154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:38]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Endurnýjuð ríkisstjórn tekur við erfiðu búi eftir efnahagsóstjórn síðustu ára. Ríkisstjórninni hefur gengið verr að ná niður verðbólgu heldur en löndunum í kringum okkur. Vextir eru einhverjir þeir hæstu í hinum vestræna heimi. Þeir eru kannski hærri í Úkraínu, Rússlandi, ég veit ekki hvernig staðan er í Tyrklandi, en á Íslandi eru þeir eins og þeir eru og heimilin í landinu líða fyrir þetta. Fólk sem bindur vonir við að eignast þak yfir höfuðið en er ekki með sterkt fjárhagslegt bakland er í hálfvonlausri stöðu um þessar mundir eins og við þekkjum. Á leigumarkaði hafa verið miklar hækkanir sem bitna auðvitað harðast á tekjulægsta fólkinu sem hefur átt erfiðara og erfiðara með að ná endum saman. Og enn sitja leigjendur eftir nær óvarðir með miklu lakari réttarvernd heldur en tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þessu þarf að breyta.

Seðlabanki Íslands ákvað nýlega að halda vöxtum óbreyttum og vísaði þá sérstaklega til þess að uppi væri ákveðin óvissa um ríkisfjármálin, hvort þau myndu slá á eða auka á þenslu. Ríkisstjórnin í sínum vandræðagangi síðustu vikurnar sniðgekk lagafyrirmæli um að leggja skuli fjármálaáætlun fram fyrir 1. apríl. Nú er plaggið komið og þá sjáum við að þau eiga í stökustu vandræðum með að fylla í stóra gatið í ríkisfjármálunum sem er til komið eða öllu heldur stækkaði með aðgerðum vegna kjarasamninga og aðgerðum vegna náttúruhamfara. Við sjáum 49 milljarða halla í ár og ríkið verður ekki rekið með afgangi fyrr en árið 2028.

Hvað þýðir þetta? Við erum sem sagt að tala um níu ára tímabil af hallarekstri ríkisins. Ríkið er rekið með halla á tímabilinu 2019–2028. Þetta er ekki til marks um ábyrga efnahagsstjórn og auðvitað eru þessi lausatök ein af ástæðum þess hve verðbólgan hefur verið þrálát hér á landi miðað við löndin í kringum okkur og hversu háir vextir eru. Þetta hefur m.a. fjármálaráð, sem er óháður sérfræðingahópur sem skipaður er á grundvelli laga um opinber fjármál, bent á. Það er fólkið í landinu, það eru heimilin í landinu sem bera skaðann af þessari óstjórn og þessu ábyrgðarleysi.

Allt frá því að hagkerfið fór að taka við sér eftir heimsfaraldur höfum við í Samfylkingunni kallað eftir auknu aðhaldi í ríkisfjármálum. Það er ekkert skemmtilegt að tala fyrir þessu en þetta er ábyrg afstaða og þetta er rétt afstaða. Og já, eins skelfilegt og stjórnarliðum mörgum hverjum kann að virðast það, þá höfum við kallað eftir því að hér verði farið í að sækja auknar tekjur hjá þeim sem eru allra tekjuhæstir og eignamestir, að hér verði farið í að innheimta réttlát auðlindagjöld og skattleggja hvalrekagróða í sjávarútvegi og í fjármálageiranum. Við höfum talað fyrir því að einmitt þannig megi skapa svigrúm til að verja betur heimilisbókhaldið hjá almenningi og til að vinna gegn þenslu og ná niður verðbólgu.

Ég ætla að fá að vitna í orð hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra sem sagði í pallborðsumræðum hjá Neytendasamtökunum og verkalýðshreyfingunni í fyrra: Við tókum verðbólguna ekki nógu alvarlega strax. Þetta er alveg rétt hjá henni. Ríkisstjórnin svaf á verðinum þegar verðbólga fór að rjúka upp úr öllu valdi árið 2022 og við værum á betri stað ef ríkisstjórnin hefði þá strax komið sér saman um afgerandi aðgerðir, afgerandi skilaboð og afgerandi áætlun til þess að vinna gegn þenslunni. Þá hefði kannski Seðlabankinn getað komist hjá því að hækka vexti svona oft og mikið og halda þeim jafn lengi svona háum eins og virðist stefna í.

Ef við skoðum núna hvaða aðgerðir á að fara í hér til að auka aðhald og vinna gegn þenslu þá er þetta eiginlega allt saman sett á útgjaldahliðina frekar en tekjuhliðina. Frumtekjur sem hlutfall af landsframleiðslu dragast lítillega saman á áætlunartímanum en frumgjöldin, þau dragast enn meira saman. Þar lendir aðhaldið. Hér sjáum við frestun framkvæmda, við erum með almennt aðhald og óútfærðar ráðstafanir eins og hér hefur verið fjallað um.

