154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við þessa 1. umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025–2029 langar mig að leggja nokkur orð í púkkið. Það er auðvitað svo sem eins og mátti reikna með að útgjaldavöxturinn heldur áfram í svona nokkuð stöðugum takti samkvæmt þeim áætlunum sem hér liggja fyrir. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi í framsöguræðu sinni talað um að horft væri til að jafnaði 4% útgjaldavaxtar á ári næstu fimm árin sem skýrir kannski að hluta til með hvaða hætti markaðurinn brást við daginn sem fjármálaáætlunin var kynnt þar sem flestar tölur — flest fyrirtæki voru rauð þann daginn í viðskiptum innan dagsins sem þýðir að gengi þeirra hafi lækkað. — Klukkan, herra forseti.

(Forseti (AIJ): Hún er eitthvað að klikka.)

Ég get auðvitað bara talað hraðar en þetta er svona heldur knappur tími, þykir mér. Ef þú vildir vinsamlegast líta til með þessu.

Það sem vekur auðvitað vonbrigði er að nú sé horft til þess að það séu færð aftur um ár þau áform að ná fram hallalausum fjárlögum, hallalausum ríkisrekstri, og árið 2028 nefnt í því samhengi í staðinn fyrir 2027, ef ég man rétt, samkvæmt núgildandi áætlun. Það verður að hafa í huga að það ár liggur að kosningaári sem gerir líkurnar á því að árangur náist hvað aðhald varðar minni en annars væri. Við horfum fram á þennan þriðja stærsta útgjaldalið ríkissjóðs, vextina, vera að kosta okkur slíkar ótrúlegar tölur að við verðum að leita allra ráða til að vinda ofan af þeirri þróun.

Ég tók sérstaklega eftir því, og spurði einmitt hæstv. ráðherra að því hér í andsvörum við framsöguræðu ráðherrans fyrr í dag, að engar skattalækkanir eru áformaðar á þessu fimm ára tímabili. Ég leitaði sérstaklega að þessu bara í ljósi yfirlýsinga formanns Sjálfstæðisflokksins á fyrri stigum sem hefur talað á þeim nótum að flokkurinn muni tala fyrir skattalækkunum í aðdraganda næstu kosninga. Það er greinilegt að þær sjást ekki í þeirri fjármálaáætlun sem nú er lögð fram sem eins og allir held ég að viti — þó að í raun hæstv. fjármálaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, mæli fyrir málinu þá hlýtur það í öllum meginatriðum að hafa verið unnið á meðan Sjálfstæðismenn fóru með lyklavöldin í fjármálaráðuneytinu, þannig að það kemur á óvart að ekki sé flaggað neinum skattalækkunum í neinu samhengi á þessu fimm ára tímabili nema þá í því samhengi sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan í andsvari við mig um mögulega t.d. aflagningu gistináttagjalds sem væri þá væntanlega mætt með annarri skattheimtu á móti þannig að það er ekki eiginleg lækkun gagnvart þeirri starfsemi þó að útfærslan yrði önnur. En á sama tíma er staðið við öll möguleg áform um skattahækkanir sem virðist vera meiri festa í að framfylgja heldur en hugmyndum um skattalækkanir.

Það er auðvitað þannig að það er ánægjulegt í sjálfu sér fyrir okkur í þingflokki Miðflokksins að sjá þau áhersluatriði sem sett eru á oddinn hjá þessari nýsamsettu ríkisstjórn þar sem áhersluatriði Miðflokksins til langs tíma eru kjarnaatriðin. Það eru orkumálin, útlendingamálin og ríkisfjármálin. Þetta, svo ég segi það eins og er, vakti mikla lukku hjá okkur í þingflokki Miðflokksins þegar formenn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks tilkynntu þessar áherslur og maður gat ekki annað en vonað að árangur næðist þótt fyrstu skrefin hafi kannski ekki verið til þess að auka manni tiltrú á því, svona í ljósi þess að Vinstri græn fóru strax í að vinda ofan af þessari sameiginlegu afstöðu í orkumálum.

Ríkisfjármálin eru með þeim hætti sem hér er lagt fram, sem sagt að mínu mati allt of lítið aðhald í ríkisfjármálunum til að styðja við það að Seðlabankinn geti komist í lækkunarfasa stýrivaxta, og síðan útlendingamálin. Við þekkjum auðvitað þá sögu þegar 4 blaðsíðna sameiginlegur skilningur ríkisstjórnarflokkanna, sem kynntur var 20. febrúar, ef ég man rétt — það tók Vinstrihreyfinguna – grænt framboð ekki nema 13 daga að hverfa frá stuðningi við það plagg þótt það væri að meginhluta til uppbyggt af óskum þess ágæta flokks, en við verðum að vona.

