154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:20]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Bréfið sem hv. þingmaður vísar til er orðið rétt um 11 ára gamalt, þ.e. fyrir kosningarnar 2013, og á því kjörtímabili, 2013–2016, var strax gripið til umfangsmikilla aðgerða. Við byrjuðum t.d. á því að hætta að láta lífeyristekjur skerða grunnlífeyri. Við lækkuðum skerðingarprósenturnar og afturkölluðum skerðingar stjórnarinnar sem tók við hér eftir fjármálahrunið skref fyrir skref. Þetta var í tíð Eyglóar Harðardóttur sem félagsmálaráðherra. Þetta voru umfangsmiklar breytingar þar sem við fylgdum eftir því sem lofað hafði verið. Auðvitað vildu sumir meina að það ætti að draga úr öllum skerðingum. Þegar ég skrifaði „ellilífeyrir“ í þetta tiltekna bréf þá var ég að tala um grunnlífeyri almannatrygginga, grunnlífeyririnn sem var byrjað að skerða í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það sem mestu skiptir samt varðandi kjör þessa hóps eru kerfisbreytingarnar sem fylgdu í kjölfar vinnu sem Pétur H. Blöndal heitinn, þingmaður, fór fyrir og síðar tók Þorsteinn Sæmundsson við af honum þegar Pétur féll frá og við bundum síðan í lög. Við getum séð þetta mjög vel, bæði í svöruðum fyrirspurnum hér á þinginu, t.d. einni fyrirspurn sem hv. þm. Óli Björn Kárason lagði fyrir ráðherrann, og við getum sömuleiðis séð það á Tekjusögunni að okkur hefur tekist að stórbæta kjör ellilífeyrisþega. Ég get bara sagt alveg eins og er að við erum stolt af þeim kerfisbreytingum sem þar voru tryggðar. Í lögum er síðan þessum hópum tryggðar sambærilegar kjarabætur og almennt semst um á vinnumarkaði og það er svarið við síðari spurningunni.