Hvar fann stjórnarmeirihlutinn stærstu matarholurnar? Grípum hérna niður í kafla með yfirskriftinni: Forgangsraðað er fyrir aðkomu ríkissjóðs af kjarasamningum á almennum markaði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Til að vega upp á móti þeim útgjaldaauka, sem aðkoma ríkisins að kjarasamningunum felur í sér, er gert ráð fyrir sértækum ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti.“

Svo er vikið að því hverjar þessar ráðstafanir nákvæmlega eru og þá segir, með leyfi forseta: „Munar þar mestu um seinkun á gildistöku nýs örorkubótakerfis“ og svo eru fleiri atriði talin upp en þetta er það fyrsta sem er nefnt. Þessi seinkun er með öðrum orðum kynnt sérstaklega til leiks sem aðgerð til að liðka fyrir og búa til rými fyrir aðgerðir vegna kjarasamninga. Þannig eru hlutirnir settir fram hér í þessari fjármálaáætlun. Þessi bið sem öryrkjar þurfa að sætta sig við, þessi seinkun, er kynnt sem aðhaldsráðstöfun. En stjórnarliðar kveina hérna eins og stunginn grís þegar talað er um þetta.

Hér verð ég líka að gera sérstaklega athugasemdir við framgöngu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér í gær þegar hv. þm. Kristrún Frostadóttir átti orðaskipti við hann. Þar reyndi hæstv. ráðherra einhvern veginn að þræta fyrir það að spara ætti 10 milljarða á næsta ári með frestun á gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis og lét eins og þetta væri bara allt einhver misskilningur hjá konu sem bara kynni ekki að lesa eða hefði bara ekki lesið nógu langt. En í þessu tilviki var hæstv. ráðherra sjálfur úti á túni. Það kemur mjög skýrt fram í greinargerð þessarar fjármálaáætlunar að vegna frestunar á gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis verði útgjöld meira en 10 milljörðum lægri á næsta ári en áður var gert ráð fyrir. Þetta er kynnt sem sérstök aðgerð vegna forgangsröðunar í þágu kjarasamningsaðgerða. Þannig velur ríkisstjórnin að stilla hlutunum upp.

Nú getur vel verið, virðulegi forseti, að frestunin skýrist af því að framkvæmdin taki lengri tíma en áður var gert ráð fyrir, það þurfi meiri tíma til undirbúnings o.s.frv. Gott og vel, það má vel vera. En þar er þá við hæstv. ríkisstjórn að sakast. Þau gáfu öryrkjum væntingar um að þeir fengju kjarabætur í ársbyrjun 2025. Það var gert ráð fyrir því í síðustu fjármálaáætlun, það var gert ráð fyrir því þegar frumvarpið um breytingar á kerfinu var í samráðsgátt en nú liggur fyrir að það verður ekki staðið við þetta. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að frumvarp hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra kom nú fullseint hingað inn í þingið og umfjöllun um það er varla hafin í velferðarnefnd og það er enn þá algjörlega á huldu hvernig hinu samþætta sérfræðimati verður háttað sem er nú bara grundvallaratriði og grundvallarupplýsingar til að Alþingi geti tekið afstöðu til þessa máls. En allt að einu þá eru hér öryrkjar enn og aftur látnir bíða. Þetta er einhver tekjulægsti hópurinn í íslensku samfélagi.

Hér á ríkisstjórnin sér bara engar málsbætur. Þannig er það nú bara. Þessir flokkar eru búnir að stjórna landinu í sjö ár. Það hefur verið talað um og unnið að endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu árum saman og alltaf stefnt að því að kerfið verði einfaldað út frá svona sams konar hugsun og var gert hérna með ellilífeyriskerfið árið 2016, svo nægur hefur undirbúningstíminn nú verið. Og ef pólitískur vilji væri til þess, virðulegur forseti, þá væri auðvitað hægt að nýta, þótt ekki væri nema hluta af þessum 10 milljörðum til að létta undir með þessum tekjulága hópi fram að gildistöku stóru breytinganna. En nei, ríkisstjórnin segir nei af því að aðhaldið á að lenda á öryrkjum.

Tölum aðeins um hin fjölmenna hópinn sem reiðir sig á almannatryggingakerfið, eftirlaunafólkið. Hér er gert ráð fyrir því að útgjöld vegna ellilífeyris lækki varanlega um 2,5 milljarða. Þessu hefur ráðherra fagnað sérstaklega. Þetta er útskýrt í greinargerð frumvarpsins með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Lækkunin tekur mið af áætlun um að greiðslur ellilífeyris verði lægri en fjárheimild í gildandi fjármálaáætlun sem rekja má til aukinna tekna ellilífeyrisþega, einkum vegna greiðsla úr sameignardeildum lífeyrissjóða.“

Auðvitað fagnar maður auknum tekjum ellilífeyrisþega en önnur og kannski réttari leið til að útskýra þessa lækkun á útgjöldum ríkisins væri að segja: Framlög til ellilífeyris lækka vegna þess að fleiri og fleiri krónur koma til skerðingar á lífeyri almannatrygginga í ljósi þess að frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna hefur rýrnað um tugi þúsunda að raunvirði í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. Við erum enn þá með 25.000 kr. frítekjumark vegna tekna úr lífeyrissjóðum og allt umfram þetta kemur til skerðingar á greiðslum frá TR. Þetta frítekjumark væri meira en tvöfalt hærra ef það hefði fylgt verðlagi, sem þýðir á mannamáli að þessi skerðing verður skarpari og sárari og sárari. — Ræðutími minn er eiginlega bara á þrotum.

(Forseti (AIJ): Bara alveg.)

Bara alveg, segir hæstv. forseti, þannig að ég ætla að segja þetta gott í bili.