Síðan er auðvitað ekki annað hægt en að nefna hér atriði sem varða útgjöld til samgöngumála og tekjuöflun þeim tengd. Það er hér fjallað um í nokkuð löngu máli að það séu áætlaðar umtalsverðar fjárveitingar inn í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins umfram það sem áður hafði verið áætlað. Hérna segir, með leyfi forseta:

„Í tengslum við viðræður sem standa yfir um viðauka samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að framlag til Betri samgangna aukist um 4 ma.kr. frá og með árinu 2025 eða samtals um 20 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Til viðbótar beinum framlögum til Betri samgangna er gert ráð fyrir 20 ma.kr. lánveitingu úr ríkissjóði til verkefnisins á tíma áætlunarinnar.“

Þetta eru sem sagt 40 milljarðar, 40.000 milljónir sem eru áætlaðar þarna umfram það sem áður var úr ríkissjóði inn í verkefni samgöngusáttmálans. Þetta eru auðvitað slíkar risavaxnar tölur að við þingmenn hljótum að gera kröfu um það að þessi endurskoðaði samgöngusáttmáli líti dagsins ljós áður en þessi fjármálaáætlun er afgreidd hér í þinginu. Það bara stenst enga skynsemisskoðun að ætla að bíða með að sjá til lands í þeim efnum áður en hér eru samþykkt 40.000 milljóna viðbótarframlög ríkissjóðs, annars vegar helmingurinn í beinu framlagi og helmingurinn í formi láns sem liggur ekki fyrir með hvaða hætti verður endurgreitt. Alla vega skildi ég hæstv. ráðherra þannig að það væri í öllu falli ekki með afrakstri sölu byggingarréttar í Keldnalandinu þannig að það er einhvers staðar væntanlega aftan við framkvæmdatíma sem er verið að horfa á endurgreiðslu þeirrar upphæðar. Mér segir svo hugur að þetta lán verði aldrei endurgreitt, alla vega ekki í þeim skilningi sem almenningur og fyrirtæki landsins leggja í það að endurgreiða lán.

Það sem kannski vekur líka ugg hvað varðar stöðu ríkissjóðs og afkomu er að nú virðist vera orðið svona nokkuð ljóst að ríkissjóður sé að hafa afgerandi aðkomu að rekstri þessarar svokölluðu borgarlínu. Það er eitthvað sem var algerlega aftekið sem möguleiki, það kæmi ekki til greina þegar var verið að setja hér og fá í gegnum þingið samþykki þess að stofna hið opinbera hlutafélag sem í dag heitir Betri samgöngur ohf. Ég minni bara á orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar í umræðunni þar sem enginn þurft að velkjast í vafa um að skilningur hans, og í því samhengi Sjálfstæðisflokksins, væri sá að aðkoma ríkissjóðs að rekstri borgarlínu kæmi ekki til greina, punktur. Nú er þetta allt saman breytt þannig að við erum bæði að horfa á gríðarlega aukin framlög ríkissjóðs til verkefnisins umfram það sem áður var áætlað, plús aðkomu sem mér segir svo hugur að verði býsna umfangsmikil að rekstri þessa apparats.

Tíminn er svo stuttur að maður verður að hliðra til nokkrum atriðum sem áttu að koma inn í þessa ræðu, en það er auðvitað svo mörgu hliðrað í þessu samhengi núna eins og Stjórnarráðsviðbyggingunni sem er búið að hliðra svo oft að hún hlýtur að fara að rekast í Stellu þarna uppi í Bankastrætinu. En mig langar í lokin að koma inn á það sem varðar fyrirséðar breytingar á tekjuöflunarkerfi hvað varðar kostnað við akstur og ökutæki. Hér er teiknuð upp sú mynd að hún skuli ná 1,7% af vergri landsframleiðslu, skattlagning á ökutæki og eldsneyti, og utan þess hlutfalls gef ég mér, þó það hafi ekki komið skýrt fram áðan, að sé virðisauki sem á undirliggjandi innkaup leggst þannig að þetta eru umtalsverðar tölur en það á auðvitað að gera margt í samgöngumálum.

En það sem mig langaði að vekja athygli hér á og gera athugasemd við er að hér á bls. 22, undir Samgöngur – framtíðartekjuöflun og nýjar leiðir í uppbyggingu, segir, með leyfi forseta:

„Meginstefið í breyttu kerfi“ — sem sagt gjaldtökukerfi á umferð — „er að þeir greiði sem njóta í takti við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar.“

Hvers vegna þarf nú að þvæla þessu þarna inn? Er ekki greiðslan fyrir afnot af vegakerfinu og væri þá ekki ágætt að menn alla vega horfðu til þess að menn borguðu til samræmis við notkun á vegakerfinu? Þetta kemur á óvart, þessi setning, og ef tækifæri gefst til síðar í umræðunni væri áhugavert að heyra hvort ráðherrar hafi sterka skoðun á akkúrat þessu.