði sem hv. þingmaður og reyndar fleiri þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað fyrir að ættu að ná fram að ganga. Ég man ekki betur en að lögð hafi verið áhersla á þessi ákvæði í ályktun á landsfundi þeirra nýlega. Ég hefði talið að við gætum átt samvinnu í því og ég skora á hv. þingmann að beita sér fyrir því. Ég skal gera það í mínum röðum þannig að við getum náð sameiginlegri niðurstöðu um þessi tvö mikilvægu ákvæði ásamt breytingarákvæðinu.